Fara í efni

PSI: DRÖGUM RÉTTA LÆRDÓMA AF FJÁRMÁLAKREPPUNNI


Undanfarna daga hef ég setið ársfund Public Services International  (Alheimssamtaka starsfólks í almannaþjónustu) í Genf í Sviss. Ég hef verið í stjórn PSI í nokkur ár. Stjórnin kemur saman til þriggja daga fundar einu sinni á ári. Þetta eru afar gefandi fundir; fólk frá öllum hornum heimsins að ráða ráðum sínum, skiptast á upplýsingum og skoðunum og taka stefnuna inn í framtíðina; heimurinn í hnotskurn.

 Misjafnt hlutskipti

Á þessum fundum er maður minntur á hve mismunandi aðstæður fólks eru með tilliti til efnahags og lýðréttinda. Strax í upphafi fundar minnast menn látinna félaga. Nú sem endranær var minnst látinna félaga. Alltaf er það sláandi þegar okkur er sagt frá félögum okkar sem hafa verið myrtir vegna starfa sinna fyrir verkalýðshreyfinguna. Þá verður það mér alltaf umhugsunarefni þegar fulltrúar víðs vegar að segja frá vandkvæðum sínum við að komast til fundarins.  Fólk í okkar heimshluta tekur ferðafrelsi sem gefið. Það geta ekki allir gert. sama gildir um réttinn til að stofna verkalýðsfélög. Víða er ótrúlegu ofbeldi beitt af hálfu stjórnvalda  til að koma í veg fyrir að launafólk stofni til samtaka, hvað þá þegar þau hafa sig í frammi í baráttu fyrir jöfnuði og velferð - og því sem verst þykir  - reyna að koma í veg fyrir að almannaeigum sé stolið með einkavæðingu.

Ofsóknir í Kolumbíu, Tyrklandi...

Einna verst er ástandið í Kólumbíu. Þar hafa 23 verið myrtir það sem af er þessu ári vegna þátttöku sinnar í verkalýðsbaráttu! Tyrkland var líka nefnt vegna illvígra stjórnvalda sem ráðist hafa með ofbeldi gegn fólki sem reynt hefur að mynda verkalýðssamtök innan opinbera geirans. Frá Eþíópíu var sögð svipuð saga svo og frá Mosambík. Í Líberíu vilja stjórnvöld ráða hverjir eru valdir til áhrifa í þeim samtökum sem á annað borð fá að vera til.
Mikil umræða fór fram um Kína og á hvern hátt við ættum að hafa samstarf við verkalýðssamtök þar en þau fá aðeins að starfa á forsendum yfirvalda. Guy Ryder, framkvæmdastjóri  ITUC (Heimssamtaka launafólks) flutti fundinum skýrslu um stöðu mála í Kína og kjölfarið urðu umræður.

Samskipti við Kína - en hvernig?

Guy Ryder talaði fyrir auknum samskiptum en með fyrirvörum þó. Kínversk verkalýðshreyfing yrði að vilja taka höndum saman með hinni alþjóðlegu hreyfingu um að setja fjölþjóðafyrirtækjum stólinn fyrir dyrnar hvað varðar lágmarksréttindi launafólks en sem kunnugt er hafa auðhringir haslað sér völl í Kína án þess að vera gert að hlíta reglum um lágmarksréttindi launafólks. Þá þyrfti að horfa til framferðis Kínverja sjálfra í ýmsum þróunarríkjum einkum Afríku. Guy Ryder sagði að fráleitt væri að horfa framhjá Kína enda mikið veldi, drjúgur hluti heimsins og mannkynsins! Síðan væri hitt að augljóst væri að á þriðja eða fjórða áratug aldarinnar væri Kína orðið mesta efnahagsveldi heimsins. Í tvo áratugi hefði hagvöxtur í Kína mælst í tveggja stafa tölum á hverju ári. Þegar væru Kínverjar orðnir fyrirferðamiklir á fjármálamörkuðum heimsins. Í vogunarsjóðunum væri  til dæmis mikið kínverskt fjármagn. Kínverjar færu hljótt því þeir vildu ekki hræða heiminn. Enn ein ástæðan fyrir því að ekki væri hægt að horfa framhjá Kína væri sú að þar væri nú mengað meira en nokkurs staðar á jarðkringlunni.

