Öfugmæli víki fyrir skynsemi
Birtist í DV
Veri Alcoa velkomið til Íslands, segir í leiðara DV um helgina. Þar segir og að fengur sé af fyrirtæki sem leggur “aðaláherslu á gæði, öryggi, heilsu starfsmanna og umhverfismál.” Þær eru nú kveðnar af kappi öfugmælavísurnar eða hafa menn virkilega ekki fylgst með frásögnum af átökum umhverfisverndarsamtaka og verkalýðs- og mannréttindasamtaka við Alcoa, sérstaklega í fátækum ríkjum þar sem fyrirtækið hefur haslað sér völl? Varla myndu menn skrifa svona ef þeir hefðu kynnt sér málin, eða hvað?
Fagnaðarerindið
Skartklædd tóku þau á móti gjöfum frá þessum meintu umhverfisvinum, forstjóri Landsvirkjunar og iðnaðarráðherrann. Engu líkara var en en fyrir dyrum stæði árshátíð þegar gengið var til fréttamannafundar þar sem fagnaðarerindið var boðað. Þar var þó ekki stiginn dans heldur látið við það sitja að skýra þjóðinni frá því að settar yrðu 600 milljónir í framkvæmdir til undirbúnings virkjun við Kárahnjúka, m.a. með vegalagningu við fyrirhugað uppistöðulón sem yrði á stærð við Hvalfjörð. Þessar framkvæmdir kvað talsmaður Alcoa stjórnvöld hafa fullvissað fyrirtækið um að væru skaðlausar, en sem kunnugt er hefur Skipulagasstofnun tíundað þau miklu umhverfisspjöll sem þessar framkvæmdir hefðu í för með sér.
Ummæli ráðamanna
Ef litið er á ummæli talsmanna ríkisstjórnarinnar undanfarna daga virðist nokkuð skorta á yfirvegun og raunsæi. Þannig gerir Einar K. Guðfinnsson alþingismaður lítið úr áhrifum boðaðrar vaxtahækkunar og spyr með nokkrum þjósti í mánudagsgrein í DV hvort menn séu virkilega að halda því fram að aukin efnahagsumsvif sem þessum framkvæmdum myndu fylgja, væru vandamál? “Ekki er öll vitleysan eins”, er niðurstaða þingmannsins. Og Halldór Ásgrímsson utanríkisráherra er við þetta sama heygarðshorn í viðtali við Fréttablaðið sl. föstudag. “’Ég hef aldrei heyrt það fyrr”, segir hann, “að atvinnusköpun og tekjuaukning teljist neikvæð fyrirbrigði... hins vegar þarf að stunda hagstjórn í ljósi þessa fyrirbrigðis ... en að það sé neikvætt að skapa fleiri störf í landinu, það er pólitík sem ég get aldrei skrifað upp á. Ég hef aldrei heyrt þessa umræðu fyrr og finnst hún afskaplega sérkennileg...” Hér vísa þeir félagar Einar og Halldór til gagnrýni sem fram hefur komið á efnahagslegar forsendur stóriðju- og virkjunaráforma ríkisstjórnarinnar.
Umræðan
Sannast sagna hefur það verið átakanlegt nú síðustu daga að fylgjast með íslenskum fjölmiðlum taka á þessu máli sem mjög skiptar skoðanir eru um í þjóðfélaginu. Ráðherrar komast upp með að hafna því að mæta pólitískum andstæðingum sínum í viðtalsþáttum og hafa þeir fengið að baða sig lítt áreittir í kastljósum fjölmiðlanna. Þeir einfaldlega neita að mæta “óþægilegum” andstæðingum og þar við situr. Eftir að iðnaðarráðherrann og síðan Alcoaforstjórinn höfðu mætt einir í Kastljós Ríkissjónvarpsins varð einhverjum á að spyrja hvers Friðrik Sophusson ætti eiginlega að gjalda, hvers vegna fengi forstjóri Landsvirkjunar ekki sinn Kastljósþátt? Og er það tilviljun að skrifað skuli undir viljayfirlýsingu með Alcoa þegar þingið er ekki að störfum og grundvöllur lýðræðislegrar umræðu þrengri fyrir vikið?
