Fara í efni

Opið bréf til Heilbrigðisráðherra

Birtist í Mbl
Það vakti talsverða athygli í þjóðfélaginu þegar fréttir bárust af því síðastliðið vor að fyrir dyrum stæðu umfangsmeiri sumarlokanir á geðdeildum sjúkrahúsa en þekkst hafa til þessa. Starfsfólk lýsti andstöðu við þessar lokanir og sagði of langt gengið. Yfirlæknir á geðdeild Landspítalans gekk svo langt að segja að þessar lokanir gætu leitt til alvarlegra atburða, jafnvel haft sjálfsvíg í för með sér. Málið var tekið upp á Alþingi og kom þar fram að heilbrigðisráðherra hyggðist taka upp viðræður við fjármálaráðherra um þessar ráðstafanir.

Á orðum heilbrigðisráðherra mátti skilja að reynt yrði að afla fjármuna til að snúa áður teknum ákvörðunum til baka. Það varð þó ekki. Hins vegar hafa birst viðtöl við heilbrigðisráðherra þar sem fram kemur sú skoðun, að lokanir deilda og samdráttur í þjónustu á sjúkrastofnunum leiði iðulega til útgjalda á öðrum sviðum heilbrigðis- og tryggingaþjónustunnar og sé því oft ekki til þess fallið að spara peninga. Undir þetta sjónarmið skal tekið og má í því sambandi minna á könnun sem fram fór á vegum BSRB fyrir nokkrum árum og leiddi í ljós að sumarlokanir öldrunardeilda leiddu til útgjaldaauka á öðrum sviðum. Vandinn við kannanir af þessu tagi er svo aftur sá að erfitt getur reynst að sýna fram á þætti sem ekki eru auðveldlega mælanlegir og er þá átt við þá erfiðleika sem sjúklingar og aðstandendur þeirra verða fyrir.

Umræða sem ekki má bíða

Á ríkisspítölunum er nú farið að ræða frekari samdráttaraðgerðir á hinum ýmsu deildum, þar á meðal geðdeildum. Til tals hefur komið að grípa til uppsagna og jafnvel áframhaldandi lokana geðdeilda. Ef mönnum er alvara með þessu þarf þegar í stað að fara fram opinber umræða um málið því þetta snertir samfélagið allt og kemur okkur öllum við. Ekki dugar að láta þessa umræðu bíða til haustsins því eins og gefur að skilja er starfsemi stórra sjúkrastofnana skipulögð langt fram í tímann og gæti reynst erfitt í haust að breyta ákvörðunum sem nú kunna að verða teknar. Þess vegna er nauðsynlegt að fá þegar í stað upplýsingar um fyrirætlanir varðandi starfsemina á næstu misserum.

Sú spurning, sem nú er óskað eftir að heilbrigðisráðherra svari, er þessi: Mun ríkisstjórnin heimila niðurskurð og samdrátt í þjónustu við geðsjúka svo og áfengis- og vímuefnasjúklinga þegar sumarlokunum sleppir?

Ef grípa á til niðurskurðar og samdráttar á þessu sviði verða heilbrigðisyfirvöld og þá fyrst og fremst þeir aðilar sem hafa pólitíska ábyrgð á þessum málaflokki að rökstyðja áform sín.

Ef ástæðurnar fyrir lokunum og samdrætti eru af efnahagslegum toga þarf það að koma fram. Þá þurfa stjórnvöld að sýna fram á það, að um raunverulegan sparnað sé að ræða og jafnframt hrekja staðhæfingar um að sá sparnaður, ef einhver er, gæti reynst samfélaginu dýrkeyptur. Auðveldlega má færa að því rök að eðlilegra væri að snúa dæminu við og spyrja hver sé kostnaður þjóðfélagsins við samdrátt í þjónustu við geðsjúka. Því staðreyndin er sú, að það er samfélaginu dýrt að reyna ekki að gera alla þegnana færa um að lifa sjálfstæðu lífi.

 

Peningar og siðferði

Á þessum málum er að sjálfsögðu einnig siðferðileg hlið sem þarf að ræða ekki síður en hina efnahagslegu. Hún lýtur að því að sumir einstaklingar þurfa á stuðningi samfélagsins að halda og að samfélaginu ber siðferðileg skylda til að veita þann stuðning. Þess vegna verður einnig spurt hvernig yfirvöld ætli að réttlæta siðferðilega ef dregið verður úr stuðningi við geðsjúka, áfengis- og vímuefnasjúklinga.

