Fara í efni

OKKAR JARÐGÖNG

Hafnarfjörður - blað
Hafnarfjörður - blað

Birtist í blaðinu Hafnarfjordur 15.03.13.
Ég játa fúslega að sjálfur er ég maður einkabílsins; nýti hann óspart, en almenningssamgöngur sjaldnar. Innst inni veit ég þó að almenningssamgöngur eru ferðamáti framtíðarinnar. Að hluta til er þetta spurning um vana. Okkur finnst eðlilegt að ferðast með lestum, sporvognum og strætisvögnum í stórbogum sem við heimsækjum hvort heldur er í London og París eða Kaupmannahöfn. Og þegar þessi ferðamáti er kominn upp í vana þá verður hann notalegur. Það þekkir Bretinn sem les blöðin sín og bækur í lestinni á leið til vinnu. Og hún vinkona mín sem býr í Hafnarfirði og vinnur í Háskóla Íslands við Suðurgötu í Reykjavík segir þægindi strætóferðanna hafa verið mikla uppgötvun, þá fyrst hafi hún fundið tíma á hverjum degi til lestrar.
En þetta er ekki bara spurning um vana. Þetta er líka spurning um skipulag, framsýni og fyrirhyggju. Í þjóðfélagi framtíðarinnar mun margt verða til þess að auka þörf fyrir almenningssamgöngur. Þar má nefna að eldsneyti á eftir að verða dýrara, álag á vegakerfið meira og mengun til vandræða. Þetta þarf að hafa í huga við langtímaskipulagningu samgöngukerfisins. Nákvæmlega það erum við að gera.
Á þéttbýlissvæðinu á suð-vesturhorninu erum við nú að verja milljarði árlega til almenningssamgangna umfram það sem áður var. Um er að ræða tilraunaverkefni til tíu ára. Þetta er á við myndarleg jarðgöng,  alvöru stórframkvæmd. Af þessu getum við verið stolt því þarna erum við að sýna fyrirhyggju.
Við munum öll - líka við einkabílistarnir - þakka fyrir þessa fyrirhyggju þegar fram líða stundir.