Fara í efni

ÓÞOLANDI AÐ VERA HÓTAÐ

Birtist í 24 Stundum 06.12.07
Vinstrihreyfingin – grænt framboð hefur sett kvenfrelsismál á oddinn sem pólitísk baráttumál. Þar er um að ræða baráttu gegn mansali og kynbundnu ofbeldi svo og áherslu á að útrýma kynbundnum launamun á vinnumarkaði og rétta hlut kvenna í stjórnsýslu og atvinnulífi. Ýmsa aðra þætti sem snerta félagslega stöðu kynjanna mætti einnig nefna. Að þessum stefnumálum stendur VG einhuga.

Ekki fellur öllum málflutningur okkar í geð. Þess eru því miður dæmi að þeir, sem ekki fella sig við þessi sjónarmið en treysta sér ekki í opna rökræðu um málefnið, hafi í hótunum við þau okkar sem hafa verið duglegust að halda baráttunni uppi. Slíkar hótanir hafa ekki verið léttvægar. Þannig hefur einstaklingum verið hótað hrottafengnum nauðgunum og líkamsmeiðingum. Hótanirnar hafa birst bæði undir nafni og einnig nafnlaust. Þær eru ekki aðeins óþverrabragð og til minnkunar þeim sem í hlut á, heldur er um grafalvarlegt athæfi að ræða gagnvart þeim sem fyrir spjótalögunum verður. Hótun um meiðingu á líkama er nefnilega einnig atlaga gegn sálinni. Til þess er og leikurinn gerður: Að valda hugarangri og reyna með því móti að þagga umræðuna.

Fyrir okkur, innan Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, er þetta hins vegar áminning um mikilvægi kvenfrelsisumræðunnar og hvatning um að herða enn róðurinn. Það eitt að kvenfrelsisbaráttan kalli á slík viðbrögð segir sína sögu um fordóma sem eru til staðar í þjóðfélaginu gegn því sem margir töldu óumdeild mannréttindi. Við þá, sem hafa í hótunum við þau okkar sem hafa hvað ötulast haldið gunnfánum baráttunnar á loft, vil ég segja þetta: Vinstrihreyfingin grænt framboð lítur á ögranir og hótanir í garð einstaklinga, sem bera stefnumál okkar fram á lýðræðislegum vettvangi, sem ögrun í garð okkar allra auk þess sem slíkt athæfi er beinlínis atlaga að lýðræðinu í landinu. Við munum aldrei láta þagga niður í okkur með ofbeldi og munum leita réttar okkar fyrir dómstólum ef þörf krefur.