Fara í efni

Ósvífnir atvinnurekendur

Samtökum atvinnulífsins er að sjálfsögðu frjálst að hafa skoðanir á öllu milli himins og jarðar. Hins vegar er samtökunum enginn sómi af þeim köldu kveðjum sem þau senda launafólki iðulega í pistlum sínum. Gildir það um launafólk í öllum helstu samtökum launafólks í landinu, ASÍ, BSRB, BHM, Kennarasambandi Íslands og Sambandi bankamanna. Að þessu sinni eru það samtök launafólks í almannaþjónustu og þá sérstaklega kennarar, sem fá gusurnar. Kennarar skulu halda sig á mottunni í komandi kjarasamningum segir í pistli á heimasíðu SA undir fyrirsögninni Kjarastefnan hefur verið mörkuð:"Ef stórt samband á borð við Kennarasamband Íslands knýr fram meiri kostnaðarhækkanir fyrir grunnskólakennara munu önnur stéttarfélög með lausa samninga að öllum líkindum reisa sínar kröfur á grundvelli samnings grunnskólakennara. Í kjölfarið yrði erfitt að ljúka samningum á almennum vinnumarkaði og kröfur myndu rísa um endurskoðun þeirra samninga sem þegar hafa verið gerðir í nóvember á næsta ári. Ef samið er við eitt eða fleiri félög opinberra starfsmanna um meiri kostnaðarhækkanir getur það þannig falið í sér ákvörðun um að brjóta á bak aftur þá launastefnu sem mótuð hefur verið á almennum vinnumarkaði, skapað óvissu, vaxandi verðbólgu og óstöðugleika". 

Og enn segir SA: "Munurinn á grunnskólakennurum og öðrum er að félag þeirra hefur boðað verkfall þann 20. september sem hefur þann tilgang að fá margfalt meiri launahækkanir í sinn hlut en samningar þeir sem gerðir hafa verið hingað til fela í sér".

Undirliggjandi varnaðarorðum SA eru hótanir: "Þrátt fyrir að stór samningssvið á vinnumarkaðnum hafi síðastliðinn vetur og vor bundið kjarasamninga sína til ársloka 2007 stendur samningalotan í raun enn þar sem fjöldi samninga á sviði Samtaka atvinnulífsins kemur til endurnýjunar á komandi mánuðum, auk þess sem samningum við fiskimenn og fleiri með lausa samninga er ólokið. Þá renna flestir samningar ríkis og sveitarfélaga við félög innan BSRB og BHM út í nóvemberlok."

Væri nú ekki ráð fyrir hálaunamennina í samtökum atvinnurekenda að leggjast í ofurlitla sjálfsgagnrýni? Forsenda þess að menn geti leyft sér að tala á þeim forsendum sem hér er gert er að sjálfsögðu sú að reynt hafi verið að ná víðtækum samningum í landinu með aðkomu allra helstu samningasaðila í landinu. Það hefur ekki verið gert í þeirri samningalotu sem nú stendur yfir. Slík aðkoma var reynd og framkvæmd á árinu 1990 og til urðu þjóðarsáttarsamningarnir, sem svo hafa verið nefndir en aðild að þeim áttu allflest samtök. Undantekningin var samband háskólamanna. Þótt BHM myndi án efa ekki skrifa upp á þá söguskýringu þá er það mín skoðun að grundvallarmunur sé á andrúmsloftinu 1990 og núna að þessu leyti. Framkoma SA nú er því nánast hlægilega ósvífin. Samtökin þykjast þess umkomin í krafti þeirra kjarasamninga sem þau hafa gert við ASÍ að segja öllum öðrum fyrir verkum. Til þess eru hvorki félagslegar né siðferðilegar forsendur. Ef kjarasamningar, sem nú eru í farvatninu leiða til þess að fyrri samningar verði endurskoðaðir þá efast ég stórlega um að Alþýðusamband Íslands myndi gráta það neitt sérstaklega, ekki síst ef þá tækist að ná fram ýmsum sanngjörnum kröfum sambandsins, sem atvinnurekendum hefur tekist að ýta út af borðinu með óbilgirni sinni.

Hér er slóðin á Fréttabréf SA, sem vitnað var til.