Fara í efni

Ósjálfstæði í utanríkismálum

Birtist í Morgunblaðinu 15.04.04.
Nýlega fór fram hefðbundin umræða um utanríkismál á Alþingi. Skýrsla var lögð fram og utanríkisráðherra hélt framsöguræðu þar sem han kynnti stefnu og áherslur ríkisstjórnarinnar. Því miður var ég að heiman þegar utanríkismálaumræðan fór fram en mætti hins vegar Halldóri Ásgrímssyni, utanríkisráðherra, á miðopnu Morgunblaðsins á leiðinni heim, undir fyrirsögninni: Baráttan gegn hryðjuverkum verði efld um allan helming. Í framsöguræðu hans á þinginu hafði greinilega kveðið við gamalkunnan tón, stóryrtar alhæfingar í anda þeirra Rumsfelds og félaga í Washington; eina ferðina enn, utanríkisstefna haukanna í Bandaríkjastjórn í íslenskri þýðingu. Ekki málflutningur, sem maður hefði óskað að heyra frá utanríkisráðherra Íslands.

Hverjir hugsa rökrétt?

Í Morgunblaðinu segir m.a. af yfirlýsingum Halldórs utanríkisráðherra, að „Vesturlandabúar, einkum Evrópubúar, hafi tilhneigingu til að leita rökrænna skýringa og málamiðlunarlausna vegna átakanna“.  Morgunblaðið hefur eftir Halldóri að hafa verði í huga „að ekki séu rökrænar skýringar á öllu atferli“.  Og ennfremur, að stöðugleikanum í heiminum væri nú ógnað: „af öfgamönnum sem engu eira. Hugmyndafræði þeirra beinist gegn lýðræði og umburðarlyndi, sem eru grundvallargildi Vesturlanda. Árásargjarn málflutningur og illgjörðir þessara öfgamanna staðfesta að markmið þeirra einskorðast ekki við eigin heimaslóðir heldur eru þau hnattræn...“
Þegar upp er staðið og ummæli manna krufin þá hlýtur maður að fallast á, að sennilega sé það rétt hjá Halldóri Ásgrímssyni, að ekki er öllum gefið að hugsa málin á yfirvegaðan og rökrænan hátt. Spurningin er hins vegar hvort það eigi einvörðungu við um íslamska öfgamenn.

Hver vill semja við al-Qaeda?

Síðan vitnar Morgunblaðið í kafla í ræðu ráðherra þar sem segir að honum sé óskiljanlegt að menn vilji semja við al-Qaeda og aðra ámóta öfgamenn. Í þessu felist sá grundvallarmisskilningur, að þeir séu réttmætir fulltrúar hins íslamska menningarheims. Til hverra skyldi Halldór Ásgrímsson vera að vísa? Hver vill semja við al-Qaeda? Er hann að gefa í skyn að andstæðingar stríðsins séu þessa fýsandi? Er það ekki þvert á móti svo, að hófsömu skynsemisfólki um heim allan óar við því, að aðferðafræði Bandaríkjastjórnar og fylgismanna hennar, styrki umrædd öfgaöfl í sessi sem fulltrúa „hins íslamska menningarheims“?  Með öðrum orðum, að stefna Bandaríkjastjórnar og aðferðafræði sé að skapa al-Qaeda samningsstöðu! Og viti menn, var ekki frá því greint í fréttum þessa dagana, að bandaríska hernámsliðið hafi viljað semja tímabundið vopnahlé við liðsmenn harðlínuklerksins, Muqtada al-Sadr?