Vaxandi innri spenna í Kína


Í Kína væri greinilega vaxandi spenna. Sem dæmi var tekið að síðast þegar menn höfðu tölur sem taldar væru áreiðanlegar, það var fyrir árið 2005, hefðu orðið 314 þúsund vinnudeilur en áratug áður hefði talan aðeins verið 19 þúsund. Í Kína eru um 150 milljónir skráðar  í verkalýðsfélög. Þetta er samkvæmt vilja yfirvalda enda þessi félög nánast framlenging á þeirra armi. Það er þá spurningin hvernig eigi að haga samskiptum við slíka aðila. Sitt sýndist hverjum en almennt vildu menn samskipti með skilyrðum og var ákveðið að á vegum PSI færi sendinefnd til viðræðna.

Vantar 4,3 milljónir heilbrigðisstarfsmanna

Mikil umræða var á fundinum um heilbrigðismál. Tillaga var um að PSI stæði fyrir vitundarvakningu í heilbrigðisgeiranum, einkum í fátækari löndum heims, um mikilvægi þess að efla heilbrigðisþjónustu, bæta aðstæður starfsfólks og þar með sjúklinga. Bent var á samhengið, annars vegar á milli slæmrar aðstöðu og bágborinna kjara sem heilbrigðisstarfsfólki væru víða búin og hins vegar þeirrar þjónustu sem sjúklingum stæði til boða.
Samkvæmt upplýsingum Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar  (World Health Organisation), vantar 4,3 milljónir starfsmanna til að manna grunnþjónustu heilbrigðiskerfisins í heiminum. Manneklan  og slæm aðstaða hefði síðan áhrif á allt starfsumhverfið. Staðreyndin væri sú að í fátækari löndum væri heilbrigðisstarfsfólk í mikilli hættu að smitast af hættulegum sjúkdómum, AIDS, lifrarbólgu og fl.  Algengasta smitleiðin væri í tengslum við slys við sprautugjafir, einkum hvað varðar AIDS. PSI hefur látið útbúa sprautunálar og önnur tól sem eru sérstaklega hönnuð til að veita starfsfólki öryggi. Vitundarvakningin á að hefjast á spítalaganginum með úrræðum fyrir starfsfólkið NÚNA. Samhliða þessari nálgun sannfærist fólk um mikilvægi samtakamáttarins og verkalýðssamtaka.
Síðan verði unnið áfram stig af stigi með umræðum og tillögum um úrbætur í heilbrigðismálum. Þar komi skipulag heilbrigðisgeirans til skoðunar.

Markaðsvæðing gerir heilbrigðisþjónustuna dýrari og óskilvirkari

Í rannsóknarskýrslum sem vitnað var í á fundinum kemur fram að markaðsvæðing heilbrigðisþjónustunnar hafi leitt til aukins kostnaðar og versnandi þjónustu sem auk þess verði í ríkari mæli háð efnahag og staðbundnum aðstæðum. Þá var bent á að eftir því sem heilbrigðiskerfið væri aðþrengdara, þeim mun meiri líkur væru á að þættir á borð við atvinnusjúkdóma og heilbrigði á vinnustað sætu á hakanum. En hvað með kjörin? Hvers vegna batna þau ekki vegna manneklunnar, samkvæmt lögmáli um framboð og eftirspurn, ekki síst þegar haft er í huga að stórir hlutar þessa geira hafa verið einkavæddir?
Hinir nýju eigendur markaðsvæddrar þjónustu hafa fundið leið til að halda launakostnaði niðri í hinum ríkari hluta heimsins. Þeir flytja  einfaldlega inn starfsfólk frá þróunarríkjunum. Það hefur það í för með sér að launakjörin batna ekki í viðtökulandinu, jafnvel versna og í þróunarríkjunum veldur þetta stigvaxandi vanda með aukinni manneklu.