Loforðin
Í desember 1999 hét iðnaðarráðherra því að ekki yrði ráðist í neinar undirbúningsframkvæmdir vegna virkjunar nema allir samningar lægju þá fyrir og “búið að semja um alla þætti málsins nema þá að tryggingar... séu fyrir því að Landsvirkjun verði ekki fyrir neinum skaða af málinu.” Ekki hefur þetta gengið eftir og hefur nú verið ákveðið að hefjast handa án þess að Landvirkjun sé að fullu tryggð og ófrágengnir samningar um raforkuverð, skatta og aðra þætti sem sérstaklega snerta hagsmuni Íslendinga. Finnst mönnum það virkilega vera í lagi að ganga á bak orða sinna? Finnst fjölmiðlum það ekki skipta máli að ráðherrar standi við fyrirheit og loforð sem gefin eru á Alþingi?
Efnahagsáhrifin
Víkjum að efnahagsáhrifunum. Áformuð virkjun við Kárahnjúka, álverksmiðjan og annað þessu tengt yrði stærsta framkvæmd í sögu þjóðarinnar og næmi um 250 milljörðum króna. Enginn deilir um að í okkar smáa hagkerfi yrðu áhrifin afgerandi. Þessi áhrif kæmu fram í gengi krónunnar, stýrivöxtum Seðlabanka, viðskiptajöfnuði, hagvexti, þróun verðs innlendra skuldabréfa og hlutabréfa, afföllum húsbréfa enda um að ræða talsvert hærri fjárhæð en öll fjárfesting innlendra atvinnuvega, heimila og hins opinbera í ár. Nú er það mikill misskilningur hjá alþingismönnunum Einari K Guðfinnssyni og Halldóri Ásgrímssyni að menn séu á móti hagvexti og atvinnusköpun. Menn hafa hins vegar efasemdir um að þessi leið til atvinnusköpunar sé skynsamleg fyrir þjóðina.
Stóriðjan ryður frá sér
Í fyrsta lagi benda menn á að mótvægisaðgerðirnar sem grípa þurfi til séu óheppilegar fyrir aðrar greinar atvinnlífsins. Til að hamla gegn þenslu leggja efnahagssérfræðingar til tvær leiðir. Hækkun vaxta og niðurskurð á framkvæmdum í öðrum geirum atvinnulífsins. Þessar ráðstafanir eru nátengdar. Hækkun vaxta er lögð til svo erfiðara yrði fyrir fyrirtæki og heimili að fjárfesta í nýjum framkvæmdum. Nýsköpun annars staðar í efnahagslífinu yrði þannig torvelduð og í því samhengi er rætt um ruðningsáhrif og er þar átt við að stóriðjuframkvæmdin myndi ryðja öðrum atvinnurekstri úr vegi. Staðreyndin er nefnilega sú að þær fjárhæðir sem um er að tefla eru ekki að öllu leyti viðbótarfjármagn inn í efnahagslífið heldur þarf annað fjármagn einfaldlega að víkja. Út á það myndi efnahagsstjórnunin ganga. Við stöndum þannig frammi fyrir vali: Hvers konar atvinnuuppbyggingu viljum við stuðla að? Margbreytilegri efnahagsstarfsemi eða tiltölulega fábreyttu efnahagslífi sem byggir fyrst og fremst á sjávarúrtvegi og stóriðju? Sjálfum finnst mér síðari valkosturinn lakari.
Raforkuleyndin
Á endanum hljóta hagsmunir okkar að ráðast af raforkuverðinu. Að sögn seljum við nú raforkuna til álvera í Straumsvík og á Grundartanga á 1 kr. til 1.30 kr kílówattstundina. Samkvæmt forsendum sem Landsvirkjun byggir á þyrfti raforkuverðið að vera að minnsta kosti helmingi hærra en til þessara aðila. Verður það svo? Þetta fæst ekki upplýst. Hlýtur þjóðin sem á að borga brúsann ekki eiga heimtingu á að fá þetta upplýst. Er þetta ekki eðlileg krafa? Hvenær skyldi verða fjallað um hana í leiðara DV?