Fara í efni

ÓTTINN VIÐ SANNLEIKANN

Um þessar mundir fer fram mikil umræða á meðal vísindamanna og almennings um áhættuna af Kárahnjúkavirkjun.
Annars vegar koma fram varnaðarorð, sbr. ummæli Haraldar Sigurðssonar, jarðfræðiprófessors í Rhode Island háskóla í Bandaríkjunum um að virkjunin væri "ískyggileg bíræfni" þar sem misgengi og sprungur undir framkvæmdasviðinu væru virkar í jarðfræðilegum skilningi ( sjá Fréttablaðið 13. ágúst og 23. ágúst) og athugasemdir Gríms Björnssonar, jarðeðlisfræðings um að hann hefði "ónotatilfinningu fyrir stíflustæðinu" (sbr. Fréttabl. 29. júlí).
Hins vegar eru réttlætingar frá Landsvirkjunarmönnum. Á baksíðu Morgunblaðsins 23. ágúst segir frá fréttamannafundi Landsvirkjunar þar sem leiddir eru fram hönnuðir stíflunnar við Kárahnjúka undir fyrirsögninni: "Þetta lítur allt saman vel út á Kárahnjúkum."  Kaldhæðnin sem fram kemur í gæsalöppunum leynir sér ekki.

Fyrst framkvæmt síðan rannsakað

Í umfjöllun undanfarna daga hefur verið vísað aftur í tímann í rannsóknir og varnaðarorð sérfæðinga í jarðvísindum, þá ekki síst í þá Grím Björnsson og Guðmund Sigvaldason og síðan nýrri rannsóknir á borð við skýrslu  þeirra Hauks Jóhannessonar og Kristjáns Sæmundssonar um rannsóknir á árunum 2004 og 2005.
Það sem mér þykir umhugsunarvert við þessa upprifjun er þetta: Frá upphafi komu fram varnaðarorð. Eftir því sem liðið hefur á framkvæmdirnar hafa stöðugt komið fram nýjar upplýsingar  sem benda til þess að varnaðarorðin eigi við rök að styðjast. Landsvirkjun bregst hins vegar við með því að reyna jafnharðan að laga stífluna að nýjum upplýsingum.
Þetta vinnulag kom berlega fram á fyrrnefndum fréttamannafundi þeirra Landsvirkjunarmanna. Þar var gerð grein fyrir því að stíflan ætti að þola umtalsverðan jarðskjálfta: "Hins vegar hafi árið 2004 komið fram nýjar upplýsingar varðandi misgengi á svæðinu og brugðist hafi verið við þeim upplýsingum með því að gera ýmsar breytingar á steypukápu stíflunnar. Settur var teygjanlegur dúkur á távegg stíflunnar og stálplata yfir liðamót..."
Í ljósi þessa eru orð bandaríska háskólakennarans Desiree D. Tullos í Morgunblaðinu 23. ágúst sannfærandi: "Mjög óvenjulegt er að rannsóknir á grundvallar- og undirstöðujarðfræði fari fram eftir að framkvæmdir hefjast, einkum í ljósi viðvarana um vána við framkvæmdirnar sem komu snemma fram hjá helstu sérfræðingum Íslands, Guðmundi E. Sigvaldasyni eldfjallafræðingi (2003) og Grími Björnssyni jarðeðlisfræðingi (2002). Á grundvelli óviðeigandi einfaldaðra líkana af jarðskorpusigi og vísbendinga um jarðvarmavirkni, skil ég sjálf ekki hvers vegna menn treystu sér til að þróa mannvirkin sem eiga eftir að mynda Hálslón (með geymslurými upp á 2,4 km3) við Kárahnjúka við þær óvissu jarðfræðilegu aðstæður sem ríkja á svæðinu og ég leyfi mér að véfengja opinskátt allt ferlið sem lýtur að samþykki og leyfisveitingu fyrir framkvæmdunum. Áhættan, kostnaðurinn og ávinningurinn af vatnsaflsvirkjun við Kárahnjúka eru sérstaklega óljós í mínum augum og starfsbræðra minna víða um heim, svo og ástæðurnar fyrir því að framkvæmdunum skuli haldið áfram án frekari rannsókna."