Ríkisstjórnin og sérstaklega heilbrigðisráðherra verður krafinn um að hann geri grein fyrir báðum þessum þáttum, hinum efnahagslega og hinum siðferðilega ef gripið verður til frekari samdráttaraðgerða en þegar hefur verið gert með tilheyrandi uppsögnum og jafnvel lokunum á einstökum geðdeildum spítalanna eins og rætt hefur verið um.

Fyrr í sumar boðaði landlæknir til fundar sem haldinn var vegna óska sem fram komu frá aðstandendum geðsjúkra einstaklinga. Fundinn sátu auk þeirra fjölmargir starfsmenn heilbrigðisþjónustu og löggæslu. Undirritaður óskaði eftir að fá að sitja þennan fund og var hann mjög lærdómsríkur. Eftir fundinn var í fjölmiðlum haft eftir ábyrgum aðilum sem fundinn sátu, að eins og málum væri komið væri stórum hópi fólks sem ætti við geðræn vandamál að stríða, sumum með alvarleg áfengis- og vímuefnavandamál, vísað út á guð og gaddinn. Sumir, sem engan ættu að, ráfuðu um göturnar, aðrir leituðu á náðir aðstandenda sem iðulega væru að brotna undan óbærilegu álagi.

 

Hinn napri veruleiki

Við þetta vakna margar spurningar. Hafa menn til dæmis reiknað kostnaðinn af því að gera stóra hópa fólks óvinnufæra til lengri tíma, en þess eru mörg dæmi að geðsjúkir einstaklingar lami umhverfi sitt með þessum afleiðingum. Þetta er hinn napri veruleiki. Og hafa menn hugsað til enda hve hættulegt það getur verið að vísa út í þjóðfélagið eftirlitslaust einstaklingum sem ekki hafa stjórn á eigin gjörðum? Eða stendur til að fjölga í lögreglunni um leið og dregið verður úr aðstoð við áfengis- og vímuefnasjúklinga? Þá má spyrja hverjar afleiðingar lokanir og samdráttur á einu sviði geðheilbrigðisþjónustunnar hafi. Geta þær t.d. leitt til þess að settir eru á einn stað ólíkir einstaklingar sem hafa slæm áhrif hver á annan? Verða til dæmis áfengis- og vímuefnasjúklingar settir með fólki sem á við gerólíkan vanda að stríða? Hvaða áhrif hefur þetta á líðan og batamöguleika þeirra sem hlut eiga að máli? Það má ekki gleyma því að verið er að tala um sjúka einstaklinga. Það er verið að tala um fólk.

Hvernig ætla stjórnvöld að réttlæta það siðferðilega að dregið verði úr aðstoð við einstaklinga og fjölskyldur sem enginn ber brigður á að þurfi á hjálp samfélagsins að halda? Liggja efnahagsleg rök að baki; höfum við ekki efni á að sjá geðsjúku fólki fyrir aðstoð? Hvernig ætla stjórnvöld að réttlæta það gagnvart samfélaginu að vísa fólki út á göturnar sem er sjálfu sér og umhverfi sínu hættulegt? Telja menn sig vera að þjóna vilja þjóðarinnar?

 

Skyldur samfélagsins

Getur verið að skýringin sé af allt öðrum toga? Getur verið að í baráttunni um peninga í heilbrigðisþjónustunni standi geðsjúkir og aðstandendur þeirra höllum fæti sem þrýstihópur? Geðsjúkdómur lamar ekki aðeins þann sem hann hrjáir heldur alla þá sem standa sjúklingnum næst. Sjúkdómur eins manns getur þannig þegar fram líða stundir dregið máttinn úr mörgum. Það þarf sterk bein til að standast það álag að horfa á fjölskyldumeðlim eða ástvin brotna niður. Vissulega eru til þeir einstaklingar sem hafa risið undir þessu álagi. Um það sannfærðist ég á fyrrnefndum fundi. En samfélaginu öllu ber skylda til að létta þeim byrðarnar.

Heilbrigðisnefnd Alþingis kemur saman á fimmtudag í þessari viku til að fá upplýsingar um fyrirætlanir í heilbrigðiskerfinu. Þar verður fjallað um ýmsa þætti heilbrigðisþjónustunnar. Í ljósi þessa alvarlega ástands, sem skapaðist í sumar á geðdeildum sjúkrahúsanna, er víst að fylgst verður sérstaklega með því á hvern hátt heilbrigðisráherra hyggst standa vörð um hag geðsjúkra og aðstandenda þeirra.