Fara í efni

ÓMARKVISSAR AÐGERÐIR Í LÁNAMÁLUM

MBL -- HAUSINN
MBL -- HAUSINN

Birtist í Morgunblaðinu 17.06.13.
Hanna Birna Kristjánsdóttir, innanríkisráðherra, hefur mælt fyrir frumvarpi um að lögbinda flýtimeðferð dómsmála sem lúta að „lögmæti þess að binda fjárskuldbindingu við gengi erlendra gjaldmiðla eða vísitölu eða uppgjörislíkra skuldbindinga..."
Í framsöguræðu sagði ráðherra að frumvarpið væri „mikilvægur þáttur í þeirri þingsályktunartillögu sem hæstvirtur forsætisráðherra kynnti í stefnuræðu sinni ... og mikilvægur þáttur í því að forgangsraða mjög ákveðið og eindregið á þessu sumarþingi í þágu skuldavanda heimilanna."

Ný lög breyta engu í bráð

Við þetta vakna ýmsar spurningar. Í fyrsta lagi er með þessum orðum gefið í skyn að lögin fari þegar í stað að hafa áhrif. Svo er ekki því hjá dómstólum landsins er nú hafið réttarhlé sem stendur fram á haust. Ný lög breyta því engu í bráð.
Í annan stað er mjög óljóst hvað lögin þýða í reynd. Í umræðu á Alþingi voru gefin misvísandi svör um það hvort lagabreytingin þýddi að umrædd dómsmál yrðu tekin fram yfir önnur í dómskerfiu. Ráðherra sagði að þetta „þurfi ekki að  hafa áhrif á önnur mál..." Í greinargerð með frumvarpinu segir þó að brýnt sé „ að veita dómara styrka stoð til að taka fram fyrir önnur mál þau mál sem lúta að ágreiningi á þessu sviði svo að leyst verði úr þeim á eins skjótan hátt og mögulegt er."

Jákvætt markmið nægir ekki

Sjálfur tel ég rétt að flýta beri málum sem eru fordæmisgefandi enda mikilvægt að leysa eins hratt og unnt er  úr þeirri óvissu sem enn ríkir í málum sem tengjast uppgjöri skulda heimila og fyrirtækja.
Við fyrstu sýn hljómar vel að gefa dómstólum lagastoð til að knýja á um að skammir frestir verði gefnir fyrir málsaðila til að bregðast við í vinnslu mála. Í greinargerðinni segir að í lagaheimildinni felist „að dómari sjái til þess að allir frestir í máli séu eins stuttir og mögulegt er og að dómur sé kveðinn upp hið fyrsta. Á þetta bæði við um mál sem rekin eru fyrir héraðsdómi og Hæstarétti."
Hér er nauðsynlegt að halda því til haga að skammir frestir geta valdið tjóni lántakendum  sem eru í baráttu við fjármálafyrirtæki með her sérfræðinga bæði lögmanna og sérfræðinga í endurútreikningum. Mikilvægt er að lántakendur hafi ráðrúm og tíma til að vinna að máli sínu á móti þessu herliði. Skammir frestir geta því verið skuldara í óhag, en reynslan hefur sýnt að oftast er um mjög flókin mál að ræða og torsótt af hendi lántakenda.

Rót vandans hjá málsaðilum

Staðreyndin er sú að með þessu frumvarpi er að mínu mati ekki verið að taka á hinum raunverulega vanda. Tafir í málsmeðferð verða fremur raktar til málsaðila dómsmálanna en til dómstólanna. Þau dómsmál sem hafa verið stefnumarkandi hafa að uppistöðu til verið unnin eins hratt og unnt er með samkomulagi aðila, sbr. nýr dómur Hæstaréttar (Plastiðjan g. Landsbankanum).
Fyrri ríkisstjórn beitti sér fyrir því að samkomulega næðist um að hraða tilteknum prófmálum. Þau voru upphaflega 11 talsins en nú eru 3 mál eftir í dómskerfinu. Það skal sagt að þetta hefur tekið alltof langan tíma og mikilvægt að unnt sé að ljúka endurútreikningum ólögmætra gengislána sem allra fyrst. Fjármálafyrirtækin hafa dregið lappirnar í þessum málum og það er löngu mál að linni. Þessu til staðfestingar skal nefna blaðagrein sem birtist í Morgunblaðinu 7. júní sl. rituð af Helga Sigurðssyni, lögmanni Landsbankans í fyrrgreindu Plastiðjumáli, en ég fæ ekki betur séð en þar sé talsvert lagt á sig til að snúa út úr skýru fordæmi Hæstaréttar hvað varðar skammtímalán. Er með ólíkindum að svo sé að verki staðið og til skammar að reyna að tefja endurútreikning fyrir lántakendur. Það má ekki gleymast að fjármálfyrirtækin voru að veita almenningi ólögmæt lán og eiga að sjálfsögðu að bera ábyrgð á því.

