Fara í efni

Ræðst við á götuhorni

Maður stöðvaði mig á götuhorni í dag og kvaðst hafa hlustað á samræður okkar Péturs H. Blöndals alþingismanns í Kastljósi Sjónvarps í gær. Þar hefði Pétur haldið því fram eina ferðina enn, að ef fólk væri ekki að sýsla með eigin fjármuni færi það illa með þá. Viðmælandi minn á göturhorninu sagðist halda að þessu væri alveg öfugt farið. Heiðvirt fólk væri einmitt sérstaklega varkárt þegar því væri treyst fyrir annarra manna fé. Það væri frekar að menn væru óvarkárir þegar um peninga úr eigin pyngju væri að ræða.
En fyrst kastaði þó tólfunum, sagði viðmælandi minn,  þegar Pétur H. Blöndal, sem væri formaður Efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis, ræddi um vexti og vaxtamun. Hann hefði sagt að allt hefði færst til betri vegar eftir að ríkisbankarnir voru gerðir að hlutafélögum. Viðmælandi minn kvaðst vilja ráðleggja öllum að fletta upp í sínum Mogga og horfa þar á vaxtatölur. Vel gæti verið að stórfyrirtækin fengju vildarkjör en það ætti ekki við um sig og sína líka – hinn almenna borgara. Meðalútlánsvextir væru 11,9%, dráttarvextir 17% en innlánsvextir á almennar sparisjóðsbækur væru uppgefnir 0,15%! "Kalla menn þetta lítinn vaxtamun? Hvað eru menn eiginlega að fara með því að leggja blessun sína yfir þetta okur, sem fer síður en svo minnkandi," sagði viðmælandinn á horninu og var nú orðið heitt í hamsi. "Síðan kemur í ljós að að bönkunum finnst ekki nóg kreist út úr skuldunautum sínum nema þeir hafi að minnsta kosti 20% arðsemi af bankarekstrinum. Þetta sagði einn bankastjórinn án þess að blikna þegar  tilkynnt var að sá banki sem hann veitti forstöðu hefði hagnast um 3065 milljónir á fyrstu sex mánuðum þessa árs." 
Áður en við kvöddumst bað hann mig lengstra orða að reyna að sjá til þess að fjölmiðlar könnuðu staðhæfingar þingmannsins. Þeirri áskorun er hér með komið á framfæri.