Fjármálakreppan brotin til mergjar

Á þinginu fengum við mjög greinargóða skilgreiningu á fjármálakreppunni sem nú fer yfir heiminn. Í skýrslu sem lögð var fram á fundinum vorum við minnt á hið sögulega samhengi; hvernig efnahagsvöxturinn á síðari hluta 20. aldarinnar hefði  skilað sér í uppbyggingu velferðarkerfa. Þessu hefði vissulega verið misjafnt varið í heiminum og innan einstakra ríkja hefði skipting verðmætanna verið með mismunandi hætti.  Í hinum iðnvædda heimi hefði hagvöxturinn þó þegar á heildina er litið skilað sér í því að fleiri hefðu haft aðgang að heilbrigðisþjónustu, menntun, góðu íbúðarhúsnæði og almennt betri lífskjörum. Almannaþjónustan var efld enda litið á hana sem tæki til að fullnægja þeim skyldum sem samfélagið  krafðist.  
Á síðustu tveimur áratugum aldarinnar var síðan gerð úthugsuð og markviss atlaga að þessari stefnu og varð hún til þess að draga úr ávinningum fyrri áratuga.

Greenspan og Strauss-Kahn  ráðleggja banvænan lyfjaskammt

Í greinargerð PSI er vísað til þess að Alan Greenspan, fyrrum stjórnandi bandaríska seðlabankans ( US  Federal Reseve Bank), hafi fram á síðustu stund neitað að viðurkenna að nokkuð væri að í fjármálakerfi heimsins.  Nú segi hann að kreppan sé sú alvarlegasta frá lokum síðari heimsstyrjaldar. Það verði án efa mörg fórnarlömb en vonandi verði ekki þeirra á meðal sú hugsun að leyfa markaðnum að leika frjálsum sem tæki til að tryggja stöðugleika í fjarmálakerfum á heimsvísu („ ..as the fundamental balance mechanism for global finance." Sjá Financial Times  17. mars 2008).
Þá er vitnað i Dominique Strauss-Kahn, framkvæmdastjóra Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, IMF, sem upphaflega gerði  lítið úr kreppunni en segir nú að hún sé mjög alvarleg en að þó séu ljósir punktar. Kannski geti kreppan orðið tilefni til kerfisbreytinga! Og PSI spyr: Er verið að ráðleggja sama lyfið þótt nú séu banvænar hliðarverkanir þekktar???!!!!

Almannaþjónustan færð í hendur óhæfra aðila

En PSI lætur ekki við það sitja að spyrja. Þvert á móti segja samtökin að þessu verði að svara af hálfu samtakanna. Og svarið er á þá lund að fjármálakreppan sem við séum að verða vitni að endurspegli gjaldþrot frjálshyggjustefnu undangenginna ára. Fjármálakerfið hafi verið slitið úr tengslum við lýðræðislega aðkomu. það hafi ekki reynst vel að breyta hlutverki ríkisstjórna úr því að standa vörð fyrir almenning yfir í að greiða götu einkavæðingar og fjármagnsafla. Fjármálakreppuna megi að verulegu leyti rekja til afnáms reglugerðarverks og aðhalds gagnvart fjármagnsöflum af hálfu hins opinbera.  Og ekki nóg með þetta því undir þessi öfl hafa menn síðan fært almannaþjónustuna í sífellt ríkari mæli!

„Séreignarþjóðfélagið" að hrynja?

Og skýrslan minnir á aðdragann, nefnt er sem dæmi þegar Thatcher stjórnin breska kom félagslegu húsnæði í einkahendur  en áður en hún hófst handa hefðu 35% Breta búið í félaglegu húsnæði.
„Einkennin hafa komið fram víðar. Neikvæðum  afleiðingum  þessarar efnhagsstefnu  höfum við kynnst víðar, einkum  í Rómönsku Ameríku, til dæmis í Mexíkó árið 1994. Nú er atvinnuleysi orðið viðvarandi, samdráttur miðað við það sem áður var og almennt fráhvarf frá ásetningi og fyrirheitum um að draga úr fátækt. Fyrri efnahagskreppur sem  tóku til Austur Asíu, Rússlands, Brasilíu og Argentínu voru afleiðingar efnahagsstefnu sem  alþjóðafjármálastofnanirnar gerðu þessum löndum að fylgja.  Þjóðirnar urðu síðan að súpa af þessu seyðið í  efnahagslegu og félagslegu  tilliti og með vaxandi atvinnuleysi".

