Fara í efni

ÓÞARFA HÓGVÆRÐ RÍKISÚTVARPSINS

rúv - hús
rúv - hús

Þegar þau leggja saman Andrés Björnsson, fyrrverandi útvarpsstjóri, séra Gunnar Kristjánsson, fyrrum prófastur á Reynivöllum í Kjós, Þuríður Pálsdóttir óperusöngkona, Gunnar Stefánsson, dagskrárgerðarmaður hjá Ríkisútvarpinu til áratuga og Matthías Johannessen, skáld og fyrrverandi ritstjóri, þá er varla við örðu að búast en eðalefni.

Þess vegna þótti mér Ríkisútvarpið óþarflega hógvært í kynningu á nýjum þætti Gunnars Stefánssonar um Matthías sem var á dagksrá á hvítasunnudag klukkan 17. Þátturinn hafði verið auglýstur í dagskránni að morgni þessa dags án þess að það væri leiðrétt. En kynningartextinn sem grafa mátti upp er að öðru leyti ágætur og lýsandi:

„Sunnudaginn 24. maí, á hvítasunnudag, klukkan 9.03 á Rás 1, verður þátturinn Hörpusláttur, um skáldskap eftir Matthías Johannessen. Umsjónarmaður er Gunnar Stefánsson. Nafnið er dregið af heiti fyrsta ljóðsins í fyrstu bók Matthíasar, Borgin hló frá 1958. Í þættinum má heyra Andrés Björnsson lesa þetta ljóð, svo og nokkur úr einni af seinni bókum skáldsins, Mörg eru dags augu. Dr. Gunnar Kristjánsson flytur pistil um ljóðaflokk Matthíasar, Sálmar á atómöld, frá 1966, sem er sérstæður trúarskáldskapur úr smiðju nútímaskálds. Þá er í þættinum flutningur Matthíasar með undirleik á köflum úr bókinni Dagur ei meir, um árið 1974, sem út var gefinn á hljómplötu. Einnig les skáldið stutta sögu, Mold undir malbiki, og loks fáein ljóð úr bókinni Söknuður frá 2011. Matthías varð 85 ára á þessu ári, en hann hefur í meir en hálfa öld sett svip á bókmenntir og menningarlíf í landinu."

Ríkisútvarpið á lof skilið fyrir þennan ágæta þátt og ætti að berja sér betur á brjóst þegar það hefur á dagksrá gott nýtt meninngarefni og gera okkur hlustendum rækilega grein fyrir því hvað er í boði.

Gunnar Stefánsson hefur reynst Ríkisútvarpinu og okkur hlustendum ómetanlegur. Með þætti sínum Hörpuslætti minnti hann okkur enn einu sinni á þá staðreynd. Hafi hann þökk fyrir!

Þátturinn er hér: http://www.ruv.is/sarpurinn/ras-1/horpuslattur/20150524