Fara í efni

ÖRLAGARÍKAR KOSNINGAR

Birtist í Mosfellingi
Hinn 25. apríl næstkomandi ganga Íslendingar til Alþingiskosninga sem ég tel vera einhverjar hinar örlagaríkustu í sögu lýðveldisins. Þær snúast um endurreisn Íslands. Á hvaða grunni viljum við reisa efnahags- og fjármálakerfið við, hvernig viljum við bera okkur að í vörn og sókn fyrir velferðarþjónustuna og hvernig ætlum við að ráðstafa náttúruauðlindum okkar? Flestir þekkja áherslur Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs um blandað hagkerfi sem byggir á fjölbreytni, jöfnuði og sanngirni við skiptingu verðmæta, eignarhaldi þjóðarinnar á auðlindum til lands og sjávar og varfærni í umgengni við móður jörð. Nú ríður á að við vöndum okkur og styðjum til áhrifa merkisbera þeirrar stefnu sem best tekur tillit til þessara þátta. Á lista VG í Suðvesturkjördæmi er fólk víðs vegar að úr samfélaginu og á það sameiginlegt að hafa látið að sér kveða í þjóðfélagsumræðunni á undanförnum misserum og árum. Ég hvet lesendur til að kynna sér listann vel og íhuga hvort þeir eru sammála mér um að þar sé tvímælalaust að finna fólk sem mikilvægt er að komi að stjórn þjóðarskútunnar í erfiðri siglingu komandi ára.