Drómi verstur


Þótt vísað sé hér almennt til tregðu fjármálastofnana til að hraða málum fer því fjarri að hægt sé að alhæfa um þær. Árið 2009 voru þau mistök gerð að skipa slitastjórnir fyrir SPRON og Frjálsa fjárfestingarbankann, nú undir heitinu Drómi. Í raun er það óásættanlegt með öllu að slitastjórn sé að taka ákvarðanir í málum einstaklinga í erfiðleikum. Hvatinn til aðstoðar og að veita venjulega fjármálaþjónustu er ekki fyrir hendi - nema ef skyldi vera almenn siðferðiskennd sem greinlega er ekki til staðar - og í raun er það mikið réttlætismál að breyta þessu fyrirkomulagi. Hingað til hafa stjórnmálin, kerfið og eftirlitsstofnanir brugðist með sorglegum afleiðingum fyrir margt fólk. Dæmin eru nánast öll á einn veg, kvartanir um hæga málsmeðferð, jafnvel engin svör, ósvífin ósannindi og ósveigjanleiki. Hér gilda önnur viðhorf en hjá fjármálafyrirtækjum almennt varðandi aðstoð við einstaklinga og fjölskyldur. Það verður að segjast eins og er að þessi framkoma er samfélagi okkar til skammar. Hér verður að grípa til aðgerða og vekur það furðu mína að ekki sé fjallað um þetta mein í þingsályktunartillögu ríkisstjórnarinnar þar sem um mikið réttlætismál er að ræða.

Mikilvæg tillaga forsætisráðherra

Að vísu má segja að þetta sé gert óbeint í tillögum forsætisráðherra en þar er vísað til þess að „sérfræðingahópur meti möguleika á því að leggja gjald á fjármálafyrirtæki vegna umtalsverðra tafa á endurútreikningi lána." Þetta tel ég vera afar mikilvægt  atriði sem ég styð mjög eindregið. Þetta er þó of þröngt ákvæði þegar fjármálastofnanir fara ekki einu sinni eftir samkomulagi sem þær gerðu sjálfar eða samtök þeirra fyrir þeirra hönd við stjórnvöld vegna gengilána og verðtryggðra lána. Þarna er hins vegar verið að beina sjónum að hinum raunverulega vanda og beita þeim þrýstingi á fjármálafyrirtæki sem þau skilja, þ.e. að þau þurfi að greiða gjald fyrir tafirnar.

Ríkisstjórnin lofar

Ríkisstjórnin hefur staðhæft aftur og ítrekað að raunverulegra aðgerða sé að vænta sem muni rétta hlut lántakenda. Gagnvart fólki sem komið er í greiðsluþrot eða er í þann veginn að missa heimili sín skiptir sköpum að fá boðaða úrlausn sem allra fyrst megi það verða til að forða heimilismissi eða gjaldþroti. Þá hefur m.a., vegna fyrirheita ríkisstjórnarinnar, myndast ákveðin biðstaða bæði á fasteignamarkaði og í úrvinnslu greiðsluerfiðleikamála. Ljóst er að einstaklingar hafa væntingar  til þess að fá lausn sinna mála og er mikilvægt að koma til móts við þennan hóp. Ef úrræði ríkisstjórnarinnar ganga eftir gæti ákveðinn hópur fengið lausn sinna mála án greiðsluerfiðleikaúrræða, s.s. greiðsluaðlögunar eða gjaldþrots.

Þingsályktun: Lánveitendur haldi að sér höndum

Af þessum sökum hafði ég forgöngu um þingsályktunartillögu þess efnis að á meðan tillögur ríkisstjórnarinnar um niðurfærslu skulda eru í vinnslu, verði ÍLS gefin fyrirmæli um að fresta öllum innheimtuaðgerðum og nauðungarsölum uns niðurstaða liggur fyrir í boðuðum aðgerðum ríkisstjórnarinnar og  lífeyrissjóðum og fjármálastofnunum send samsvarandi áskorun.
Trúi ég ekki öðru en að á þetta verið fallist af hálfu ríkisstjórnarinnar og stjórnarmeirihlutans sem er óþreytandi að sannfæra okkur um að senn líti dagsins ljós úrræði sem bæti stöðu skuldara. Af þeim sökum hlýtur þetta að vera auðsótt mál.