Fara í efni

Öryggisráðið: Ekki of seint að hætta við

Birtist í Morgunpósti VG 22.12.04
Sem kunnugt er hefur ríkisstjórnin með fyrrverandi utanríkisráðherra og núverandi forsætisráðherra, Halldór Ásgrímsson, í broddi fylkingar unnið að því að Íslendingar fái sæti í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna. Þegar hefur umtalsverðum fjármunum verið varið til þessa verkefnis og má ætla að þegar upp verður staðið verði kostnaður orðinn verulegur. Ekki hafa margir orðið til þess að hreyfa andmælum og hefur þessu framboðsbrölti almennt verið nokkuð vel tekið.En gæti þessu ekki verið svipað farið og þegar hugmyndir komu fram á sínum tíma um að opna sendiráð í Japan? Flestum fannst það ágæt hugmynd en brá hins vegar í brún þegar reikningurinn kom. Þá stóðu menn hins vegar frammi fyrir gerðum hlut.

Ég tel að endurmeta eigi þá ákvörðun að sækjast eftir sæti í Öryggisráðinu og ætla ég að nefna nokkrar ástæður.

Í fyrsta lagi mun verkefnið útheimta geysileg fjárútlát, bæði í aðdragandanum og síðan þegar í sætið væri komið. Er enda einsýnt að fjölga yrði verulega í sendinefnd okkar hjá Sameinuðu þjóðunum svo við yrðum í stakk búin að takast á við verkefnið. Þegar mun hafa verið fjölgað um einn í sendiráði Íslands í New York einvörðungu vegna framboðsins.

Í öðru lagi tel ég þetta vera ranga forgangsröðun. Á vettvangi Sameinuðu þjóðanna eiga Íslendingar vissulega að fylgjast með og láta til sín taka á sem flestum sviðum. Þegar hins vegar kemur að sérhæfingu tel ég að við eigum að einbeita okkur að afmörkuðum þáttum sem tengjast hagsmunum Íslands sérstaklega og þar sem við höfum fyrir bragðið sérþekkingu. Íslendingar stóðu sig afbragðsvel við gerð Hafréttarsáttmálans og nú er starfandi sérstök landgrunns- og hafsbotnsnefnd á vegum Sameinuðu þjóðanna og hlýtur að vera eftirsóknarvert fyrir Íslendinga að fylgjast vel með störfum hennar, helst komast þar til áhrifa. Eflaust er það gert að einhverju marki en ég tel að á sviðum sem þessum eigi Íslendingar að láta verulega að sér kveða.

Í þriðja lagi hljótum við að velta því betur fyrir okkur en gert hefur verið, hver ávinningur yrði af setu Íslands í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna. Hér má líta til reynslu undanfarinna ára auk þess sem spyrja verður um framtíðarsýn. Á undanförnum árum hafa mörg mál komið til kasta Öryggisráðsins. Upp úr stendur að sjálfsögðu deilurnar sem blossuðu upp í tengslum við Íraksmálið og viðvarandi átök um Palestínu. Í Íraksmálinu reyndi Bandaríkjastjórn allt hvað hún gat til að beygja Öryggisráðið til hlýðni. Yfirleitt verður henni vel ágengt í því efni en að þessu sinni stóðu mörg ríkin upp í hárinu á henni með Frakka í broddi fylkingar. Augljóst er af yfirlýsingum forsvarsmanna íslensku ríkisstjórnarinnar að fulltrúi Íslands hefði stillt sér upp með Bandaríkjastjórn í þessu stórpólitíska máli. Varðandi Palestínu treystu Íslendingar sér ekki til að greiða atkvæði með tilllögu um að smíði aðskilnaðarmúrsins í Palestínu yrði skotið til Alþjóðadómstólsins. Það var engu að síður samþykkt og múrinn dæmdur ólöglegur, sagður stangast á við alþjóðalög og skulbindingar. Þarna var ekki um að ræða ákvörðun á vettvangi Öryggisráðsins. en afstaða fulltrúa Íslands segir meira en mörg orð.

Ég tel að smáþjóð eins og okkar eigi þá aðeins að sækjast eftir þessu sæti í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna að hún ætli sér annað hlutverk en að stilla sér upp við hliðina á öflugustu hernaðarveldum heimsins. Það getur falist í því styrkur að vera smár en forsenda þess er að vera stór í andanum. Um álit manna á ríkisstjórn Íslands í því efni verður hver að svara fyrir sig.

Ríkisstjórnin hefur ekki sett fram nein sannfærandi rök fyrir því að seta Íslands í Öryggisráðinu sé eftirsóknarverð. Spurningin sem verður að svara er einföld. Á hvern hátt getur Ísland látið gott af sér leiða í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna? Ef ekki er hægt að svara þessari spurningu á afgerandi og sannfærandi hátt ber að hætta þegar í stað við framboð til Öryggisráðsins og beina kröftum utanríkisþjónustunnar að öðrum verkefnum.

Kosning til Öryggisráðsins fer fram 2008 og er kjörtímabilið í tvö ár, 2009-2010. Margt getur gerst fram að þessum tíma. Ekki er ólíklegt að ný ríkisstjórn verði þá tekin við völdum á Íslandi, hugsanlega með Vinstrihreyfinguna grænt framboð innanborðs. Slík ríkisstjórn myndi án efa hafa aðrar áherslur en sú sem nú situr. En það þarf meira til en breyttar áherslur. Grundvallarstefnubreytingar er þörf. Forsenda þess að seta okkar í Öryggisráðinu gæti orðið til góðs er að við treystum okkur til að fylgja sjálfstæðri utanríkisstefnu gagnvart Bandaríkjunum og NATÓ. Er það ef til vill framtíðarsýn sem samstaða gæti skapast um?