Fara í efni

OPINBERUNARFUNDUR NIÐURLÆGINGAR

Í dag fer fram í Reykjavík ráðstefna í nafni tímaritsins The Economist um orkulandið Ísland, sem býður upp á ódýra orku og skattafslátt til auðhringa sem vilja láta svo lítið að stinga niður fæti í boði ríkisstjórnar Íslands. Einn af styrktaraðilum ráðstefnunnar er álframleiðandinn Alcoa, sem talað getur af reynslu um örlæti ríkisstjórnar Halldórs Ásgrímssonar. Sjaldan hefur íslensk ríkisstjórn lagst eins lágt og sú sem nú situr gagnvart auðvaldi erlendu og innlendu. Ráðstefnan í dag er eins konar opinberunarráðstefna þessarar niðurlægingar.

Steingrími J. Sigfússyni, formanni Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs var boðið að sækja ráðstefnuna en afþakkar boðið í opnu bréfi sem birtist í Morgunblaðinu í dag. Þar segir formaður VG meðal annars: "Engum eiginlegum gagnrýnisröddum, hvort sem heldur er litið til hinna stórfelldu umhverfisáhrifa stóriðjustefnunnar eða efnahagsafleiðinga er hleypt að. Ráðstefnan er því sem slík fullkomlega óáhugaverð, einhliða trúboð fyrir stóriðju- útsölustefnunni og tíma mínum betur varið til annarra hluta.  Þaðan af síður væri 160 – 170 þúsund krónum vel varið í að hlusta á trúboðið...Ætlast er til þess að menn borgi 1 ½ mánaðarlaun tekjulægsta fólksins í landinu fyrir eins dags atburð af þessu tagi. Það er lýsandi fyrir þann hugarheim sem ráðstefnuhaldarar, styrktaraðilar, aðstandendur, ræðumenn og aðrir þátttakendur lifa í. Hér er ekki settur upp fundur þar sem borin er virðing fyrir gagnkvæmum sjónarmiðum, hér er ekki efnt til rökræðu og hér er ekki ætlast til þátttöku almennings...Það má þó segja að fyrst taki steininn úr þegar farið er að skoða kynningarefni The Economist fyrir ráðstefnuna. Í blaðagrein sem birtist í Morgunblaðinu, föstudaginn 28. apríl s.l. gerði ég grein fyrir því með hvaða hætti Ísland er þar falboðið sem land hinnar ódýru hreinu og ótakmörkuðu orku sem jafnvel fullnægi þörfum allrar Evrópu. Það að aðili eins og The Economist, sem væntanlega ætlast til þess að hann sé tekinn alvarlega, skuli láta þvætting af þessu tagi fara frá sér er neðan við allar hellur. Dapurlegt er að takmörkuð orka landsins og um leið náttúra þess skuli falboðin með þessum hætti. Sérstaklega er auglýst að hún, þ.e. orkan, sé ódýr og að í kaupbæti séu veittir afslættir á sköttum. Svo seint sem á því herrans ári 2006 er landið enn kynnt með þessum hætti. Forkólfar stóriðjustefnunnar með forsætisráðherra landsins í broddi fylkingar hafa bókstaflega ekkert lært."

Sjá fyrri frétt um sama efni HÉR