Fara í efni

ÓNÝT RÍKISSTJÓRN

24 stundir
24 stundir

Birtist í 24stundum 25.06.08.
Í gær birtist forsíðufrétt í 24stundum undir fyrirsögninni: Markaðir „ónýtir". Þar greinir frá 40% samdrætti á hlutabréfamörkuðum, eða sem nemur um 458 milljörðum króna á fyrstu 5 mánuðum ársins. Orðrétt segir: „Fjárfestar sem 24stundir hafa rætt við undanfarnar vikur segja ástandið á mörkuðum alvarlegra en af er látið. Einn þeirra sagði markaðina"ónýta"....Hann sagðist ætla að beita sér fyrir því að félög honum tengd yrðu tekin af markaði til að losna við „að þurfa að vakna á morgnana og hafa áhyggjur af markaðnum."" 

Lesendum til hugarhægðar skal tekið fram að vansvefta fjármálaspekúlantar hafa fundið það ráð við svefnleysi og áhyggjum að leita inn í skuldabréfaviðskipti. Þar hafa viðskipti aukist um rúma 600 milljarða á fyrrgreindu tímabili að sögn 24stunda „vegna hagstæðra vaxta".

Nú skal játað að að undirritaður hefur minni áhyggjur af vísitölu stundargróðans en langtímahagsmunum íslensks samfélags. Af hinu síðarnefnda er hins vegar ástæða til að hafa verulegar áhyggjur. Vandinn sem við stöndum frammi fyrir er nefnilega ekki skammtímavandi á hlutabréfamarkaði. Við horfum upp á langtímavanda, gjaldþrot þeirrar peningafrjálshyggju sem hér hefur verið rekin í nær tvo áratugi.

Ríkisbankarnir voru einkavæddir og við þeim tóku silkiklæddir fjármálamenn sem reynst hafa harðsvíraðir alheimskapítalistar sem einskis hafa svifist á alþjóðavísu, ekki síst gagnvart fátækum þjóðum í Austurvegi. Í lausafjárkreppunni lenda þessar fjármálastofnanir - sem skulda litla 15 þúsund milljarða - í vandræðum þegar rúllettan stöðvast. Hundsaðar hafa verið allar ábendingar og kröfur okkar í VG um að skilin yrðu rækilega að annars vegar innlend viðskipti hinna einkavæddu banka, sem byggðu á hefðbundinni lánastarfsemi, og hins vegar fjárfestingarbraskið.

Hlutverk stjórnvalda er nú sem áður að reisa varnarmúra fyrir okkur sem byggjum þetta land. Það gerir ríkisstjórnin ekki. Þótt menn sofi illa í Kauphöllinni hygg ég að þjóðin sofi enn verr. Ekki vegna fregna af hlutabréfamörkuðum heldur vegna þess að þjóðin skynjar að hún hefur yfir sér ríkisstjórn sem er nánast verri en engin þegar á reynir, ónýt.