Fara í efni

Öryggi Íslands ógnað

Oddvitar ríkisstjórnarflokkanna eru sem kunnugt er miklir áhugamenn um að halda bandarískum hersveitum á Íslandi sem allra lengst. Sérstaklega leggja þeir upp úr öflugum loftvörnum. Ekki láta þeir neitt uppi um meintan óvin; hvort það eru Bretar, Danir, Íranir, Kóreumenn eða Suður-Afríkubúar sem eru taldir líklegir til að gera loftárás á Ísland. Allt er þetta hálf farsakennt.

Undarlegt andvaraleysi er hins vegar hjá þessum sömu aðilum þegar raunveruleg ógn við öryggi landsins blasir við. Sjö rússnesk herskip hafa nú í rúma viku haldið til við Þistilfjörð, rétt utan tólf mílna landhelginnar. DV hefur í dag eftir sérfræðingi í rússneska flotanum, Nick Brown, (hjá Jane´s Information Group) að líklegt sé að eitt skipanna, beitiskipið Pyotr Velikiy, sé bilað. Skipið sé kjarnorkuknúið og hugsanlega með kjarnorkuvopn um borð. Í blaðinu er vitnað í talsmenn rússneska hersins sem sagt hafi að skipið sé nánast eins og ruslahaugur, kjarnaofninn hugsanlega í ólagi og að raunveruleg hætta sé á því að skipið gæti sprungið í loft upp.

Ekki hef ég forsendur til að meta hversu raunsönn lýsing þetta er á ástandi skipsins en engin ástæða er til að rengja hana enda vandséð hvers vegna forsvarsmenn rússneska flotans ættu að ýkja frásagnir sínar ekki síst þegar um er að ræða flaggskip flotans!

Hér erum við komin að kjarna máls: Á gjöfulum fiskimiðum skammt undan strönd landsins er tifandi tímasprengja, skip sem gæti valdið ómældum mengunarskaða um langa framtíð; hugsanlega varanlegum skaða á fiskimiðunum.

Íslenskum stjórnvöldum ber skylda til að mótmæla veru Rússanna á eins kröftugan hátt og kostur er. Rússnesku herskipin úti fyrir Austfjörðum eru raunveruleg ógn við öryggi Íslands.