Menningarverðmæti eyðilögð átölulaust

Í ítarlegum frásögnum og fréttaskýringum, sem nú birtast í stórblöðum í Evrópu segir frá því hvernig það er áfram látið nánast átölulaust, að farið sé ránshendi um söfn og fornleifarústir í Írak. Í huga hernámsliðsins sé lykilatriðið að vernda hernaðar- og olíumannvirki en menningarverðmæti séu léttvæg fundin. Í upphafi stríðsins lék einmitt grunur á því að hernámsliðinu hefði ekki þótt það verra að söfnin væru rænd.
Það væri þá ekki í fyrsta skipti að hernámsþjóðir vildu grafa undan menningarlegum styrk hins sigraða og þar með sjálfstrausti hans til langs tíma litið. Hver sem sannleikurinn er í þessu efni þá er þetta ríkjandi viðhorf margra múslima, einnig í röðum hinna hófsamari, að nákvæmlega svona hafi þetta verið. Þetta þrýstir þeim síðan í fang öfgafullra manna.
Frá Bretlandi og frá meginlandi Evrópu berast einnig fréttir af því að ungir múslimar gerist nú stöðugt herskárri og er ein skýringin sögð vera sú, að þeim finnist menningarlegar rætur sínar svívirtar. Ekki er auðvelt að átta sig á almannavilja í Írak, hvort sömu tilhneigingar gæti þar en þó er svo að skilja á fréttum.

Er tilgangurinn sá einn að þóknast Bandaríkjastjórn?

Í skýrslu utanríkisráðherra, sem lögð var fram í tengslum við utanríkismálaumræðuna, heitir það nú svo að meginástæða árásarinnar á Írak hafi verið að „koma lögum yfir einn illræmdasta harðstjóra mannkynssögunnar.“  Ekki trúi ég að fólk sé almennt búið að gleyma því, að það voru meint gereyðingarvopn Íraka sem voru sögð meginástæðan fyrir árásinni og um það snerust átökin í öryggisráði SÞ. Í skýrslu utanríkisráðherra, segir vissulega, að „sterkar vísbendingar um gereyðingarvopn íraskra stjórnvalda“ hafi verið fyrir hendi og rætt er um þá ógnun, sem hafi stafað af Saddam Hussein „við svæðisbundinn frið og stöðugleika“. Síðan kemur söguskýring um vopnaleit fulltrúa Sameinuðu þjóðanna, sem ég efast stórlega um að Hans Blix myndi skrifa upp á þótt eflaust veki hún hrifningu í Washington. Er leikurinn ef til vill til þess eins gerður, með þessum makalausa málflutningi, að þóknast núverandi ríkisstjórn Bandaríkjanna og endurskrifa söguna þeim í hag? Ekki verður annað sagt en að þetta sé aumt hlutskipti fyrir Íslendinga!

Breyttar áherslur í Washington og þá líka í Reykjavík

Í skýrslu Halldórs Ásgrímssonar er viðurkennt, að hættan af gereyðingarvopnum kunni að hafa verið orðum aukin en jafnframt segir: „Það breytir því ekki að írösk stjórnvöld nýttu sér ekki það tækifæri sem þeim hafði verið gefið ... til að sýna fram á að öllum gereyðingarvopnum hefði verið eytt.“  Hvernig getur það gerst að svona nokkru er haldið fram eftir allt það sem á undan er gengið?
 Í Bandaríkjunum eru menn nú farnir að grafa upp fyrri ummæli ráðamanna og sýna fram á mótsagnirnar í málflutningi þeirra. Ótal sinnum lýstu Írakar því sjálfir yfir að þeir réðu ekki yfir gereyðingarvopnum. Og eftirfarandi sagði Colin Powell, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, í febrúar 2001, aðspurður um refsiaðgerðirnar gegn Írak:  „Sannleikurinn er sá að þær hafa borið  tilætlaðan árangur, honum [Saddam Hussein] hefur ekki tekist að þróa gereyðingarvopn, sem nokkru nemur og hann er ófær um að beita hefðbundnum vopnum gegn grönnum sínum.“  Og sama ár, í júlí, sagði öryggismálafulltrúi Bush, Condoleezza Rice: „Okkur hefur tekist að halda vopnum frá honum. Saddam hefur ekki tekist að endurbyggja her sinn.“
Í þetta skipti var verið að réttlæta efnahagsþvinganir og sýna fram á árangur af þeim. Síðan liðu nokkrir mánuðir. Þá taldi Bush mikla hættu stafa af herstyrk Saddams Husseins. Þá þótti Halldóri Ásgrímssyni það líka.