Fara í efni

ÖGMUNDARFÉLAGIÐ


Sá sem heitir Ögmundur leggur við hlustir þegar maður með því nafni kemur fram á sjónarsviðið færandi hendi. Á Myrkum Músíkdögum hlýddi ég á Ögmund Þór Jóhannesson , gítarsnilling flytja íslenskar tónsmíðar fyrir gítar í Norræna húsinu.
Tónsmíðarnar voru eftir Huga Guðmundsson, Atla Heimi Sveinsson, Þorstein Hauksson, Kjartan Ólafsson, Snorra S. Birgisson og Karólínu Eiríksdóttur. Verk Karólínu á tónleikunum var skrifað sérstaklega fyrir Ögmund og var þetta frumflutningur þess á Íslandi. Hinn eiginlegi frumflutningur var í Frakkland í júlí 2006.
Tilefni þessara skrifa er að í kvöld voru tónleikarnir fluttir í Ríkisútvarpinu þannig að þeim sem ekki sóttu tónleikana 27. janúar sl. gafst þar færi á að heyra snilldartakta tónlistarmannsins. Í sýningarskrá er greint frá glæsilegum námsferli Ögmundar þórs Jóhannessonar á Íslandi, Spáni og loks í Austurríki en hann útskrifaðist með hæstu einkunn frá hinum heimskunna Mozarteum skóla í júní árið 2008. Núna starfar Ögmundur þór sem tónlistarmaður í Berlín.
Til marks um færni hans segir meðal annars um verkið Toccata eftir Þorstein Hauksson í sýningarskrá: „Verkið er mjög krefjandi fyrir hljóðfæraleikarann, því mikill hraði og snúin teygjugrip eru nauðsynleg enda er það til marks um mikla færni og tæknilega fullkomnun þegar þetta verk sést á efnisskrá gítaristans."
Hér má hlýða á kosertinn: http://dagskra.ruv.is/ras1/4523597/2010/02/04/
Sjá nánar: http://www.salurinn.is/default.asp?page_id=7883