Fara í efni

ÓVINIR RÍKISINS?

Undrandi varð ég á ummælum Ólafar Nordal, varaformanns Sjáflstæðisflokksins, í hádegisfréttum RÚV í gær, þar sem hún hélt því fram að ágreiningur sem upp hefði komið innan stjórnarliðsins á Alþingi hefði "skaðað hagsmuni íslensku þjóðarinnar"! Hvað á varaformaður Sjálfstæðisflokksins við, Icesave, Magma eða ESB? Eða er einfaldlega að taka sig upp gamalt mein í Sjálfstæðisflokknum, gömul þrá eftir einni skoðun: Skoðun valdsins, "Réttu skoðuninni"? Þessi tími er liðinn Ólöf. Hann á að vera liðinn. Óvinir ríkisins hétu þau í Sovetríkjunum sem leyfðu sér að tala eins og frjálst fólk, málefnalega og lygilaust. Slík umræða þótti glæpsamleg og viðkvæðið jafnan að opin umræða "skaðaði" hagsmuni ríkisins. Forlögin forði okkur frá Sjálfstæðisflokknum sem greinilega er enn haldinn þessari gömlu forræðis-þráhyggju.