Panikviðbrögð – í máli og myndum
Stjórnarmeirihlutinn er örvinlaður – í panik. Stjórnarþingmenn reyna að „leiðrétta“ ummæli sín aftur í tímann. Þar er frægastur af endemum Björn Bjarnason, sem kallaði fyrir mánuði þá stefnu sem ríkisstjórnin fylgir nú blekkingar og brellur. Hann varð síðan uppvís að því að reyna að breyta þessum ummælum á heimasíðu sinni. Í sama stíl er reynt að falsa frásagnir af mótmælum almennings. Þetta er ekkert nýtt. Útifundir hafa oft verið tilefni til æfinga af þessu tagi.Vilji menn gera lítið úr málstað er venjan sú að teknar eru myndir, helst með gleiðlinsu úr mikilli fjarlægð. Vefþjóðviljinn spreytir sig á fölsunum í dag og birtir meðfylgjandi mynd sem væntanlega er tekin í upphafi útifundar, sem Þjóðarhreyfingin boðaði í hádeginu á Austurvelli í gær, en þó ekki af sjálfum fundinum heldur á bak við hann!
Sjálfur kom ég á þennan fund tíu mínútum eftir að hann hófst og var þá mikið fjölmenni á öllum Austurvelli. Það kom flestum á óvart hve margir lögðu leið sína á Austurvöll því fundurinn hafði verið boðaður með afar litlum fyrirvara. Þegar forsvarsmenn Þjóðarhreyfingarinnar boðuðu til hans kváðust þeir ánægðir ef 300 til 500 manns mættu. Enginn veit með vissu hve margir komu til fundarins en giskað hefur verið á fjölda á bilinu 1000 til 3000 manns. Þetta er mikil mæting miðað við aðstæður, fólk bundið í vinnu og á því ekki auðvelt með að sækja fundi á þessum tíma. Í morgun heyrði ég miklar vangaveltur í útvarpi hvers vegna fleira var um eldra fólk en yngra á fundinum. Að sjálfsögðu er skýringin sú að elsta kynslóðin er sú eina sem auðveldlega á heimangengt. Hvað um það; fundurinn var mjög vel heppnaður og kröftugur. Af hálfu ríkisstjórnarinnar var fólkinu hins vegar sýnd fullkomin fyrirlitning. Við Stjórnarráðið, þangað sem hluti fundarmanna hélt, var enginn til að taka á móti mótmælaskjali.
Myndin hér að ofan er af forsíðu Fréttablaðsins og sýnir séra Örn Bárðarson ávarpa fundarmenn þar. Ríkisstjórninni vil ég hins vegar óska til hamingju með Vefþjóðviljann og auðvitað má segja að þetta sé allt í stíl. Ríkisstjórnin hefur í frammi blekkingar og brellur og þeir sem henni vilja þjóna gera slíkt hið sama. Eitt mega menn vita að ekki er á Vefþjóðviljann að treysta þegar mannréttindi eru annars vegar. Fyrirlitningin sem Vefþjóðviljinn sýnir fólki, sem misbýður framkoma ríkisstjórnarinnar og vanvirðing hennar á stjórnarskrá lýðveldisins, kemur ágætlega fram í þessum orðum Vefþjóðviljans: „Þjóðin sat heima þegar fámenn hirðin kom saman í litlu rjóðri á Austurvelli.“