Fara í efni

RÆNT Í RÓM


Mordechai Vanunu
hafði starfað við kjarnorkuáætlun Ísraels í 9 ár þegar hann ákvað árið 1985 að hefja baráttu gegn smíði Ísraelsmanna á kjarnorkuvopnum. Hann hafði gert sér grein fyrir þeirri hættu sem mannkyninu stafaði af þessum vopnum. Yfir kjarnorkuáætlun Ísraelsmanna hvíldi þá sem nú mikil leynd. Kjarnorkuvopnahreiður voru neðanjarðar og rækilega falin fyrir öllum utanaðkomandi. Jafnvel bandarískir eftirlitsmenn sem vildu hafa eftirlit í þessum efnum á sjöunda áratugnum fengu ekkert að vita.

Vanunu ákvað að segja heiminum frá vitneskju sinni. Hann hélt til Ástralíu með gögn sem hann hafði undir höndum, meðal annars myndir af kjarnorkubúnaðinum. Í Sidney í Ástralíu hafði hann samband við blaðamann sem skrifaði ítarlega frásögn um málið og hélt með hana til Lundúna. Þangað fór Vanunu einnig. Ástralski blaðamaðurinn hafði samband við Sunday Times í Lundúnum og óskaði eftir birtingu. Blaðið hikaði þó við að birta frásögnina og vildi ganga rækilega úr skugga um sannleiksgildi hennar. Á meðan ritstjórnin kannaði málið beið Vanunu í Lundúnum en varð þess var að ísraelska leyniþjónustan var á höttunum eftir honum. Fór hann því til Rómar og hugðist bíða þar uns greinin birtist, eftir það yrði erfiðara um vik að vinna honum nokkurt mein. Það vissi leyniþjónustan einnig. Hún komst á snoðir um ferðir Vanunus og rændi honum í Róm, flutti hann til strandar, þar sem beið hans skip mannað ísraelskum hermönnum og leyniþjónustumönnum. Hann var fluttur nauðugur til Ísraels og næstu vikurnar vissi enginn um hvar hann var niðurkominn aðrir en mannræningjarnir. Þegar Vanunu var hins vegar dreginn fyrir rétt í desember árið 1986 komst hann í heimsfréttirnar. Hann hafði skrifað á lófa sinn að sér hefði verið rænt í Róm og fluttur nauðugur til Ísraels. Fréttamenn náðu að mynda lófa hans þegar hann þrýsti honum að rúðunni á bílnum sem flutti hann til réttarsalarins. Þannig fékk heimurinn að vita hvað gerst hafði. Áður hafði frásögn ástralska blaðamannsins birst í Sunday Times. Það var 5. október árið 1986.
Vanunu hlaut 18 ára dóm og sat í fangelsi þar til hann var látinn laus í apríl í fyrra. Hann er þó ekki frjáls sinna ferða því hann má ekki fara úr landi og ekki ræða við útlendinga í eitt ár, þ.e. til 21. apríl á þessu ári. Það hefur hann þó gert enda biðu hans um eitt hundrað fréttamenn þegar honum var sleppt úr fangelsinu.
Vanunu á þann draum að flytjast úr landi og hefja nýtt líf. Þegar hann fór til Ástralíu fyrir tæpum tuttugu árum, sem áður segir, lét hann skírast til kristinnar trúar, meðal annars í þessu skyni. Þetta varð síðan til þess að í fangelsinu í Ísrael fékk hann stöðu Palestínumanns en ekki gyðings. Í ellefu og hálft ár var hann í stöðugri einangrun. Framan af voru engar heimsóknir, enginn aðgangur að síma, og jafnvel þegar prestur vildi hitta hann urðu þeir að skiptast á orðsendingum skriflega sem verðir síðan lásu. Síðar fengu bróðir hans og systir að hitta hann í hálfa klukkustund á viku. Í tvö ár var ljósið haft kveikt í herbergi hans, skrúfað fyrir heitt vatn þegar hann var í sturtunni og þegar hann fékk að sjá kvikmyndir í sjónvarpi var sýningu iðulega hætt í miðri mynd, allt gert til þess að brjóta hann niður andlega.

Seinni hluta fangavistarinnar var þessi háttur einnig hafður á og pósti, sem hann sendi frá sér eða til hans var beint, var yfirleitt haldið mánuðum saman í fangelsinu þar sem allt var rækilega yfirfarið.
Ísraelar eru ekki aðeins að eyðileggja Palestínumenn heldur einnig sjálfa sig, sagði Vanunu á fundi sem við áttum með honum í Jerúsalem. Hann sagðist hafa fengið hlýjar kveðjur frá Íslandi. Þar hefði bróðir sinn verið til að kynna málstað sinn og lauk hann lofsorði á Elías Davíðsson fyrir framgöngu hans í þágu mannréttinda og friðar.

Við spurðum Vanunu hvort fylgst væri með ferðum hans. Hann sagði að sér væri ekki fylgt eftir en það væri engu að síður fylgst með ferðum sínum. Skömmu eftir fund okkar spurði starfsmaður hótelsins hvort Mordechai Vanunu hefði verið á fundi á herbergi okkar. Það er nefnilega bannað að taka á móti gestum á gistiherbergjum á þessu hóteli. Til Mordechai Vanunu hefði sést með okkur hér en menn höfðu ekki séð hann halda á brott frá hótelinu.  


Myndina tók Eiríkur Jónsson formaður KÍ, sem og aðrar myndir í ferðinni, á fundi okkar ferðafélaganna með Vanunu í Jerúsalem.