Fara í efni

Ofbeldið í Palestínu og vinabæjarhugmyndin


Stöðugt berast fréttir af ofbeldisverkum í Palestínu. Augljóst er að ísraelsk stjórnvöld vinna að því leynt og ljóst að brjóta Palestínumenn niður andlega, gera þeim ólíft í landinu, væntanlega í þeirri von að á endanum hrekist þeir á brott þaðan. Ég velti því oft fyrir mér hvernig við hefðum brugðist við ef Palestínumenn væru svartir en Ísraelsmenn hvítir, eða þá öfugt. Þá hefði kynþáttastefnan, apartheid, verið augljósari en hún er nú. Hér á síðunni er grein sem ber heitið Látum auga heimsins hvíla á Palestínu (frá 19.5). Þar er vitnað í frásagnir utanaðkomandi fólks, þar á meðal Íslendinga, af atburðum í Palestínu. Ég hvet fólk til þess að kynna sér þessar frásagnir. Í greininni set ég fram þá hugmynd að íslenskir bæir – t.d. Reykjavíkurborg – taki upp vinabæjarsamband við bæ í Palestínu. Þetta myndi án efa verða Palestínumönnum til styrkingar. Þess vegna gæti verið ágæt hugmynd að taka jafnframt upp vinabæjarsamband við við ísraelskan bæ til að sýna að ekkert vakir annað fyrir okkur en stuðla að jákvæðum og friðsamlegum samskiptum. Framar öllu væri þetta til þess fallið að leggja okkar lóð á vogarskálarnar í mannréttindabaráttu undirokaðs fólks. Ég hef auglýst eftir viðbrögðum við þessari hugmynd og geri það nú enn.

Við eigum ekki að standa aðgerðalraus gagnvart ofbeldinu í Palestínu. Eins og áður er vikið að er greinilegt að með stöðugu áreiti og ofbeldi er reynt að brjóta Palestínumenn niður. Eitt nýlegt dæmi er frá þorpi sem heitir Qarwet Bany Zead sem er norðan við Ramallah. Síðastliðinn miðvikudag komu ísraelskir hermenn inn í þorpið í herjeppum. Þeir skutu út í loftið. Börn og unglingar brugðust við með steinkasti. Hermennirnir svöruðu með skothríð á unglingana. Nizar Khalil, sextán ára drengur féll í valinn. Við þetta þustu nokkrar konur á vettvang. Þeirra á meðal var Rasmeeyeh Arar. Hún varð fyrir skoti í magann. Það olli innvortis blæðingum sem leiddu til dauða hennar fáeinum klukkustundum síðar. Þessi kona var 35 ára gömul. Hún var sjö barna móðir.