Fara í efni

RÆNDUR LÍFINU – EN ÆRUNNI EKKI


Dauðsjúkur að koma heim eftir rúm tuttugu ár í fangelsi.

Það var mikil lífsreynsla að koma upp í Golanhæðirnar í dag. Ekki aðeins vegna þess að þar er landslag fagurt heldur fyrst og fremst vegna þeirrar lífsreynslu, sem við ferðafélagarnir, Eiríkur Jónsson, formaður KÍ, Borgþór Kjærnested, skipuleggjandi ferðarinnar hér í Palestínu, Ísrael og nú Sýrlandi einnig, urðum fyrir. Þetta var nefnilega dagurinnn sem Hayl Abo Zed var látinn laus eftir tuttugu og eitt ár í fanglesi. Ekki svo að sklija að hann hafi afplánað allan dóminn sem hann hlaut. Hann hafði hljóðað upp á 28 ár. Hayl Abo Zed er haldinn hvítblæði á alvarlegu stigi og er talinn eiga skammt eftir ólifað. Langt er síðan hann kenndi sér meins en var meinuð læknismeðferð þar til um seinan.
Því má segja með nokkrum sanni að þessi 47 ára gamli Sýrlendingur hafi verið sviptur lífinu í tvennum skilningi, þeim hluta ævinnar, sem menn eru þrekmestir og síðan möguleikanum að fá læknisaðstoð í tæka tíð – annað hvort til að læknast af sjúkdómi sínum eða skjóta banvænum áhrifum hans á frest.
En ærunni var Hayl Abo Zed ekki sviptur. Það vottuðu þúsundir bæjarbúa í heimabæ hans, Majdal-Shams, 10 þúsund manna bæjar hátt í Golanhæðum. Þorri bæjarbúa fagnaði heimkomu hans af ákafa og innilegheitum. Svo tilfinningaþrungin var þessu stund að hún gat engan mann látið ósnortinn. Það voru ekki einvörðungu íbúar í  Majdal-Shams sem fögnuðu Hayl Abo Zed heldur einnig íbúar allra nærliggjandi þorpa. Þeir mynduðu samfellda fagnandi keðju alla leiðina til heimabæjarins. Við vorum í miðri bílalestinni og fengum yfir okkur hrísgrjón frá konum og stúlkum sem voru á svölum húsa og á gangstéttum alla leiðina sem ekin var. Úr okkar bíl blakti fáni Palestínu og var okkur sérstsklega fagnað af þeim sökum.
Annars var það einkum sýrlenski fáninn sem var uppi enda eru Golanhæðirnar sýrlenskt land sem hernumið var í Sex daga stríðinu árið 1967. Fyrir þann tíma voru 139 þorp á þessu svæði og íbúafjöldinn 130 þúsund. Með þvinguðum fólksflutningum var fækkað niður í 7 þúsund manns! Þeim hefur síðan fjölgað um 10 þúsund og eru nú um 17 þúsund. Handan landamæranna hefur einnig fjölgað og búa þar nú á milli 4 og 5 hundruð þúsund manns. Við gættum okkar á að segja handan landamæranna, forðuðumst að skírskota til Sýrlands eftir að við brenndum okkur á slíku orðalagi. Já, en þið eruð í Sýrlandi, var sagt við okkur þegar við töluðum á þennan veg.
Það er átakanlegt að heyra fólk á þessum slóðum segja frá hlutskipti sínu. Við komum inn á heimili tveggja systkina, fólks sem gæti verið um sextugt. Það hafði verið aðskilið frá öðrum fjölskyldumeðlimum í rúma þrjá áratugi og var það ekki fyrr en nú nýlega að fjölskyldan hafði fengið leyfi til að hittast í Amman í Jórdaníu!Í þorpinu var - uppi á hæsta tindi - ísraelsk herstöð. Og fyrir neðan hana voru gaddavírsgirðingar og svæðið þakið jarðsprengjum. Jarðsprengjusvæðin voru merkt en ekki svo rækilega að ólæs smábörn höfðu rambað inn á þessi belti og látið þar lífið, nú síðast fimm ára drengur.
Við þorpið liggja landamærin að Sýrlandi, og eins og við mátti búast eru þau rækilega girt með öllu tilheyrandi, rafmagnsgaddavír, jarðsprengjum og úr varðturnunum eru árvökul augu varðmanna, sem stöðugt hafa fingurinn á byssugikknum, ætli sér einhver að freista þess að komast yfir landamærin. Margir höfðu reynt en enginn komist yfir. Allir höfðu verið drepnir á flóttanum.Nánast allar fjölskyldur á þessum slóðum og í Palestínu hafa misst ættingja sína í stríði og ofbeldisaðgerðum Ísraela. Þetta gildir ekki síður um fangelsanir. Nánast allar fjölskyldur þekkja ísraelsk fangelsi beint eða óbeint.  Með okkur í för var fólk úr sunnanverðri Palestínu. Við höfðum staðið í þeirri trú að fólkið væri að heimsækja ættingja sína á Golanhæðum. Og vissulega heilsaðist fólkið eins og nánir ættingjar. Á daginn kom hins vegar að það var ekkert skylt. Það hafði hins vegar kynnst í ísraelskum fangelsum. Greinilega myndast þar tengsl sem eru engu ótraustari en nánustu fjölskyldutengsl. Við sátum í herbergi sem var þéttskipað einstaklingum sem bundið var slíkum traustum samstöðu- og vinatengslum; allir höfðu setið í fangelsi í lengri eða skemmri tíma.
Samkennd þessa fólks er geysilega sterk, ekki aðeins þeirra sem setið hafa í fangelsi. Hún gagntekur samfélagið allt. Í dag var sameiningartáknið einstaklingur sem rændur var lífinu í baráttu fyrir frelsi þessa fólks. Hann hafði unnið það til saka að berjast fyrir frelsi og leyfa sér að skipuleggja andstöðu gegn hernámi og niðurlægingu samfélagsins sem hann hrærðist í. Nú sýndi þetta sama samfélag þakklæti sitt í hans garð – sýndi honum hve mikils virði hann var því. Hann var baráttumaður að koma úr útlegð.
Hins vegar virðist okkur ferðafélögunum samkennd og hlýhugur fólks á þessum slóðum rista dýpra en nemur þeim fögnuði sem við urðum vitni að í dag. Hlýjan og gestrisnin er greinilega þessu fólki í blóð borin. Að lokinni sjálfri móttökuathöfninni í dag var sest að langborði með dýrindis veisluföngum. Hverjir eiga að sitja hér til borðs, spurðum við. Allir, var svarað að bragði. En hverjir útbjuggu matinn? Allir, var svarað.
Þetta er fólk sem ekki verður auðveldlega brotið niður. Um það sannfærðumst við rækilega í dag.

.