Fara í efni

ORÐSENDING TIL SENDIHERRA BRETA Á ÍSLANDI

MBL  - Logo
MBL - Logo
Birtist í Morgunblaðinu 29.11.16.
Fyrr á þessu ári var ég í sendinefnd, undir forystu forseta Alþingis, sem heimsótti breska þingið í Lundúnum og hið welska í Cardiff.

Þetta var afar fróðleg ferð enda hittum við fulltrúa ólíkra flokka og sjónarmiða.

Eitt áttu gestgjafar okkar sameiginlegt, nefnilega að telja að Íslendingar standi sameinaðir að baki óskum um að fá sæstreng lagðan til Bretlands til að flytja um íslenskt rafmagn. Ég hafði á tilfinningunni að þegar gestgjafar okkar - og það átti við um fulltrúa allra flokka - vildu gleðja okkur, þá sögðu þeir að mikilvægt væri að skoða með jákvæðu hugarfari lagningu slíks strengs.

Nú fáum við fréttir af því að breskir fjárfestar biðja ríkisstjórn sína um stuðning við slík áform. Í kjölfar Brexit þurfi að horfa til nýrra uppspretta verðmætanna.

Ég tók það að mér í Bretlandsferðinni  - og létu ferðafélagar mínir það óátalið - að benda á að þetta væri síður en svo óumdeilt á Íslandi. Þannig væru margir þessu mjög andvígir og væri ég þeirra á meðal.

Tal um græna orku í þessu sambandi væri ekki bara hvimleitt heldur hreint tilræði við íslenska náttúru. Enginn vafi léki á því að með sæstreng myndi magnast til mikilla muna þrýstingur á frekari stórvirkjanir á Íslandi. Grænustu orkulindir landsins könnuðust margir við, Gullfoss væri þannig mjög grænn enda myndi hann framleiða endurnýjanlega orku. Það ætti líka við um Dettifoss og Goðafoss. Landmannalaugar væru einnig án efa eftirsóknarverður kostur. Ég nefndi engin dæmi þótt ég vilji í þessu greinarkorni minna lesendur á hve villandi þessi græna bábilja er. 

Þegar inn í þennan kokteil kæmu síðan stjórnarskrárákvæði, sem margir kalla eftir, að allar auðlindir, ekki bara sjávarútvegurinn, heldur allar auðlindir Íslands, orkan og vatnið þar með talið, verði látnar gefa af sér þann arð sem að hámarki mætti ná á markaði, þá væri ekki að sökum að spyrja. Þegar þrengdi að ríkissjóði, þá yrði háværari krafan um meiri virkjanir svo fá mætti meiri arð. Þetta liggur í augum uppi.

En í ljósi þess hve umdeilt málið er og hve afvegaleidd bresk stjórnvöld hafa verið í þessu máli, leyfi ég mér að óska eftir því að sendiherra Bretlands á Íslandi upplýsi stjórnvöld heima fyrir um hve umdeild þessi framkvæmd yrði hér á Íslandi. Og að óskir um sæstreng til Bretlands hefðu engan veginn verið settar fram í nafni okkar allra.