Fara í efni

RADDIR GÆRDAGSINS

Fréttabladid haus
Fréttabladid haus

Birtist í Fréttablaðinu 07.09.09
Tveir gamlir stjórnmálajaxlar leggja undir sig leiðarsíðu Fréttablaðsins um helgina. Annar skrifar leiðara, hinn pólitíska fréttaskýringu. Báðir eru fyrrverandi. Leiðarahöfundurinn er fyrrverandi formaður Framsóknarflokksins, stjórnmálagreinandinn fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins. Einhvern veginn fannst mér skrif þeirrra beggja vera svolítið fyrrverandi.

Jón Sigurðsson, framsóknarmaður, segist vilja fá einkaaðila til að fjárfesta í orkuiðnaði. Þeir komi inn með svo mikla peninga, segir hann, og þekkingu: " Við þurfum að sækja þekkingu, viðskiptatengsl og fjármagn þangað sem þessa hluti er besta að finna ...." Leiðarinn gengur meira og minna út á að réttlæta aðkomu fjármagns í einkaeigu; að gagnvart því megi ekki ala á "tilefnislausri tortryggni" enda sé "hófleg aðrðtaka" af auðlindum "ekki arðrán." Jón Siguðrssson segir að við megum alls rugla saman auðlindum á láði og legi við auðlindir mannauðsins. Engar auðlindir komist " í hálfkvisti við auðlindir fólksins sjálfs." Hér mun vera átt við menntun og atgervi þjóðarinnar.
Spurningin sem Jón Sigurðsson svarar ekki er hvað sé frábrugðið við stöðu Íslendinga og annarra þjóða sem missa forræði yfir auðlindum sínum - og þar með getu til að standa straum af kostnaði menntakerfis og annarra innviða samfélagsins. Getur verið eftir upplýsandi umræðu í fjölmiðlum undanfarna daga um Hitaveitu Suðurnesja, að JS geri sér ekki grein fyrir því að fjárfestar þar koma ekki færandi hendi? Þeirra ætlan er þvert á móti að hafa af okkur peninga; láta arðinn færa sér eignir. Arður sem rennur inn í samfélag en ekki út úr því er til góðs. Arðurinn af Gvendarbrunnum og hitaveitum hefur hingað til runnið inn í samféalgið og byggt það upp. Geysir Green og Magma vilja hins vegar færa arðinn í eigin vasa! Hvaða þekkingu hafa þessir aðilar að bjóða?Yfir hvaða þekkingu í orkumálum búa þeir Bjarni, Hannes, Finnur...?

Svo er það Þorsteinn Pálsson, sjálfstæðismaður. Skrif hans þessa dagana virðast mér ganga út á það helst að túlka málefnalegar umræður innanbúðar í stjórnmálaflokkum sem valdabaráttu einstaklinga. Þetta er dæmigerð stjórnmálahugsun gærdagsins. Morgundagurinn snýst um opna umræðu og lýðræðislega. Þeir sem reyna að gera hana tortryggilega eiga heima í sögubókum fortíðarinnar. Kannski eiga fyrrverandi formenn Sjálfstæðisflokks og Framsóknar helst heima þar.