Fara í efni

RADDIR VONAR

Í heimsókn okkar félaganna Eiríks Jónssonar, formanns Kennarasambands Íslands og Borgþórs Kjærnested, fulltrúa félagsins Ísland Palestína, til Palestínu og Ísraels hittum við framan af einkum fulltrúa Palestínumanna og kynntumst hlutskipti þeirra, nokkuð sem hafði djúp áhrif á okkur eins og fram hefur komið í pistlum hér á heimasíðunni. Það var því mikill léttir að kynnast einnig gyðingum í Ísrael sem mótmæla í orði og athöfn framferði ísraelsku ríkisstjórnarinnar og ofbeldi og ofsóknum Ísraelsríkis á hendur Palestínumönnum. Fulltrúa eins slíks hóps hittum við í Tel Aviv. Þetta var ungt fólk sem neitar að taka þátt í hernáminu; neitar að gegna herþjónustu á herteknu svæðunum. Í landinu nú eru einir fjórir slíkir hópar og neita þeir á mismunandi forsendum. Hugrekki til að segja nei, Courage to refuse, heitir sá hópur sem við hittum, sjá heimasíðu þeirra, www.couragetorefuse.org . Fréttaskýrendur myndu segja að þetta væri miðjusæknasti andófshópurinn, en jafnframt sá stærsti. Á aðra hlið hans eru hópar sem neita af trúarástæðum að gegna herþjónustu og á hina hliðina friðarsinnar sem af sannfæringu hafna hvers kyns hernaði. Félagar í þessum hópi sem við hittum að máli eru á sjöunda hundrað talsins. Þau segja: Við styðjum Ísraelsríki og viljum taka þátt í vörnum okkar lands. Við neitum hins vegar að eiga nokkurn hlut að hernámi á svæðum sem tilheyra Palestínumönnum samkvæmt þeim landamærum sem nú hafa verið dregin upp. Ísraelsríki réttlætir hernám þessara svæða á þeirri forsendu að tryggja þurfi öryggi Ísraelsríkis. Okkur er annt um öryggið en hernámið grefur hins vegar undan öryggi Ísraels þvert á yfirlýst markmið.

Þau segja að baki sér sé hópur foreldra, "Parents of Soldiers", sem segi nú með vaxandi þunga að hernámið standist ekki þau siðferðilegu gildi sem þeim hafi sjálfum verið kennd og þau vilji innræta börnum sínum. Þess vegna styðjum við þau í andófinu, því hvers vegna ættum við að senda þau til að framkvæma annað en það sem við höfum kennt þeim.

Herskyldan hefst við 18 ára aldur og gegna karlar henni í þrjú ár og konur í tvö ár. Sá er munur á körlum og konum sem sendir eru til herþjónustu á herteknu svæðunum að karlarnir eru auk gæslustarfa settir í hersveitir sem jafnan eru til taks innan Palestínu en konurnar sinna fyrst og fremst gæslustörfum. Athyglisvert var að heyra að herinn sendir fyrst og fremst yngsta fólkið inn á svæði, sem hann skilgreinir hættuleg. Hvers vegna? Jú, vegna þess að óharnaða unglinga er auðveldara að ráðskast með en fullorðið fólk sem komið er með fjölskyldur og er raunsætt varðandi þær hættur sem það skapar sjálfu sér með hernaði innan Palestínu. Sá sem neitar að gegna herþjónustu á þeim forsendum sem þetta unga fólk gerir á sjálfkrafa yfir höfði sér mánaðarfangelsi.

Þessi hreyfing var stofnuð fyrir þremur árum og hefur verið að sækja í sig veðrið en vatnaskil urðu þó ekki fyrr en í september árið 2003. Þá kom upp samsvarandi hreyfing innan sérstakra baráttusveita í hernum – á meðal svokallaðra kommando hermanna – sem njóta almennt mikillar aðdáunar í Ísrael. í kjölfarið fylgdi síðan hópur orustuflugmanna sem eru "gangandi guðir í Ísrael". Þegar hér var komið sögu var andófið orðið ríkisstjórninni hættulegt og sagði unga fólkið með nokkru stolti að þetta andóf hafi án efa orðið til þess að Sharon ákvað að hopa á Gaza svæðinu og hefja brottnám gyðinga úr landránsbyggðum þar en þeir eru um 7000 talsins

