Fara í efni

PENINGASEÐLAR: ÓGN VIÐ EFTIRLITSÞJÓÐFÉLAGIÐ

Enn eina ferðina er komin út skýrsla, að þessu sinni frá Ríkislögreglustjóra, sem ætlað er að sýna fram á að reiðufé sé af hinu illa. Í skjóli peningaseðla þrífist skatttsvik og mögulegur stuðningur við hryðjuverkamenn. Svo má bæta því við að með notkun peningaseðla í stað greiðslukorta er erfitt um vik fyrir fyrirtækin að fylgjast með neyslu hvers og eins.

Helstu áhugaaðilar um afnám peningaseðla eru að sjálfsögðu greiðslukortafyrirtækin sem vilja fá allan bisnissinn til sín en fast á hæla þeirra kemur skatturinn og svo lögreglan, en á fundum erlendis inspíreruðum af CIA og öðrum þátttakendum í “stríðinu við hryðjuverkamenn”, er meintum samstarfsaðilum uppálagt að styðja allt sem stuðlar að auknu eftirliti. Því miður hefur löggjafinn fylgt kröfum þessara aðila í blindni og hef ég stundum nagað mig í handarbakið yfir eigin andvaraleysi hvað þetta varðar.

En aldrei er of seint að bæta ráð sitt og nákvæmlega það þyrfti löggjafinn að gera.

Svo eru það við öll sem erum úti á akrinum, eigum við ekki að byrja að nota seðla í bland við greiðslukortin? Með öðrum orðum að við sem viljum í alvöru sporna gegn yfirgangi eftirlitsþjóðfélagsins snúumst til varnar og gerumst sú ógn sem skatturinn, lögreglan, kortafyrirtækin og verslunarbisnissinn vara við. Er ekki þörf á slíkri ógn?

Nokkuð margar greinar hef ég birt um þetta efni. Hér er ein frá í sumar sem segir það sem ég vil enn segja:

https://www.ogmundur.is/is/greinar/peningasedlarnir-og-eftirlitsthjodfelagid


Frétt RÚV um nýjustu skýrslu embættis Ríkislögreglustjóra: https://www.ruv.is/frettir/innlent/2023-12-27-reidufe-alvarlegasti-ahaettuthattur-peningathvaettis-a-islandi-400788