Fara í efni

ÖSSUR YLJAR UM HJARTARÆTUR

Ýmsu góðu hafa mörg íslensk fyrirtæki fengið áorkað um dagana – enda margir lagt hönd á plóginn. Óneitanlega hefur frumkvæði einstaklinga líka skipt miklu máli. Það á án nokkurs efa við um Össur Kristinsson sem setti á laggirnar Össur nafna sinn, fyrirtækið,  sem síðan hefur vaxið og dafnað, fyrst á Íslandi og svo um heiminn allan.

Og framleiðslan er ekki eins og hver önnur neysluvara heldur hjálpartæki af ýmsum toga sem ekki aðeins koma þeim sem misst hafa útlimi á fætur í bókstaflegum skilningi heldur hefur hún líka endurreist líf þeirra.

Hjálpartæki Össurar hafa komið að gagni í stríðshrjáðum löndum og leyfi ég mér þá að nefna herteknu svæðin í Palestínu sérstaklega því mér er kunnugt um að þangað hafa verið send hjálpargögn frá Össuri – og ekki til að hagnast á heldur bara til að hjálpa.

Hvers vegna nefni ég þetta hér og nú? Það er vegna þess að rétt áður en ég opnaði tölvu mína hér suður í Aþenu þar sem ég er staddur þessa dagana sá ég auglýsingaskiltið hér að ofan á húsvegg á einni breiðgötu borgarinnar.
Þá varð líka fyrirsögnin til.