Fara í efni

ÓLAFUR ÓLAFSSON LANDLÆKNIR KVADDUR

Eitt er víst að hefði ég verið staddur á Íslandi sem ég ekki er, þá hefði ég fylgt Ólafi Ólafssyni landlækni til grafar en útför hans fór fram frá Hallgrímskirkju í dag. Án efa hefur kirkjan verið þéttskipuð og á minningarsíðum Morgunblaðsins birtist mikill fjöldi greina. Þar er margt vel sagt. Enda frá mörgu að segja um þennan mann sem aldrei varð fyrrverandi landlæknir því titlinum hélt hann í huga þjóðarinnar til dauðadags, löngu eftir að hann lét af embætti.

Skýringin er sú að Ólafur var miklu meira en embættismaður, hann var hugsjónamaður og hugsjónir hans spurðu ekkert um takmarkanir í tíma og rúmi. Og alltaf var hann að. Hugsjón hans var sú að heilbrigðiskerfið ætti að vera allra, án þröskulda, án gjaldtöku og milliliða, aldrei bisniss, bara til að lækna fólk.

Og þegar bisnissheimurinn fór að þrengja sér inn í kerfið og vildi inn eftir spítalaganginum þá var Ólafi Ólafssyni þar að mæta.

Ég man eftir honum á ótal fundum um heilbrigðismál halda þessum málstað fram. Alltaf var hann mættur þegar BSRB efndi til funda um almannarekið heilbrigðiskerfi. Alltaf hvetjandi, eldmóðurinn alltaf til staðar.

Eflaust var Ólafur Ólafsson ekki allra en hann var okkar sem töldum heilbrigðiskerfi byggt á fullkomnum jöfnuði vera sjálfan grunndvöll velferðarþjóðfélags sem vildi rísa undir nafni. Hann var okkar og við vorum hans.

Það er mikil eftirsjá að mönnum á borð við Ólaf landlækni sem aldrei gefast upp í baráttu fyrir góðum málstað. En það er ekki bara eftirsjá að mönnum á borð við hann heldur hann sjálfan – frumeintakið – því það var hann, frumeintak, engum líkur.

Samúðarkveðjur sendi ég til fjölskyldu hans.

(Myndin er Ómars/mbl.is)