Fara í efni

OKKUR AÐ ÞAKKA!

Bylgan í bítið - Heimir og Gulli
Bylgan í bítið - Heimir og Gulli


Í liðinni viku fór ég í heimsókn til þeirra Heimis og Gulla í Bítið á Bylgjunni. Alltaf gaman að spjalla við þá og svo var einnig að þessu sinni. Við komum víða við, heima og heiman.

Við ræddum Brexit og ég skýrði hvers vegna ég hefði kosið með Brexit, nefnilega gegn óhugnanlegri míðstýringu á forsendum markaðsaflanna. Við ræddum Trump og eina jákvæða atriðið sem ég gæti tengt honum. Það er að vilja segja upp yfirþjóðlegu viðskiptasamnigunum - TTIPS OG TiSA (enn í  burðarliðnum) sem Bandaríkjamenn undir stjórn Obamas hafa viljað undirgangast gegn hörðum mótmælum verkalýðshreyfngar og annarra almannasamtaka. Enda eru samningarnir ekki eingöngu viðskiptasamningar heldur jafnframt skuldbindandi um markaðsvæðingu. Auk þess færa þeir valdið frá stofnunum sem eru beintengdar lýðræði yfir til úrskurðarnefnda sem hallar eru undir alræði markaðshyggjunnar.

Svo ræddum við pólitískar og efnahagslegar horfur hér innanlands og þar kom að við fjölluðum um vaxtarsprotana sem nú eru heldur betur að dafna og vaxa, ekki síst í ferðaiðnaði. Varla er það þó Vinstri grænum að þakka sögðu þeir félagar með glott á vör. Skyldi ekki Eyjafjallajökull hafa skipt þar meira máli, bættu þeir við.

Undir það tók ég. En vildi þó ekki alveg gefa mig. Og eftir því sem ég hugsa málið betur þá er það umhverfissinnum að þakka að hægt hefur á darraðardansi stóriðjunnar. Náttúruvernd á meira upp á pallborðið nú en fyrir nokkurum áratugum, jafnvel nokkrum árum.

Þetta hefur ekki gerst af sjálfu sér.

Enginn velkist í vafa um að til Íslands koma ferðalangar til að skoða óbeislaðan Goðafoss - ekki til að spranga um kerskála álveranna.

Hvað okkur áhrærir þá þurfum við að velja. Viljum við varðveita óspillt víðerni Íslands og náttúruperlur landsins, fyrir okkar augu og augu annarra að njóta, eða viljum við nýta fallvötnin og hverina og alla aðra þá möguleika sem bjóðast til að búa til orku?

Þetta er pólitískt val um atvinnustefnu. Og árum saman var tekist á um þessa stefnu. Getur verið að menn séu búnir að gleyma því? Varla, því enn er tekist á! Auðvitað hefðum við ekkert getað gert án Strokks, Gullfoss og Herðubreiðar. En öll þau sem hafa viljað vernda þessar og aðrar náttúruperlur Íslands geta þakkað sér þá viðhorfsbreytingu sem sveigt hefur atvinnustefnuna inn í þann farveg að nýta og njóta nátúrunnar í stað þess að ganga á hana.

Þannig að segja má með sanni að þetta sé okkur að þakka sem ljáð höfum málstað Landverndar stuðning.