Fara í efni

ÓVISSA EINKENNIR STJÓRNMÁLIN

Hafnarfjorður - Kópavogur BLÖÐ
Hafnarfjorður - Kópavogur BLÖÐ

Meðfylgjandi grein var send til birtingar í blöðunum Hafnarfjörður og Kópavogur.
Ef ég ætti að velja eitt einkennisorð fyrir stjórnmál líðandi stundar myndi ég nefna óvissu. Ég hef aldrei þekkt til annarra eins spurningamerkja og nú hrannast upp á hinum pólitíska himni. Forsætisráðherrann segir ríkisstjórnina í þann veginn að slá heimsmet í skuldaniðurfellingum. En þegar gengið er á hann og aðra væntanlega heimsmethafa - aðstandendur þessa loforðs ríkisstjórnarflokkanna - um útfærslur, verður fátt um svör. Hins vegar er ég ekki í hópi úrtölumanna og bíð spenntur að sjá hvað upp úr hattinum kemur.

Vildu ekki varnarvopn Íslands!

Í þessu sambandi vill gleymast að fyrri ríkisstjórn hafði á prjónunum áform að ná hluta af því fjármagni sem erlendir kröfuhafar nú vilja ná út úr landinu en geta ekki vegna gjaldeyrishafta. Hvað er þarna verið að tala um? Við hrun bankanna afskrifuðust gríðarlegir fjármunir, mörg þúsund milljarðar króna. Eftir í þrotabúunum sátu hins vegar umtalsverðir fjármunir, 1500 til 1700 milljarðar. Erlendir aðilar - eða Íslendingar í erlendu dulargervi -  sem eiga kröfur í bú gömlu bankanna vilja aðgang að þessum eignum í erlendri mynt. En þar stendur hnífurinn í kúnni því þeir komast ekki framhjá gjaldeyrishöftunum,varnarvopni Íslands.
Óskiljanlegt var þegar núvernadi stjórnarflokkar neituðu að styðja þáverandi ríkisstjórn í því að setja þrotabúin undir höftin í mars 2012 því hefði það ekki verið gert væru okkur allar bjargir bannaðar og tómt mál að tala um einhvern samfélagslegan ávinning af fjármagnsflutningum út úr landinu - hvað þá að slegið yrði heimsmet fyrir ávinninginn.

Gamlar hugmyndir

Ýmsar leiðir hljóta að vera til skoðunar. Hugsanlega þarf að bíða átekta um sinn, einfaldlega vegna þess að kröfuhafarnir ákveða sjálfir að bíða. Þá þarf á þolinmæði að halda. Engu óðagoti.  Ef þeir eru hins vegar áfjáðir að komast út sem fyrst má setja á þá ríflegan útgönguskatt eða fara í ferli kaupa og sölu þar sem ríkið kæmi við sögu. Slíkir kostir voru ræddir í síðustu ríkisstjórn. Um það var þáverandi stjórnarandstöðu fullkunnugt. Þannig að vangaveltur um að ná í þessa fjármuni eru ekki nýjar af nálinni. Sá stjórnmálamaður sem fyrstur setti fram úthugsaðar tillögur um þetta efni var Lilja Mósesdóttir ef ég man rétt.

Óvissa í ríkisfjármálum

En það er ekki aðeins áð óvissa ríki um hvert stefni í þessu stóra máli. Óvissa er einnig um hvert stefnir í ríkisfjármálunum eftir að ríkisstjórnin ákvað að falla frá margvíslegri veigamikilli skattlagningu. Fyrir bragðið verður ríkissjóður af milljörðum króna sem ella hefðu gagnast við eflingu velferðarþónustunnar, hvort sem er heilbrgiðsþjóðnustu, menntakerfi, löggæslu, skapandi greinum og vísindarannsóknum eða í öðrum mikilvægum geirum.
Hvað launafólk áhrærir er nú hamast við festa í sessi það viðhorf að ekki megi hreyfa við launum. Það hefur hins vegar verið gert! Efri hluti launaþjóðarinnar hefur verið á blússandi launaskriði eins og fram hefur komið í fjölmiðlum á meðan láglaunahópar og millitekjufólk stendur í stað. Þarna þarf að rétta hlutföllin af og það verður aðeins gert með því að hækka neðri hluta launastigans.

Boðið til opins fundar í Kraga

Allt þetta verður til umræðu í Kraganum fimmtudaginn 19. september kl. 20 en þá efnir VG í  Suðvesturkjördæmi til opins stjórnmálafundar í Hamraborginni í Kópavogi, því sem við köllum Kragakaffi. Umræðuefnið er staðan í stjórnmálum í kjölfar þingkosninganna í vor og stjórnarskiptanna í kjölfarið. Framsögu ásamt undirrituðum hefur Rósa Björk Brynjólfsdóttir, varaþingmaður.
Við munum reifa „stjórnmálaástandið" eins og það gjarnan var kallað á árum áður í auglýsingum um fundi stjórnmálamanna og eru allir velkomninr.
Ögmundur Jónasson, þingmaður VG í suð-vestur kjördæmi