Fara í efni

ÖSKURAUGLÝSINGIN LOKSINS SKILJANLEG

Margir brostu að fréttum um að til stæði að loka aðkomufólk til landsins inni í fimm daga á FOSS hótelinu í Reykjavík að viðurlagðri kvartmilljón króna sekt ef menn óhlýðnuðust. Engan greinamun átti að gera annars vegar á fólki sem hér á heima og býr þess vegna í næstu götu við húsakynnin sem ætluð voru undir fangabúðirnar og hins vegar ferðmönnum sem hingað koma væntanlega eftir að söluaðilar hafa kynnt þeim hvað í vændum er.

Menn brostu því hald manna var að þetta væri aprílgabbið.

Svo kom í ljós að svo var ekki heldur tilraun ríkisstjórnarinnar til að slá Íslandsmet þáverandi ríkisstjórnar, sem lét fangelsa í fangabúðum í Njarðvíkum  alla skágeyga menn sem komu til Íslands þá daga sem forseti Kína var hér á ferð árið 2002. Óttast var að þar væru á ferð kínverskir andstæðingar forsetans að mótmæla mannréttindabrotum í Kína. Stjórnsýslan var ráðherra innan handar um allt skipulag við fangaflutningana af flugvellinum í Keflavík til Njarðvíkurskóla sem breytt hafði verið í fangabúðir. 

Nú skiptir augnbúnaður flugfarþeganna hins vegar ekki máli heldur hvort þeir komi frá landi sem er með litakort sem gengur að Íslandi.

Látum vera að setja aðkomumenn í sóttkví hafi þeir verið upplýstir um slík skilyrði fyrir komu til landsins en varla þá sem geta gengið beint inn í eigin sóttkví á heimili sínu!

Er ekki eitthvert smápláss fyrir það sem kalla mætti heilbrigða skynsemi?

Ég átti alltaf erfitt með að skilja öskurauglýsingarnar sem ferðamálaráðherrann hreifst svo mjög af.

Í fyrsta lagi var óneitanlega undarlegt að setja milljarða í auglýsingstofur – í gjaldeyri í þokkabót– úr galtómum ríkissjóði. Með öðrum orðum þjóðin var látin taka lán fyrir óhljóðunum. 

 Í öðru lagi hljómaði það mótsagnakennt að vilja hvetja fólk til að koma til Íslands á sama tíma og íslensk yfirvöld vildu helst enga aðkomumenn til landsins.

Í þriðja lagi þótti mörgum öskrin illskiljanleg en auglýsingarnar sýndu fólk að öskra úr sér frústrasjónir út í íslensk öræfi, við jökulrætur, fossa og gil

 – og nú á FOSS hóteli í Reykjavík.

Skyndilega er öskurauglýsingin orðin skiljanleg.