Fara í efni

PÓLITÍSKIR HANDLANGARAR Á LANDSPÍTALA


sumu leyti finnst mér Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri SA, koma best út í umræðunni um einkavæðingu Landspítalans. Hlutskipti ríkisstjórnarinnar er vissulega aumt því hún beitir blekkingum. Sjálfstæðisflokkurinn þorir aldrei að koma hreint til dyranna, þykist vera að prófa sig áfram með einkarekstur innan heilbrigðiskerfisins þegar hann í reynd vinnur skipulega að einkavæðingu. Hlutur Samfylkingarinnar er verri en Sjálfstæðisflokksins að því leyti að flokkurinn þykist vera að verja félagslega velferðarþjónustu á sama tíma og hann tekur þátt í því að grafa undan henni.

Hvítu slopparnir blekkja

En áhöld eru um hvort vesælla er hlutskipti Samfylkingarinnar eða hinna læknismenntuðu stjórnenda á Landspítalanum sem ganga pólitískra erinda í starfi sínu. Það blekkir þegar þeir birtast íklæddir læknasloppum.  Þeirra hlutverk hefur hins vegar ekkert með lækningar að gera. Aðeins pólitík og peninga. Þetta eru rammpólitískir bisnissmenn á hvítum sloppum;  fólk sem kann að skara eld að eigin köku!  
En hvers vegna þykir mér  Vilhjálmur skástur? Það er vegna þess að hann er sjálfum sér samkvæmur og rekur  fyrir opnum tjöldum stefnu sem hann hefur boðað allar götur frá því hann var framkvæmdastjóri Verslunarráðsins, ötulustu baráttusamtaka landsins fyrir einkavæðingu velferðarþjónustunnar!  Nú hefur ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks skipað Vihljálm til að líta á rekstur Landspítala háskólasjúkrahúss. Og viti menn Vilhjálmur Egilsson segist ekki vera frá því að heppilegt kunni að vera að gera sjúkrahúsið að hlutafélagi! Ekkert óvænt þar.

Og Samfylkingin endurómar...

Heilbrigðisráðherrann, sem skipaði framkvæmdastjóra SA til þessara verka er ekki eins hreinn og beinn. Hann segist ekki vera að einkavæða heilbrigðiskerfið heldur sé hann að innleiða einkarekstur. Það sé allt annað!  Já, allt annað, segir Samfylkingin og tekur undir með Guðlaugi Þór. Þannig talaði Samfylking og Sjálfstæðisflokkur einum rómi þegar byrjað var að „úthýsa" störfum læknaritara af Landspítalanum.  Það átti líka við þegar heil deild á Landakoti var boðin út. Og Guðlaugur Þór, heilbrigðisráðherra og talsmenn Samfylkingarinnar hafa tekið ofan fyrir Heilsuverndarstöðinni ohf, sem að uppistöðu til er fjármögnuð af skattfé landsmanna,  en er nú byrjuð að auglýsa sérstök afsláttarkjör fyrir gullkorthafa Kaupþings! Ekkert með einkavæðingu að gera segir Guðlaugur Þór, ráðherra. Og Samfylkingin endurómar. Óheilindi? Skilningsleysi?

Burt með mannréttindin!

En þá er komið að hinum pólitísku handlöngurum, bisnissmönnunum á hvítu sloppunum;  fólkinu sem hefur allt sitt á þurru en leyfir sér að tala um nauðsyn á meiri „sveigjanleika" í rekstri Landspítalans. Hvað þýðir það í alvöru? Er ekki hægt að sameina og sundra, breyta út í hið óendanlega? Jú, það er hægt.  En duttlungastjórnun getur verið erfiðleikum háð. Og menn hafa lent í klandri sem hafa viljað vera á kaupi frá mörgum aðilum, tvöföldu og þreföldu kaupi, allt í senn. „Sveigjanleiki" þýðir að stjórnandinn fengi meira vald. „Sveigjanleiki"  þýðir það eitt að forstjórarnir fengi aukið vald til að ráðskast með fólk, til dæmis til að reka fólk skýringarlaust. „Sveigjanleiki" þýðir að almennir starfsmenn eru sviptir ýmsum réttindum sem þeir hafa; réttindum sem ég lít á sem mannréttindi. "Sveigjanleiki" þýðir líka að fáir verða í aðstöðu til að hnýsast í launakjörin á toppnum!

Hver eru launakjörin hjá handlöngurunum?

Muna menn eftir rökunum fyrir því að „úthýsa" störfum læknaritara, starfsfólks með innan við tvö hundruð þúsund krónur á mánuði? Það átti  að spara peninga. Lífeyirsréttur er til dæmis rýrari í „úthýstu" starfi. Stórmannlegt? Nei. Sérstaklega ekki þegar í hlut eiga stjórnendur sem sjálfir eru með vel á aðra milljón á mánuði í laun, jafnvel meira. Væri ráð að upplýsa það? Segja okkur svoldið um launakjörin hjá þeim sem nú tala fyrir auknum „sveigjanleika" á Landspítalanum. Ég hvet fjölmiðla til að hafa hraðann á. Það verður nefnilega erfiðara að upplýsa um svona nokkuð ef af því skyldi verða að Landspítalinn yrði gerður að hlutafélagi. Þetta vita hinir pólitísku handlangarar. Þess vegna vilja þeir fá sveigjanleikann sem fyrst. Og leyndina.