Fara í efni

RAUÐI ÞRÁÐURINN KYNNTUR Á LAUGARDAG

Þegar Rauði þráðurinn kom út í byrjun árs hafði ég á orði í gamni (og líka svolítilli alvöru) að þar með væri komin út fyrsta jólabók ársins 2022 því það er útgáfuárið. Og þótt það ár sé ekki á enda runnið er búið að endurútgefa bókina með viðbótarkafla og nú í kiljuformi.

Útgefandinn, bókaútgáfan Sæmundur, býður til bókamessu í Safnaðarheimili Grensáskirkju (Háaleitisbraut 66 í Rv.) laugardaginn 5. nóvember næstkomandi kl. 14-17.
Þar hefur mér verið boðið að lesa úr Rauða þræðinum. Ég hef að sjálfsögðu þegið það boð og býð ykkur sem þetta lesið að líta við. Ég les upp um klukkan þrjú en þarna verður margt áhugavert á dagskrá eins og sjá má í fréttatilkynningu útgefanda þar sme segir m.a:

“Höfundar og aðstandendur nýrra bóka munu þar kynna og lesa upp.

Fáséðar og merkar fornbækur verða boðnar upp á örstuttum bókauppboðum sem fram fara á heila tímanum kl. 15, 16 og ef samkoman treinist svo lengi kl. 17.

Kaffi og kruðerí 

Allar nýjar bækur Sæmundar á sérstöku tilboðsverði.

Þær bækur sem við reiknum með að verði kynntar þennan dag:

Kl.14.10:

- Fræðabálkur að ferðalokum eftir Þórð Tómasson

- Minningar Guðrúnar Borgfjörð

- Örlagaskipið Artic eftir Gísla Jökul Gíslason

- Lúkíansþýðingar Sveinbjarnar

Kl.15.10:

- Rauði þráðurinn eftir Ögmund Jónasson

- Ég er nú bara kona eftir Emblu Hakadóttur

- Álfadalur eftir Guðrúnu Jónínu Magnúsdóttur

- Launstafir tímans eftir Heimi Steinsson

Kl. 16.10:

- Svartdjöfull eftir Gunnlaug Bjarnason

- Millibilsmaður eftir Hermann Stefánsson

- Skáld-Rósa, heildarsafn ljóða 

- Júnkerinn af Bræðratungu eftir Pál Skúlason”