Fara í efni

ÓVÆNT ÚTSPIL Í KVÓTAMÁLUM

Nokkur blaðaskrif hafa orðið síðustu daga í kjölfar Opins bréfs til Samfylkingarfólks, sem ég birti í Morgunblaðinu fyrir rúmri viku. Helgi Hjörvar skrifaði á meðal annarra ágæta grein í Morgunblaðið þar sem hann vék að ýmsum málefnum, sem Vinstrihreyfingin grænt framboð og Samfylkingin hafi verið sammála eða ósammála um eftir atvikum en tilefni þessara greinaskrifa voru einmitt möguleikar þessara tveggja flokka á samstarfi; nokkuð sem ég hef talið fýsilegan kost.
Enda þótt Helgi byði VG til samstarfs í fyrirsögn greinar sinnar kom í ljós þegar sjálf greinin var lesin að hann sá á þessu ýmsa annmarka og vék hann t.d. að kvótamálum með eftirfarandi hætti: "Við höfum líka kynnt tillögur um að endurheimta auðlindirnar í þjóðareigu og gera til þeirra arðsemiskröfu, en um það var afhjúpaður ágreiningur stjórnarandstöðuflokkanna fyrir síðustu kosningar."
Ekki minnist ég þess að tekist hafi verið sérstaklega á um þetta milli flokkanna tveggja fyrir síðustu kosningar enda báðir afdráttarlaust á þeirri skoðun að afnema bæri kvótakerfið í núverandi mynd, eða öllu heldur endurheimta ráðstöfunarrétt á sjávarauðlindunum í hendur þjóðarinnar. Flokkarnir vildu vissulega mismunandi útfærslu. Þannig leggur VG áherslu á að byggðirnar við sjávarsíðuna fái hluta aflaheimilda til ráðstöfunar en annar hluti fari á markað á landsvísu. Markaðsáherslur voru ríkari í hugmyndum Samfylkingar. Ég vísa hins vegar til þátíðar og segi að þannig voru áherslur Samfylkingarinnar. Hver skyldi stefnan vera núna?

Formaður Samfylkingarinnar, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, sagði á nýafstöðnum LÍU fundi að menn eigi nú að slá striki yfir það sem liðið er og hætta að gagnrýna útgerðarmenn sem hagnast hafi á kvótanum. Á móti eigi útgerðarmenn að hætta að tala um að þeir eigi kvótann. En ég segi eins og einn ágætur maður í lesendabréfi hér á síðunni, skiptir einhverju máli hvort talað er um eign eða um hana þagað? Skiptir ekki máli fyrst og fremst hver raunveruleikinn er?

Nú hljóta menn að spyrja hvort  Samfylkingin vilji kvótakerfi í núverandi mynd eða hvort hún vilji enn endurheimta eignarhald á sjávarauðlegðinni í hendur þjóðarinnar?

Það er von að spurt sé. Í ljósi fyrrnefndra ummæla sinna um meintan ágreining VG og Samfylkingar um afnám kvótakerfisins, væri fróðlegt að heyra útleggingar Helga Hjörvars á nýjasta útspili formanns Samfylkingarinnar.