Fara í efni

Peningar í Paradís

Birtist í Mbl
Nýlega var haldinn hér í Reykjavík fundur stjórnmálamanna og aðila vinnumarkaðar á EES-svæðinu. Á meðal fyrirlesara var Íri nokkur sem dásamaði uppgang í efnahagslífinu í heimalandi sínu. Velgengnina rakti hann til lágskattastefnu og sagði að þá fyrst hefði efnahagurinn blómstrað á Írlandi þegar skattar hafi verið lækkaðir. Upp stóð þá maður og beindi þeirri fyrirspurn til fyrirlesarans hvort hann teldi að Evrópusambandið hefði verið aflögufært um þá milljarða á milljarða ofan sem dælt hefði verið úr sjóðum sambandsins til Írlands í formi styrkja ef skattar hefðu almennt verið mjög lágir í Evrópu. Hann spurði ennfremur hvort menn hefðu ekki af því nokkrar áhyggjur að ríki væru farin að undirbjóða hvert annað í skattalegu tilliti, laða til sín fyrirtæki með gylliboðum um lága skatta. Fyrirspyrjandinn var fulltrúi hægri manna á norska Stórþinginu.

Almenningur borgar brúsann

Þetta er til marks um áhyggjur sem nú verður víða vart vegna tilhneigingar til undirboðs í sköttum og að það gæti orðið til þess að grafa undan velferðarsamfélaginu. Á vegum OECD er unnið að því að finna leiðir til að hamla gegn þessari þróun og hefur stofnunin nú þegar sett fram samræmdar reglur um slíka starfsemi. Sex slík svæði hafa orðið við tilmælum OECD um að fara að þeim reglum en tugir skattleysissvæða hafa hafnað tilmælunum.

Skattaparadísir hafa gert það að verkum að tekjur af atvinnustarfsemi hafa í vaxandi mæli færst frá þeim löndum þar sem framleiðslan fer fram. Skattstofn þess ríkis, þar sem hin raunverulega starfsemi er og virðisaukinn myndast, skerðist að sama skapi. Afleiðingin er sú að sívaxandi hluta skattbyrðanna er velt yfir á almenning í framleiðsluríkjunum - hinn almenni borgari axlar ábyrgðina sem auðmennirnir víkja sér undan.

Viðskiptaráðuneytið og Verslunarráð

Til eru fleiri afbrigði af skattaparadísum. Hér á landi er nú unnið að því að búa til sérstakt skattaumhverfi fyrir svokölluð alþjóðleg viðskiptafélög. Tekjuskattar sem slíkum félögum er ætlað að bera samkvæmt áformum stjórnvalda nema 5% í stað 30% hjá öðrum fyrirtækjum en að auki eru þau undanþegin eignaskatti og stimpilgjöldum. Á undanförnum tveimur árum hefur hið opinbera varið 30 milljónum króna í kynningu á þessu sameiginlega þróunarverkefni viðskiptaráðuneytisins og Verslunarráðs. Ráðgert er að setja 15 milljónir til viðbótar í kynningarvinnu á næstu tveimur árum. Auk þessara 45 milljóna hafa verið greidd laun til sérstakrar starfsleyfisnefndar sem á veita slík leyfi og hafa eftirlit með starfsemi leyfishafa þó ekki sé kunnugt um að neinn hafi sótt um það hingað til.

Ríkisbankarnir og skattaparadísir

Í Morgunblaðinu 6. janúar sl. birtist mjög athyglisvert viðtal við bankastjóra Landsbankans. Þar kom fram að Landsbankinn hefði síðla árs 1998 sett á laggirnar dótturfélag á Guernsey til að veita viðskiptavinum sínum svokallaða aflandsþjónustu. Bankastjórinn var ákaflega stoltur af því að Landsbankinn hefði fengið starfsleyfi á Guernsey vegna þess að fjármálaeftirlitið á eynni væri strangt og þar fengju aðeins virtustu bankar heimsins að starfa. Þegar viðtalið birtist námu eignir í sjóðum landsbankans á Guernsey um þremur milljörðum króna. Þess má geta að Guernsey er eitt þeirra skattleysissvæða sem er á svörtum lista hjá OECD fyrir að neita að uppfylla áðurnefndar lágmarksviðmiðunarreglur. „[V]ið vildum breikka alþjóðlega þjónustu okkar og gefa kost á lögsögu, eins og Guernsey, sem sérhæfir sig í að veita hagstæð skattaleg skilyrði til rekstrar,“ sagði bankastjórinn í viðtalinu. Einnig sagði hann bankaleyndina mikilvæga enda þekktu Landsbankamenn það frá Íslandi „…að margir einstaklingar vilja ekki að aðrir viti eitt eða neitt um þeirra stærri mál, af eðlilegum ástæðum.“

Þetta er aðeins tekið hér sem dæmi; fjöldi annarra fjármálafyrirtækja veitir þessa sömu þjónustu. Menn minnast þeirrar viðhafnar sem höfð var þegar þegar Kaupþing opnaði útibú sitt í Luxembourg á sínum tíma. Luxembourg er annað tveggja OECD-ríkja sem gátu ekki einu sinni hugsað sér að undirrita samkomulag um lágmarksreglur um skattaparadísir, reglur sem mörgum þóttu ganga alltof skammt. Í Lúxemborg býður Kaupþing upp á svokallaða einkabankaþjónustu, m.a. ráðgjöf um það hvernig stofna eigi eignarhaldsfélög til að geta frestað greiðslu skatta af söluhagnaði hlutabréfa.

Velþóknun eða vanþekking?

Og allt er þetta blessað í bak og fyrir af hálfu yfirvalda. Þegar viðskiptaráðherra svaraði fyrirspurn um hin alþjóðlegu viðskiptafélög á Alþingi, sagði hún að þau væru á gráu svæði að mati nefndar á vegum OECD um skaðlega skattasamkeppni. Ekki virtist ráðherrann hafa neinar sérstakar áhyggjur af því þótt Ísland væri undir smásjá nefndarinnar vegna þessa ævintýris.

Landsbankinn er, sem kunnugt er, enn í meirihlutaeigu íslenska ríkisins og þar með á ábyrgð viðskiptaráðherra fyrir hönd ríkisstjórnarinnar. Það er dapurlegt til þess að vita að ríkisstjórnin skuli ekki hafa metnað til að taka þátt í alþjóðlegri viðleitni til að verja tekjustofna velferðarsamfélagsins með því að setja skorður við tilfærslum á fjármagni. Þvert á móti virðist það stefna hennar að láta á það reyna hvað hægt sé að komast upp með á hinum gráu svæðum fjármagnsmarkaðarins.