Fara í efni

Ólína kveður sér hljóðs

Það eru alltaf tíðindi þegar hin vísi skríbent okkar hér á síðunni Ólína kveður sér hljóðs. Það gerir hún í dag undir liðnum Spurt og svarað. Hún beinir orðum sínum til Guðmundar Andra Thorssonar sem skrifar í DV í dag. Ólína, sem mér býður í grun að hafi komið mjög við sögu jafnaðarmanna á Íslandi, hefur sitthvað við skrif Guðmundar Andra að athuga. Ólína telur greinlega að sagan eigi að verða okkur víti til varnaðar. Alla vega þurfum við að draga rétta lærdóma af reynslu undangenginna ára. Ég vil taka undir þetta með Ólínu. Menn eiga að vera ábyrgir gerða sinna og menn eiga að vera dæmdir af verkum sínum. Það eru mín orð, ekki Ólínu. Þetta finnst mér engu að síður vera hennar boðskapur. Það er staðreynd að í stjórnatíð Alþýðuflokks og Sjálfstæðisflokks á fyrri hluta tíunda áratugarins voru teknar örlagaríkar ákvarðanir í Stjórnarráði Íslands. Þegar menn tala fyrir jafnaðarmennskunni eins og Guðmundur Andri gerir þá er vert að íhuga hverjir eru líklegastir til að halda gunnfána hennar hæst á lofti.