Fara í efni

PABBI OG PÓLITÍKIN

MBL  - Logo
MBL - Logo

Birtist í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins 10.02.12.
Faðir minn var sjálfstæðismaður allt frá þroskaárum og allan sinn feril sem gerandi á vinnumarkaði. Hann var með öðrum orðum blár á litinn í pólitíkinni. Móðurvængurinn var á hinn bóginn vel rauður þótt hún móðir mín væri til alls vís í kosningum, ánægð með Eystein og síðan Kvennaframboðið sem vildi velta valdastólunum. Ég varð mömmustrákur í pólitík.
En þegar ég hugsa til baka þá sannfærist ég alltaf betur og betur um það að pólitískur litur á mönnum segir ekki allt um þá. Fjarri því! Þannig var faðir minn ekki aðeins víðsýnn heldur einnig mjög róttækur maður. Tilbúinn að breyta, alltaf reiðubúinn að hugsa allt upp á nýtt, fannst endurmat nauðsynlegt, alltaf. Hugurinn yrði ævinlega að vera opinn.
Þegar öllu er á botninn hvolft, vorum við, ég og hann faðir minn, sammála um grundvallarefni. Ég held mér sé óhætt að fullyrða að við vorum að segja svipaða hluti, hann um miðbik tuttugustu aldarinnar og uppúr henni miðri, og núna ég á öðrum áratug hinnar tuttugustu og fyrstu aldar. Hann blár en ég rauður.
En hvað hefur breyst?  Gæti verið að Sjálfstæðisflokkurinn sé annar en hann var  uppúr miðri síðustu öld?
Ekki ætla ég þó að gera lítið úr stjórnmálaátökum liðinnar aldar, þegar sósíalistar og aðrir á vinstri væng stjórnmálanna, vildu útrýma heilsuspillandi húsnæði, bæta réttindi launafólks, styrkja almannatryggingar og efla heilbrigðisþjónustu og velferð fyrir alla, í miklu ríkari mæli og hraðar en hægri vængurinn var tilbúinn til að gera. Stundum leiddi baráttan til harðvítugra verkfallsátaka.
En - og þetta er stóra en-ið: Á þessum tíma vildu allir, líka Sjálfstæðismenn, bæði Gunnar og Geir, að velferðarþjónustan væri fyrir alla og að við ættum að fjármagna hana með skattfé en ekki borga okkur inn á velferðarstofnanir upp úr eigin vasa. Fyrst og fremst stóð slagurinn um það hve hratt við ættum að nálgast þetta mark; hve mikið við værum tilbúin að borga í skatta til að ná þessu takmarki. Íhaldið reis undir uppnefni sínu og var íhaldssamt. Sósíalistar vildu fara hratt í sakirnar. Í þeirra huga þoldu mannréttindi og jöfnuður enga bið. En um þá grunnhugsun að velferðarþjónustan ætti að vera öllum opin var ekki deilt. Þarna varð til samhljómur.
En er svo enn? Ríkir þjóðarsátt um grundvöll velferðarkerfisins; að það skuli öllum aðgengilegt án endurgjalds og þar með án þeirrar mismununar sem gjaldtöku fylgir? Ég þykist vita að Sjálfstæðisflokkurinn og hægri menn almennt vilji hafa öflugt heilbrigðs- og menntakerfi. Um það efast ég ekki. En þeir vilja samt ekki borga fyrir það með sköttum. Fátt annað kemst að í málflutningi þeirra þessa dagana en að býsnast yfir skattbyrðunum.
En ef menn vilja ekki borga skatta, þá er bara ein leið eftir til að fjármagna öfluga velferðarþjónustu. Að láta borga við innganginn á Landspítalanum: Meiri sjúklingagjöld (hélt sannast sagna að nóg væri komið af slíku!). Með öðrum orðum, í stað þess að borga í heilbrigðiskerfið á meðan við erum heilbrigð og aflögufær með sköttum okkar,  þá verður ekki annað séð en að Sjálfstæðisflokkurinn vilji að við bíðum eftir því að við verðum veik. Þá skuli rukkað! Göfugt? Varla. Réttlátt? Nei, tvímælalaust ekki, enda ávísun á meiri mismunun í samfélaginu. Sama með skólagjöld. Í stað þess að borga fyrir menntun samfélagsins með almennum sköttum, yrði barnafólkið að greiða beint fyrir menntun barna sinna, nokkuð sem sjálfstæðismaðurinn hann pabbi minn hefði aldrei samþykkt.
Set þetta fram til umhugsunar með helgarkaffinu.