Eignirnar í hendur fárra!

Í greinargerðinni sem lá fyrir fundinum er einnig bent á að nú sé ljóst að fyrirheitin um „séreignarþjóðfélagið" standist ekki.  Þegar hafi tvær milljónir misst heimili sín í Bandaríkjunum og sömu örlög bíði fólks víðsvegar um heiminn. Þá sé ekki síður alvarlegt að lífeyrissparnaður sé einnig í hættu .
„Nú má öllum ljóst vera að „séreignarþjóðfélagið" var fyrst og fremst aðferð leið til að færa gríðarleg auðævi undir eignarhald færri aðila en áður." 
Aldrei hafi verið eins mikil ástæða til að verja almannaþjónustuna og nú. Það sé lífsnauðsyn að sýna fram á hvaða orsakir búa að baki fjármálakreppunni og hafna þeirri stefnu sem er völd að henni.  Það verði  að efla lýðræðið, að ríkisstjórnir efli stofnanir og tæki sín til að hafa áhrif á efnahagskerfið. Það verði að auka áhrif almennings, gera þjóðfélagið gagnsærra  og ekki undir neinum kringumstæðum afhenda það fjármagnsöflum sem hugsa um eigin hag en ekki almannahag.

Eftirfarandi er lagt til af hálfu PSI:

1) Starfsemi banka og fjármálastofnana verður að gera fullkomlega gagnsæja. Fjármunirnir sem fjármálastofnanirnar hafa með að spila eru að uppistöðu til eign almennings. Skilgreina þarf hlut  bankanna og sjóðanna í kreppunni og setja verður þessum stofnunum skýrar reglur þannig að þær þjóni almannahagsmunum.

2) Einkavædda almannaþjónustu verður að færa aftur til almennings. Ekki nægir að stöðva frekari einkavæðingu heldur er mikilvægt að ná að nýju grunnþjónustustarfsemi á borð við heilbrigðisþjónustu og vatnsveitur aftur í almannaeigu og undir almannastjórn.  Það hefur sýnt sig að fjármagnsöflunum er ekki treystandi til að reka þessa starfsemi með almannahag einvörðungu að leiðarljósi.

3) Ef bjarga þarf bönkum má það ekki verða að björgunarleiðöngrum fyrir auðmenn. Þegar eru milljarðar á milljarða ofan af almannafé komnir inn í bankana án þess að opin umræði hafi farið fram um hvort og þá hvernig þetta skyldi gert. Ef nota á skattfé almennings til þessa hlýtur það að verða gert að skilyrði að bankarnir verði ekki áfram látnir vera í höndum þeirra sem skópu kreppuna með gjörðum sínum.

4) Hafna ber öllum tilraunum til að nota kreppuna til að þrengja enn meir að almannaþjónustunni. Kreppan hefur einmitt sýnt fram á mikilvægi almannaþjónustunnar og út í hött að láta kreppuna verða til þess  að grafa enn meira undan henni.

5) Allar aðgerðir af hálfu hins opinbera verða að taka mið af almannahag. Styrkja þarf atvinnustarfsemi sem þjónar almenningi en ekki þá starfsemi sem sannanlega gerir það ekki og er komin á vonarvöl.

6) Stefnu Alþjóðabankans, Alþjóðagjaldeyrisjóðsins og annarra alþjóðastofnana þarf þegar í stað að taka til gagnrýnnar skoðunar og endurmats, skilgreina þarf hlut þeirra í kreppunni og sjá til þess að almannafé á þeirra vegum verði ekki varið til að styrkja stefnu sem hefur orðið almenningi til ills.