Fara í efni

Páll H. Hannesson skrifar: Að smána fána og skera úr mönnum tunguna

Bandarískir og breskir ráðamenn hafa haft langan tíma til að undirbúa jarðveginn að því stríði sem nú er háð í friðarins nafni og réttlætisins. Og þeir hafa tekið sér góðan tíma til að fóðra sér vinveitta ráðamenn á réttum upplýsingum. Og þeir landshöfðingjar sem hafa meðtekið þann sannleika og gert að sínum og endurvarpað honum til eigin þegna og haldið honum fram í nafni þjóðarinnar geta hreinlega ekki skipt um skoðun nú þegar líkin eru farin að hrannast upp. Vandi þeirra er sérstaklega mikill þegar þeir binda trúnað sinn blint við ríki og ráðamenn þess í stað þess að horfa sjálfstætt á málefnin eða leggja mat á hvers konar menn eru að fóðra þá á sannleikanum. 

Það er gömul klisja að fyrsta fórnarlamb stríðsátaka sé sannleikurinn. Staðhæfingin væri sönn nema hvað hún gefur í skyn að utan stríðstíma sé sannleikurinn sagður. Þegar komið er út í stríð er búið að taka afstöðu og ráðamenn leggja oftar en ekki mannorð sitt að veði. Nú er flækjustig sannleiksþráðanna sem þeir hafa innbyrt og gert að sínum orðið slíkt að rembihnútur er kominn á. Við þær aðstæður byrja þeir að heimta að það sé bara til ein hlið á sannleikanum. Þeirra hlið. Það er sú hlið sem þeir munu halda fram og ætlast til að aðrir geri það líka. Ekki síst fjölmiðlarnir. 

Það er við þessar aðstæður sem fer virkilega að reyna á fjölmiðlana og hvort þeir geti unnið faglega. Hvort þeir geti m.ö.o. beitt sjálfstæðri og gagnrýnni hugsun og þar með staðið undir samfélagslegri ábyrgð sinni 

Svo örlítið dæmi sé tekið: Sannleikur Halldórs Ásgrímssonar um að þeir sem þora að segja sannleikann í Írak séu tunguskornir á almannafæri öðrum til viðvörunar, er kannski ekki endanlegur sannleikur. Jafnvel þó Condalísa Rice hafi haft sömu tugguna yfir fyrir örfáum vikum. Þar með er það kannski orðið sannleikur fyrir Halldóri, en fjölmiðlamenn eiga ekki að haga sér eins og þeir hafi gleypt í sér tunguna eða að hún hafi verið úr þeim skorin. (Eða man enginn eftir sögum af ungabörnum hent úr hitakössum í Kuveit  eða sögum af ungabörnum kastað á milli byssustingja í leik hermanna í heimstyrjöldinni?)

Og það má öllum vera ljóst að það er ekki aðalatriði málsins þegar íslenski fáninn er brenndur opinberlega á götum erlendra stórborga, að það sé verið að “smána íslenska fánann með glæpsamlegum hætti”. Að næsta frétt um fánabrunann sé sú að líklegt sé talið að Íslendingar hafi komið nærri þar sem danskir fjölmiðlar hafi ekki birt nafn Íslands af 30 þjóða taglhnýtingarlista Bandaríkjanna, er einnig ótrúlegt. Eða gera menn ráð fyrir að “menn af þessu svæði” eins og fréttamaður komst að orði yfir þá sem sáust í mynd með logandi fánann, (og óvíst er hvort hann átti við Írak, Miðausturlönd eða Danmörku,) hafi ekki aðgang að internetinu eða lesi ekki önnur blöð en Þorsteinn Pálsson sendiherra? Að láta þá ályktun standa óhaggaða að þar með sé nánast “sannað” að fánabruninn standi ekki í neinu sambandi við þá opinberu afstöðu Íslands að við séum fylgjandi stríðsaðgerðum í Írak, er auðvitað ekkert annað en léleg fréttamennska.

Ef fréttamenn treysta sér ekki til að spyrja upplýstra og gagnrýninna spurninga þegar málsvarar eindreginna viðhorfa í umdeildum málum mæta í fréttasettið þá eiga þeir a.m.k. að reyna að gæta hlutleysis með því að hafa þar annan aðila á öndverðri skoðun. Annars kemur aðeins ein hlið á sannleikanum fram og á stríðs- og áróðurstímum jafngildir sá takmarkaði sannleikur oft lygi. Og þegar um er að ræða jafnmargbrotið fyrirbæri eins og stríðið í Írak þá ætti þetta að vera ófrávíkjanleg vinnuregla.