Fara í efni

Popptíví kannar öryggisvörslu á Bessastöðum

Birtist í DV 28.05.2003
Fyrirsögnin hér að ofan vísar í fyrirsögn á fréttafrásögn í DV sl. laugardag. Þar segir frá tveimur ungum mönnum sem vildu kanna hvernig öryggisvörslu væri háttað á Bessastöðum, hversu nálægt þeir kæmust æðstu ráðamönnum þjóðarinnar. Þeir töldu sig komast býsna langt.

Ungu mennnirnir lögðu leið sína til Bessastaða þegar ríkisráðsfundur var haldinn þar á bæ. Ungu mennirnir frá Popptíví komu í stórri límusínu, stigu út úr henni og gengu „ákveðnum skrefum að aðaldyrunum þar sem tveir lögreglumenn stóðu heiðursvörð, opnuðu dyrnar og gengu inn, óáreittir. Leið þeirra innanhúss hefði verið greið alla leið inn á ríkisráðsfundinn, en þeir létu það eiga sig.“

Ekkert breyst síðan 11. september

Síðan heldur frásögnin áfram og er vitnað í ungu mennina, þá Auðun Blöndal og Sigmar Vilhjálmsson: „Við ætluðum að athuga hversu erfitt væri að komast að ríkisstjórn Íslands og hefðum getað farið alla leið til ráðherranna og forsetans. Öryggisverðir skoðuðu ekkert hvort við værum með vopn svo við hefðum getað framið þarna mikil spellvirki. Tilgangurinn var sá að athuga hvort það hefði eitthvað breyst síðan 11. september 2001 og niðurstaðan er sú að það er alls ekkert.“

Þetta er í sjálfu sér saklaust uppátæki og greinilegt á frekari tilvitnunum í þá félaga að ekki var djúpt á húmornum. Hins vegar þykir mér þetta gefa tilefni til að staldra við og hugleiða það sem hér var sagt því það er vissulega umhugsunarvert. Ég fyrir mitt leyti fagnaði því innra með mér að „alls ekkert“ hefði breyst í öryggisvörslunni síðan 11. september 2001. Víða um lönd hafa hryðjuverkin sem þá voru framin í Bandaríkjunum verið notuð sem skálkaskjól fyrir fasísk öfl sem vilja koma á eftirlits- og lögregluríki. Heimsóknin á Bessastaði segir okkur að við erum ekki komin lengra í þá átt en raun ber vitni. Eftir sem áður hafa verið ýmsir tilburðir hér á landi til að herða á margvíslegri eftirlitslöggjöf .

Jöfnuður á rauðu ljósi

Og þótt það sé ekki beinlínis tengt eftirlitsþjóðfélaginu þá er það engu að síður af sama meiði hve langt er oft gengið í tilstandi og sýndarmennsku þegar erlendir gestir koma til landsins. Lögreglumenn eru látnir taka umferðarljós úr sambandi svo öruggt sé að gestirnir þurfi aldrei að stoppa og síðan endalaust verið að gera honnör og sýna þeim tákn valdsins. Það getur vissulega átt við í stöku tilfelli að gera honnör. En eiga Íslendingar ekki að leggja minna upp úr því að sýnast hernaðarstórveldi en þeim mun meira upp úr því að við erum friðsöm þjóð þar sem jöfnuður ríkir, líka á umferðarljósum?

En aftur að örygginu. Hvað er athugavert við það að ungir og geðslegir menn geti gengið „alla leið til ráðherranna og forsetans“ ?  Er þetta ekki heilbrigðisvottorð fyrir íslenskt þjóðfélag? Vilja menn búa til úr því fólki sem gegnir fyrrgreindum embættum eitthvert dulúðugt fjarlægt vald umlukið öryggisgæslu? Fyrir mitt leyti hafna ég því algerlega.

Frakkaklæddur forseti

Ég minnist ummæla George Brown fyrrverandi utanríkisráðherra Bretlands þegar hann kom hingað til lands til að flytja fyrirlestur í Norræna húsinu, sennilega í kringum 1970. Hann sagði frá því að á leiðinni á Hótel Sögu hefði frakkaklæddur maður, einn á ferð,  skotist yfir götuna. Honum hefði verið sagt að þetta væri forseti Íslands. „Þá vissi ég að ég var staddur í lýðræðisríki“, varð George Brown þá að orði.

Aðra litla dæmisögu vil ég nefna. Þegar ég var fréttamaður Sjónvarps á Norðurlöndum sótti ég einhvern tímann fréttamannafund í Kaupmannahöfn þar sem allir forsætisráðherrar Norðurlanda voru samankomnir. Allir sem þess óskuðu komust inn á þennan fund óáreittir. Einhver hafði á orði að ekki væri viturlegt að hafa enga öryggisgæslu. Aðrir bentu á að einmitt það viðhorf að ætla mönnum aldrei neitt illt væri líklegasta leiðin til að varðveita friðsamlegt samfélag. Hið gagnstæða framkallaði hins vegar spennuþrungið andrúmsloft og ýfði árásarhvötina.

Röksemdir lögreglumanna

Einmitt þetta eru rökin sem oft hafa heyrst frá Landsambandi lögreglumanna þegar íslenskir lögreglumenn hafa varað við því að íslenskir lögreglumenn bæru vopn að staðaldri. Ég er þeim innilega sammála.

Niðurstaða mín er sú að heimsókn þeirra Popptívímanna á ríkisráðsfundinn á Bessastöðum hafi sýnt fram á að okkur er ekki alls varnað. Við ætlum fólki heiðarleika og viljum forðast að sjá jafnan í hverjum manni allt hið versta.