Fara í efni

RÁÐHÚSIÐ SÝNIR REISN

Vihjálmur Þ. Vilhjálmsson borgarstjóri hefur sent Háskóla Íslands bréf þar sem óskað er eftir því að horfið verði frá áformum um að Happdrætti skólans starfræki spilasal í Mjóddinni.

Borgarráð hafði samþykkt erindi þessa efnis. Samþykktin er svohljóðandi: "25. Borgarráð tekur undir áhyggjur íbúa í Breiðholti og hverfisráðs Breiðholts sem hafa mótmælt rekstri svokallaðs spilasalar á vegum Háskóla Íslands í Mjódd. Ráðið telur slíka starfsemi ekki heppilega á þessum stað, hvorki fyrir verslunarmiðstöðina né hverfið í heild. Borgarráð samþykkir að skora á Háskóla Íslands að hverfa frá áformum um starfrækslu spilasalar í verslunarmiðstöðinni í Mjódd."

Nokkrar breytingar eru fyrirsjáanlegar  í verslunarkjarnanum í Mjóddinni. Ríkisvaldið hefur ákveðið að leigja húsnæði undir þá starfsemi sem var áður í Heilsuverndarstöðinni og fyrir vikið hefur eigendum tveggja verslana í göngugötunni þar verið sagt upp leiguhúsnæði. Þarna er í ráði að Happdrætti Háskóla Íslands komi með sína starfsemi. Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson segir í viðtali við Morgunblaðið á laugardag að hann telji slíkt vera slæman kost.

Morgunblaðið hefur eftir borgarstjóra beint og vitnar einnig í ummæli hans: "Tveimur vinsælum verslunum, annars vegar verslun úrsmiðs og hins vegar fataverslun, sé nú sagt upp húsnæði, Vínbúðin færð úr göngugötunni og spilasalur eigi að koma í staðinn. "Þetta skaðar verslunarmiðstöðina og það er mjög sérkennilegt að ríkið og Háskóli Íslands skuli standa að því," segir Vilhjálmur. Enginn óski eftir því að spilakössum sé fjölgað og spilasalur sé það versta sem hægt sé að koma fyrir inni í verslunarmiðstöð sem ætluð sé fyrir fjölskyldur til þess að versla og njóta þess að vera saman. "Ég vona það að menningarstofnunin Háskóli Íslands sýni verslunarmiðstöðinni í Mjódd þá skynsemi að hverfa frá þessum áformum," segir Vilhjálmur."

Ég vil taka eindregið undir með Vilhjálmi Þ. Vilhjálmssyni, borgarstjóra. Það er ástæða til að þakka honum og öðrum borgarfulltrúum fyrir þessa afstöðu. Ég hef margoft beint áskorun til Háskóla Íslands og borgaryfirvalda að loka spilavítisbúllunum. Við slíkum beiðnum hefur ætíð verið daufheyrst. Vonandi boðar þetta lífsmark borgarráðs og borgarstjóra breytta tíð. Það er staðreynd að tveir aðilar eru háðir spilakössunum. Annars vegar eru það spilafíklar, sjúkt fólk sem fjármagnar nýbyggingar hjá Háskóla Íslands, húsnæði undir Guðfræðideildina, Siðfræðistofnun og Viðskiptaskor. Hins vegar eru það þeir aðilar sem fá tekjur sínar frá spilakössunum sem eru þeim háðir. Þetta eru hinir raunverulegu fíklar. Ég hef oft orðið var við reiði þessara aðila þegar amast er við starfsemi þeirra. Ég skildi snemma hvers vegna fáir tóku undir með mér í þinginu að andæfa gegn spilakössunum. Smám saman rann það upp fyrir mér að það er ekki aðeins HÍ sem var undir heldur einnig Rauði Krossinn og Slysavarnarfélagið og fleiri fjölmenn og vinsæl félög. Gæti fjölmennið, vinsældirnar og góður málstaður þessara félaga vera ástæðan fyrir því að þau eru látin komast upp með að níðast á veiku fólki?