 Konur sem vilja frið

Gila Svirsky sem stendur framarlega í friðarhreyfingu kvenna, Coalition of women for peace, ( www.coalitionofwomenforpeace.org  ) telur að brotthvarf frá Gaza væri mikill sigur og myndi hafa afleiðingar einnig á Vesturbakkanum. Hún efast mjög um heilindi Sharons en hann sé engu að síður sá maður sem geti framkvæmt þennan fyrsta áfanga. Lengra gengi hann ekki og gerði þetta aðeins tilneyddur. Hann myndi hins vegar ekki vera fær um að stöðva þróunina. Ástæðan væri sú að í landnemabyggðunum á Vesturbakkanum væri svo margt fólk sem vildi fegið komast þaðan. Hún sagði að á Vesturbakkanum væru nú um 400 þúsund landnemar eða landránsmenn eins og ég kýs að kalla þá. Þarna væru þeir af tvenns konar ástæðum, trúarlegum og hugmyndafræðilegum annars vegar, efnahagslegum hins vegar, fátækt fólk sem hefði tekið boði Ísraelsstjórnar um ódýrt húsnæði og margvísleg skattfríðindi. Ástæða væri til að ætla að síðari hópurinn væri miklu stærri. Enda hefði komið í ljós í skoðanakönnunum að 80% landnema hefðu sagst myndu snúa aftur til Ísraels fengju þeir efnahagslegan stuðning til þess. Og af þeim 20% sem eftir væru myndu flestir vera reiðubúnir að snúa til baka ef þeir nytu ekki lengur stuðnings Ísraelsríkis. Aðeins 2% myndu hvergi fara og þess vegna berjast gegn ísraelskum hermönnum sem skipuðu þeim að hafa sig á brott ef til þess kæmi. Þetta eru harðlínuofstækismennirnir sem Gila Svirsky segir ekki fleiri en 8000 talsins samkvæmt þessum könnunum. Og hún bætir við að andstaða í Ísrael gegn hernáminu sé mikil.

Andstaðan gegn hernáminu innan Ísraels

Fram hafi komið í skoðanakönnunum að 80% gyðinga í Ísrael séu því fylgjandi að gyðingar hverfi frá þeim hernumdu svæðum sem Ísraelsríki hefur skilgreint sem palestínsk svæði, "territories". Svirsky segir þjóðina almennt treysta Sharon fyrir útfærslunni eins kaldhæðnislegt og það nú hljómi í eyrum þeirra sem þekkja raunverulegan vilja hans. Það sem meira er, fyrir tuttugu árum hafi aðeins um 2-3% Ísraelsmanna talið að Jerúsalem ætti að vera skipt borg og Ísraelar aðeins halda vesturhlutanum. Nú sé 20% þessu fylgjandi. Þetta er mikilvæg breyting segir Gila Svirsky sem hvetur til raunsæis. Raunsæi Gilu deila harðlínumennirnir með henni. Þeir telja nefnilega einnig að fari boltinn að rúlla í Gaza með brotthvarfi þaðan þá verði hann ekki stöðvaður annars staðar. Það skýri hin geysihörðu viðbrögð af þeirra hálfu gegn nokkurs konar eftirgjöf.

Marga aðra andófshópa er að finna innan Ísraels og er virðingarverð sú staðfesta og hugrekki sem hópur kvenna hefur sýnt með því að standa stöðuga vakt á gæslustöðvum ísraelska hersins við landamæri svæða Palestínumanna. Þar fylgjast þær með framferði hermanna og gagnrýna verði þær varar við alvarleg mannréttindabrot. Unga andófsfólkið sem neitar að gegna herþjónustu á herteknu svæðunum hefur einnig haft í frammi mótmæli við sömu varðpósta.

Kveikir von í brjósti

Hvorki unga andófsfólkið í hernum né Gila Svirsky eru sammála talsmönnum Palestínumanna að öllu leyti, þótt einnig í þeirra röðum séu skiptar skoðanir. Þessir ísraelsku gyðingar sem hér hefur verið vísað til viðurkenna tilvist Ísraels og segja jafnvel, eins og Gila gerir, að landnemabyggðirnar í grennd við Jerúsalem, sem jafnframt séu fjölmennastar, verði aldrei tæmdar gyðingum og gæti verið þörf á tilslökunum af hálfu Palstínumanna þar gegn ávinningi annars staðar. Þetta finnst Palestínumönnum flestum vera út í hött. En þetta fólk talar þó saman með gagnkvæmri virðingu hvert fyrir öðru. Það var léttir að heyra slíkar raddir í Ísrael, ríki sem nú er sekt um einhver alvarlegustu mannréttindabrot nokkurs staðar á jarðarkringlunni. Þessar raddir kveikja von í brjósti. Það breytir ekki hinu að ekkert mun gerast nema heimsbyggðin leggist á eitt með Palestínumönnum og velviljuðum stuðningsmönnum þeirra innan og utan Ísraels að knýja fram breytta stefnu. Í því efni má aldrei gleyma hver bakhjarlinn er: Bandaríki Norður Ameríku.