Fara í efni

Opið bréf til heilbrigðisráðherra

Birtist í Morgunblaðinu 17.12.04.
Innan heilbrigðiskerfisins eru nú víða miklar þrengingar. Á undanförnum mánuðum og misserum hefur starfsfólki verið sagt upp störfum. Víða eru sjúkrastofnanir undirmannaðar, og sums staðar hefur deildum verið lokað að hluta til eða að fullu til að spara launakostnað.

Lokanir á Landakoti

Dæmi um þetta er að finna á Landakotsspítala sem sinnir öldrunarhjúkrun. Það er vægast sagt undarleg tilfinning að horfa inn eftir ganginum á annarri hæð spítalans, galtómri, með 22 auðum rúmum. Þetta er umhugsunarvert fyrir margra hluta sakir. Í fyrsta lagi vegna þess að sjúkrahúsið annar ekki eftirspurn frá þurfandi fólki. Í öðru lagi er tilfinningin blendin í kjölfar hinna miklu fagnaðarláta stjórnarmeirihlutans á Alþingi yfir nýsamþykktum skattalækkunum. Fagnað var skattalækkunum hjá fullfrísku fólki; skattalækkunum sem augljóslega munu bitna á sjúku fóki og lasburða. Í þingsal var því fagnað að peningum hefði verið forðað frá "krumlu ríkisins"!

Ekki hægt að íþyngja starfsfólki endalaust

Það má vel vera að stjórnendur standi í þeirri trú að endalaust sé hægt að leggja auknar byrðar á starfsfólkið. Ég er hins vegar sannfærður um að víða í heilbrigðiskerfinu er komið langt út yfir þau mörk sem hægt er að bjóða starfsfólki og þar af leiðandi einnig sjúklingum.
Að undanförnu hafa komið upp í fréttum tilvik þar sem upp úr hefur soðið eða að mistök kunna að hafa átt sér stað. Ástæðurnar eru af ýmsum toga. Kærur eru reistar á hendur starfsfólki vegna meintra afglapa í starfi og þrengslin og aðstöðuleysi á öldrunarheimilum hafa valdið því að vistmenn og aðstandendur telja mannréttindi hreinlega brotin. Undir slíkar kvartanir skal svo sannarlega tekið. En svo mikið þekki ég til þessara stofnana og þess starfsfólks sem þar vinnur að ég veit að öllum þykir þyngra en tárum taki að geta ekki boðið upp á betri aðstöðu og umönnun en raun ber vitni.

Hvers eiga aðrir að gjalda?

Ekki sitja allir við sama borð í þessum efnum. Ef elliheimilið Grund, svo dæmi sé tekið, fengi greitt samkvæmt sömu stöðlum og elliheimili sem eru rekin sem hlutafélög á markaðsforsendum, myndu árlegar greiðslur þangað úr hirslum skattborgarans hækka um 285 milljónir króna. Spyrja má hvort nýlegt umkvörtunarefni gagnvart Grund hefði komið upp ef fjárráðin hefðu verið rýmri sem þessu nemur? Hvers á Grund að gjalda, eða Hrafnista eða allar aðrar sambærilegar stofnanir? Þetta eru stofnanir sem öllum þeim sem til þekkja ber saman um að sinni sínum verkum mjög vel nema hvað þær eru að hluta til með húsnæði sem komið er til ára sinna og þröngur stakkur sniðinn til að bæta þar úr.  Um þessa mismunun í fjárveitingum til öldrunarheimila sagði yfirlæknirinn á Skjóli í ársskýrslu í mars 2003: " Það er hins vegar mikið undrunarefni, hve mismunur milli heimila og vistmanna þeirra vex." Skýringin er augljós segir hann ennfremur, "sá  óhjákvæmilegi munur hlýtur að vera augljós á verktakakostnaði aðila sem annars vegar reiknar sér og hluthöfum sínum15% arð af starfseminni og hins vegar sjálfseignarfélögum sem hafa það eitt á stefnuskrá að skrimta hallalaus frá ári til árs." Ætla má að ung markaðsvædd fyrirtæki séu ekki enn farin að greiða út arð að fullu. Fyrir vikið geta þau búið skjólstæðingum sínum betri aðstæður en aðrar sambærilegar stofnanir.

Svara óskað við tveimur spurningum

Ríkisstjórnin ræður forgangsröðun fjármuna skattborgarans. Hún virðist alltaf telja sig hafa næga fjármuni fyrir rándýrum sendiráðum og gæluverkefnum. Hún vílar heldur ekki fyrir sér að fjármagna einkavæðingu þótt hún sé dýrari en almennur rekstur. Þegar hins vegar kemur að því að halda úti þjónustu við sjúka og veikburða, sem ekki hafa fjárfesta á bak við sig, er einfaldlega skellt í lás.
Ástæða væri til að spyrja almennra spurninga um framtíð heilbrigðisþjónustunnar og framtíð einstakra heilbrigðisstofnana og deilda innan þeirra. Ég ætla hins vegar að þessu sinni að leyfa mér að afmarka spurningar mínar við öldrunarþjónustuna. Í ljósi nýlegra atburða sem átt hafa sér stað innan hennar vil ég beina tveimur spurningum til heilbrigðisráðherra og vænti ég þess að hann svari á opinberum vettvangi. Í fyrsta lagi, er ráðgert að halda áfram sveltistefnu gagnvart öldrunarþjónustu á sjúkrahúsum landsins með þeim afleiðingum að deildir eru undirmannaðar eða þeim lokað að hluta til eða að fullu, eins og dæmin sanna á Landakoti? Í öðru lagi, stendur til að bæta hag þeirra öldrunarstofnana sem búin eru lakari kjör af hálfu ríkisins en þeim sem reknar eru sem hlutafélög?