Vísindamanni bannað að tjá sig

Þegar nú gerist við þessar aðstæður að Orkuveita Reykjavíkur leyfir sér að setja múlband á einn helsta jarðvísindamann þjóðarinnar, Grím Björnsson, jarðeðlisfræðing og meina honum að tjá sig frekar um Kárahnjúkavirkjun þá eru menn komnir á braut sem er alvarlegri en svo að við verði unað.  Í frétt í Morgunblaðinu 20. ágúst segir: " Grímur Björnsson, jarðfræðingur sem nú starfar hjá Orkuveitu Reykjavíkur, hefur staðfest að honum hafi verið gert að tjá sig ekki um málefni Kárahnjúkavirkjunar, þ.e.um málefni samkeppnisaðila, í þessu tilviki Landsvirkjunar nema með leyfi forstjóra hennar…Rétt er að taka fram að Grímur Björnsson hafði veitt Morgunblaðinu vilyrði fyrir ýtarlegu viðtali þar sem hann ætlaði að tjá sig sem vísindamaður. Þegar taka átti viðtalið tjáði Grímur blaðamanni Morgunblaðsins að hann mætti ekki tjá sig um málefni samkeppnisaðila og því gæti hann ekki veitt umrætt viðtal."
Eru menn virkilega orðnir galnir?  Á að banna vísindamanni að tjá sig um málefni sem varðar þjóðarhag? Og hvers konar endemis rugl er þetta með samkeppnisaðila? Þetta minnir okkur á hvílíkt glapræði það er að samkeppnis- og einkavæða grunnþjónustu samfélagsins. Nýting vatnsafls og gufu og nýting náttúrunnar er sameiginlegt verkefni þjóðarinnar allrar en ekki útvalinna fjárfestingarspekúlanta. Kárahnjúkavirkjun er stærsta verkefni Íslandssögunnar og hefur í för með sér gríðarleg áhrif á náttúru  Íslands og efnahagslíf.

Morgunblaðsgrein Steinunnar

Í frábærri grein sem Steinunn Sigurðardóttir, rithöfundur skrifar í Morgunblaðið í dag (24. ágúst), rifjar hún m.a. upp rannsóknir Gríms Björnssonar: " Í febrúar 2002 sendi Grímur Björnsson jarðeðlisfræðingur orkumálastjóra greinargerð þar sem hann telur "líkur á stíflurofi umtalsverðar". Enn fremur, að meðan svo sé "eigi virkjunin ekki erindi inn á Alþingi". Í apríl sama ár var virkjunarleyfið samþykkt á Alþingi, án þess að þingmenn sæju greinargerð Gríms. Iðnaðarráðuneyti (í ráðherratíð Valgerðar Sverrisdóttur) hafði hins vegar borist plaggið, en sá ekki ástæðu til að láta það fara víðar. Er það eitt af mörgum atriðum í undirbúnings- og ákvörðunarferli um virkjunina sem draga má í efa, út frá venjulegu upplýsinga- og lýðræðisferli…"
Nú á að ganga enn lengra og skipa Grími Björnssyni að þegja. Því verður ekki tekið þegjandi enda hafa borgarfulltrúar Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs þegar skrifað formanni stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur bréf þar sem þessum vinnubrögðum er harðlega mótmælt.

Bréf borgarfulltrúa VG

Í bréfi Svandísar Svavarsdóttur og Árna Þórs Sigurðssonar segir m.a.: " Til þess að vitræn, upplýst og lýðræðisleg umræða geti átt sér stað í samfélaginu um flókin úrlausnarefni eins og umræddar virkjunarframkvæmdir, er mikilvægt að styðjast við rannsóknir, álit og niðurstöður fræði- og vísindamanna.  En forsendan fyrir því er að sjálfsögðu að þeir geti tjáð sig óhindrað og án afskipta yfirmanna sinna, ráðamanna eða annarra.  Að beita vísindamenn, með beinum eða óbeinum hætti, þrýstingi og jafnvel fyrirmælum um að veita almenningi ekki upplýsingar sem byggja á faglegum og fræðilegum rannsóknum, er ólíðandi í lýðræðisþjóðfélagi.  Slík vinnubrögð hafa í gegnum tíðina fyrst og fremst tíðkast í einræðisríkjum og bera vott um ótta við sannleikann."
Bréfið má lesa í heild sinni HÉR