Fara í efni

PASSASKOÐUN Á ÞINGVÖLLUM OG RUKKUN Í KERINU

DV - LÓGÓ
DV - LÓGÓ
Birtist í DV 09.12.12.
Í vor og sumar var byrjað að rukka  við Kerið í Grímsnesi, við Geysi, við Leirhnjúk  og í Námaskarði. Hótanir voru um rukkanir víðar. Þessu var mótmælt. Á vettvangi mótmælti fólk og fór inn á þessi svæði án þess að greiða nokkurt gjald enda um hreina  lögleysu að ræða.

Pólitísk stefna

Ríkisvaldið lufsaðist að lokum til að krefjast lögbanns. Nema við Kerið enda eigandinn að framfylgja pólitískum rétttrúnaði ferðamálaráðherrans, Ragnheiðar Elínar Árnadóttur. Eflaust kann einhverjum að finnast þetta vera óvægin nálgun en samt held ég að fyrir henni séu haldgóð rök.
Heimild til að rukka aðgang að íslenskri náttúru snýst nefnilega um pólitík. Og núna er pólitíkin þessi: Innleiða skal náttúrpassa sem gerður verði að skilyrði fyrir aðgengi almennings að náttúruperlum í ríkiseign. Þar með yrði rukkunarleiðin fest í sessi. Við vendumst þeirri hugsun að náttúran væri ekki okkar allra að njóta heldur þyrfti að greiða gjald fyrir. Þetta yrði grundvallarbreyting á aldagömlum réttindum - mannréttindum.

Vilja „normalísera" gjaldtöku

Í kjölfar þessa gætu einkaeignarréttarmenn, einsog  rukkararnir í Kerinu í Grímsnesi, fengið horft fram á að athæfi þeirra festist í sessi sem eðlilegt og „náttúrulegt".
Náttúrupassi Ragnheiðar Elínar er því tilraun til að „normalísera" rukkun í náttúrunni og víkka út einkaeignarréttarhugtakið þegar náttúran er annars vegar.

Auðlindir og almnannahagur

Samkvæmt núgildandi lögum geta handhafar einkaeignarréttar á landi takmarkað umgengni um landið ef það liggur undir skemmdum en þeir geta ekki krafist gjalds fyrir að njóta náttúrugersema á landi þeirra nema samkvæmt sérstökum samningi við umhverfisyfirvöld og þá þannig að gjaldið renni einvörðungu til að varðveita og bæta landið. Þetta hefur hins vegar aldrei verið hugsað sem almenn regla og alls ekki í gróðaskyni. Það hefur hins vegar margoft komið fram af hálfu helstu forgöngumanna rukkaranna að fyrir þeim vakir fyrst og fremst að hafa hagnað af náttúrugersemum. Það er fráleitt að slíkt eigi að leyfa. Enda yrði uppreisnarástand ef það yrði reynt! Ég hef ekki trú á því að landsmenn létu náttúrperlur Íslands þegjandi af hendi. Trúi reyndar varla öðru en fólk almennt - alla  vega nægilega margt fólk - sé svo brennt af kvótakerfinu í sjávarútvegi að það léti ekki aftur hafa af sér dýrmætar auðlindir.

Aðförin að almannaréttinum

Til umhugsunar hlýtur svo að vera hve „kerfið" - eða hluti þess - er tilbúið að taka þátt í þessari aðför að almenningi. Hvernig stendur til dæmis á því lögreglan skarst ekki í leikinn þegar einstaklingar réðust að fólki við Geysi, í Námaskarði og í Kerinu og höfðu af því fé?
Hvers vegna þurfti að bíða eftir lögbanni? Ef lögreglan sér vasaþjóf fara ofan í vasa minn eða þinn lesandi góður og tekur þaðan verðmæti - bíður hún þá eftir því að við áttum okkur á því hvað hafi gerst i og ekki nóg með það heldur líka kært athæfið? Að sjálfsögðu ekki - lögreglan stöðvar þjófinn og handsamar hann. Hið sama á að sjálfsögðu að gera í Kerinu í Grímsnesi og hið sama átti að gera við Geysi síðastliðið vor, við Leirhnjúk og í Námaskarði.
Þetta var hins vegar ekki gert þrátt fyrir að stjórnvöld hefðu lýst því yfir að um lögleysu væri að ræða. Lögreglan hafðist ekki að og neyddust einstaklingar því til að stöðva lögleysuna. Eiga handalögmál að gilda eða viljum við að annars konar lögmál gildi?
Rétturinn til náttúrunnar er grundvallarréttur sem hefur verið í heiðri hafður í meira en þúsund ár. Sá réttur verður ekki frá okkur tekinn.

Stjórna ICELANDAIR og VOW?

Nú er stjórnarmeirihlutinn að hækka virðisaukaskatt á ferðaþjónustuna. Er ekki kjörið að láta hluta þessarar skattheimtu renna til uppbyggingar á ferðamannastöðum þannig að þar verði góð salernisaðstaða, stígar við hæfi og helst starfsmenn sem hafi umsjón með því að allt fari fram sem skyldi? Tekjur af ferðamönnum voru á árnu 2013 um 275 milljarðar samkvæmt Hagstofunni. Að sjálfsögðu rötuðu þessir peningar ekki allir í ríkissjóð en peningarnir eru til staðar og fara ört vaxandi.
Margoft hefur verið bent á leiðir sem aðrar þjóðir hafa farið til fjáröflunar í svipuðum tilgangi. Þar má nefna  gistináttagjald en sjálfur hef ég margoft greitt slíkt gjald á ferðlögum erlendis. Þá hefur verið bent á komugjald til landsins sem aðra leið. Ég er sannfærður um almenn samstaða yrði um slíkar leiðir, nema hóteleigendur kynnu einhverjir að firrtast við og að sjálfsögðu Icelandair og VOW. Varla lætur ríkisstjórnin þessa hagsmunaaðila stýra sér. Eða hvað?

Ögmundur Jónason