Fara í efni

OPIÐ BRÉF TIL FORMANNS SLYSAVARNAFÉLAGSINS LANDSBJARGAR


Birist í Fréttablaðinu 16.03.21

Ég vil ávarpa þig beint sem formann Slysavarnafélagsins Landsbjargar vegna yfirlýsinga þinna í nafni félagsins í Fréttablaðinu síðastliðinn laugardag. Þar veitist þú að fólki sem haldið er spilafíkn í því skyni að finna fyrir því réttlætingu að gera sér veikindi þess að féþúfu. Þessi ummæli valda miklum vonbrigðum svo ekki sé dýpra í árinni tekið. Því eindregnari stuðningsmenn Slysavarnarfélagsins Landsbjargar þeim mun meiri eru vonbrigðin. Ekki veit ég hvort þínir félagsmenn hafi látið frá sér heyra. Ég gef mér að svo hafi verið því ég veit fyrir víst að margir þeirra eru á öndverðum meiði við þig í þessu efni. Varla eru menn svo geðlausir að láta þögnina duga.

Þú segir í viðtali við Fréttablaðið að spilafíklar eigi að taka ábyrgð á sjálfum sér og að rangt sé að “varpa ábyrgðinni frá fíklunum og yfir á spilakassana.” Spilafíklar eigi að “taka ábyrgð og viðurkenna sína fíkn og leita sér hjálpar.” Nákvæmlega þetta hafa þeir verið að gera, stofnað samtök og leitað eftir aðstoð af hálfu samfélagsins sem ber á byrgð á rekstri spilavítanna. Ekki nóg með að þeir einstaklingar sem eiga beint í hlut hafi gert þetta heldur hafa fjölskyldur þeirra og síðan einnig atvinnurekendur, sem þeir starfa hjá, stigið fram og sagt að þær vikur sem kassarnir hafi verið lokaðir vegna Covid hafi það komið sem frelsun. Og allur almenningur tekur undir. 86% landsmanna eru á sama máli samkvæmt umfangsmikilli skoðanakönnun Gallup síðastliðið vor.

Hið göfuga við hjálparstarf

Björgunarsveitarmenn bjarga fólki án þess að hafa um það mörg orð að sjálft geti það sér um kennt að koma sér í þær ógöngur að nauðsynlegt sé að kalla út hjálparsveitir. Það er einmitt það göfuga og fallega við björgunarsveitirnar. Þess vegna hefur fjöldi heimila ákveðið að styðja Slysavarnafélagið Landsbjörg sem bakverðir. Við höfðum látið okkur koma til hugar á mínu heimili, sem hefur verið slíkur bakhjarl, að tvöfalda áskrift okkar. Það var þegar við höfðum haft af því ávæning að björgunarsveitirnar ætluðu að segja sig frá spilakössunum. Það reyndist vera rangt og létum við því kyrrt liggja. Hlýtur það að eiga við um fleiri heimili en mitt að sú spurning gerist áleitin hvort maður hafi yfirleitt geð í sér að styðja björgunarsveitir sem ráðast á þá sem þær ættu að vera að bjarga.
Í framangreindu viðtali við þig í Fréttablaðinu segir þú að “í áraraðir” hafi Íslandsspil og Landsbjörg staðið í baráttu við stjórnvöld um betrumbætur: “Við höfum fundað með stjórnvöldum og ráðherrum til að koma á breytingum er varða spilakassana.” Þú nefnir sérstaklega að þið hafið viljað innleiða spilakort og “að ekki eigi að vera samkeppni á spilamakaði sem er til góðgerðarmála.”

Þar til nú …

Mikið hafa þessar tilraunir ykkar farið lágt. Þrátt fyrir mikla umræðu á undanförnum misserum um spilavíti og þá óhamingju sem af þeim leiðir, þá hefur ekki heyrst aukatekið orð frá forsvarsmönnum samtaka “góðgerðamála” þar til nú að mótmæli gegn fjárhættuspilunum eru orðin það mikil að ekki verður lengur vikist undan því af hálfu ríkisstjórnar og Alþingis að taka á málinu. Fullreynt er að rekstraraðilarnir geri það ótilneyddir. Þar er SÁÁ undantekningin og eiga þau samtök heiður skilið fyrir vikið.  
Síðast kom fram þingmál um eftirlit með þessum fjárhættuspilum árið 2013. Ég flutti það frumvarp sem þáverandi innanríkisráðherra. Ég hafði efnt til samráðs við fulltrúa Íslandsspila, ykkar rekstraraðila, svo og Happdrættis Háskóla Íslands. Þar reifaði ég þær hugmyndir sem þú víkur nú að, nefnilega að setja allan spilakassareksturinn undir eina regnhlíf svo félögin væru ekki í samkeppni innbyrðis um að flytja inn eins ágengar vélar og kostur er í því augnamiði að ná “viðskiptavinum“ hver af öðrum. Þessa framtíðarsýn reifaði ég á samráðsfundum með rekstraraðilum. Engan stuðning fékk ég frá þeim. Í besta falli þrjóska þögn.
Þú vísar til fleiri en eins ráðherra sem þið hafið rætt þetta við “í áraraðir”. Ef þið hafið átt í viðræðum við núverandi dómsmálaráðherra um þessar hugmyndir þá hefur Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, ráðherra, farið mjög dult með það. Ekkert slíkt var á henni að heyra þegar ég átti með henni fund fyrir fáeinum mánuðum um hugmyndir af þessu tagi.

Úreltar hugmyndir

Hins vegar hef ég sannfærst um að þessar gömlu tillögur um sameiningu og spilakort  eru fullkomlega úreltar orðnar. Í mínum huga er fráleitt annað en að loka fyrir þennan rekstur með öllu. Þetta er óværa á okkar samfélagi og okkur öllum til skammar að umbera það að níðst skuli á fólki sem ekki er sjálfrátt gerða sinna. Spilafíklar sjálfir og aðstandendur þeirra hafa sannfært mig algerlega um þetta.  
Ágæti formaður Slysavarnafélagsins Landsbjargar, ég vil gjarnan slást í hóp þeirra sem vilja finna þínum samtökum rekstrarfé. En fyrst ber að loka á þennan óheilla rekstur.     
Ef spilafíklar gætu tekið á byrgð á sér eins og þú brýnir þá til að gera, þá kæmu engar tekjur í vasa þíns félagsskapar því frá þeim kemur nær allt sem þið fáið í ykkar hlut. Þú segir að helst vilduð þið vera lausir við þessa fjáröflun.
Hvers vegna?