Fara í efni

OFBELDI Í ORÐUM

DV
DV

Birtist í DV 20.06.12.
Maður er kærður fyrir nauðgun. Ákæruvaldið fellir málið niður og gefur ekki út ákæru. Þar með er málinu ekki lokið því nú hefjast réttarhöld í fjölmiðlum. Ekki um efnisatriði einstaks máls heldur almennt um tengd málefni. Margir blanda sér í umræðuna. Þekktur rithöfundur skrifar skáldlega grein, fulla af meiðingum. Smám saman  þróast umræðan þannig að engum verður í henni vært. Þar með er málfrelsið fyrir bí, orðræðan orðin að ofbeldi.

Lifandi líf eða bók í hillu?

Fyrir nokkrum árum skrifaði ég greinar í blöð til að andæfa ofbeldi í orðum. Þannig var að nokkrir einstaklingar höfðu haft í hótunum á netinu um að nauðga og meiða konur sem töluðu fyrir kvenfrelsi. Ég hef oft velt því fyrir mér hvort þessir ungu menn vissu hvað þeir voru að gera. Eða hvort þetta var þeirra veruleiki; ofbeldisheimur og hugarfar, orðið svo hversdagslegt að þeir voru hættir að sjá orð sín í réttu ljósi.
Ef til vill getur hið sama hent rithöfunda, að þeir greini ekki á milli hins skáldaða veruleika, veruleika bókarinnar, sem sett er upp í hillu að loknum lestri og hins vegar skilaboða sem komið er til þátttakaenda í alvöru harmleikjum hér og nú?

Þegar umræðunni er útskúfað

Til eru einræðisríki án einræðisherra. Það eru ríki þar sem umræðu hefur verið útskúfað. Þegar vanahugsun er ógnað er brugðist við með lítilsvirðingu og háðsglósum, stundum  offorsi og hótunum, jafnvel ofbeldi.
Í tímans rás hefur fólk, sem troðið hefur verið undir einræðishæl, spurt hvernig það hafi getað átt sér stað. Hvernig gat þetta gerst, er spurt eftir á? Eflaust verða einræðisríki og ofbeldismenning til fyrir ásetning. En slík ómenning verður líka til fyrir andvaraleysi hinna sem í aðgerðaleysi sínu létu ofbeldi viðgangast þegar það var í fæðingu, að skjóta rótum.

Gegn einelti

Við megum aldrei láta það viðgangast að þaggað verði niður í fólki sem berst fyrir mannréttindum með málfrelsið eitt að a vopni.
Aðgerðarleysi gagnvart ofbeldi á ekki rétt á sér. Ekki heldur andvaraleysi. Þannig verður einræðismenningin til. Ekki aðeins vegna þess að ofbeldismenn gerast fyrirferðarmiklir og hrifsa til sín völdin heldur vegna hins að þeir eru látnir komast upp með það. Það á að verða þjóðfélaginu öllu til umhugsunar ef hér er að myndast andrúmsloft þar sem það líðst að allir þeir sem hreyfa við ranglæti í samfélaginu eru látnir sæta einelti og hótunum! Af slíku stafar sjálfu lýðræðinu ógn.

Skáldin kunna á orðin

Ef til vill á að gera sömu kröfur til allra, ofbeldisbloggara og eðalskálda. Ég vil gera á þeim greinarmun. Ég þykist nefnilega vita að enginn þekkir betur til þess hver er máttur orðanna en skáldin. Og Guðbergur Bergsson kann betur á orð en flestir menn.