Fara í efni

ÖRLAGARÍKAST Á ÁRINU 2014 OG HUGSANLEGA 2015

Náttúran er okkar
Náttúran er okkar
Í stjórnmálum er stundum tekist á um grundvallaratriði en oftast um áherslur.

Eignarhald á auðlindum varðar grundvallaratriði svo dæmi sé tekið. Kvótavæðing sjávarauðlindarinnar með heimildum handhafa kvóta til sölu, leigu og veðsetningar á óveiddum sjávarafla í byrjun tíunda áratugarins varðaði sjálfan grundvöll samfélagsins. Hún varðaði eignarhald á auðlind.

7% eða 11% skattlagning á matvæli er tog um áherslur. Mikilvægt tog og rammpólitískt en engu að síður átök um áherslur.

Á árinu sem senn er liðið hefur verið tekist á um grundvallaratriði sem á eftir að fara í sögubækur ef illa fer: Hvort einkaeignarréttur á landi eigi að fela í sér heimild til að selja aðgang að náttúrugersemum í ábataskyni.

Í átökum og deilum um þetta efni hafa stundum þung orð verið látin falla. Það þekkir sá sem þetta skrifar. En orðin eru ekki af engu sprottin. Málefnaleg rót umræðunnar má ekki gleymast og það sem meira er, hana verður að leiða til lykta með langtíma almannahagsmuni að leiðarljósi eins fljótt og auðið er.

Vonandi tekst það á komandi ári. Og vonandi verður niðurstaðan á þá lund að sem allra flestir geti vel við unað.