Fara í efni

ODDVITI VG: HLUSTUM Á LÆGSTU RADDIRNAR


Mikið finnst mér það góð tilhugsun að Þorleifur Gunnlaugsson skuli vera málsvari okkar Vinstri grænna í Reykjavíkurborg. Önnur úr framvarðarsveitinni eru vissulega kröftug, Sóley Tómasdóttir og fleiri. Virkilega góð. En Þorleifur er oddvitinn og verður vonandi áfram í borgarstjórnarkosningunum í vor!

Í grein á Smugunni er að finna athyglisverðar hugleiðingar hans um kreppuna. Þorleifur rekur meðal annars reynslu Finna sem hann varð áskynja í för til Finnlands nýlega. Þar kom m.a. fram að borgarstjórinn í Helsinki hefði lagt sérstaka áherslu á að ekki ætti að "nota ostahnífinn og skera alls staðar jafnt niður. Þeir sem eru í mestri þörf hafa oft lægstu röddina. Efnað fólk á yfirleitt miklu betra aðgengi að fjölmiðlum til að gera hávaða út af litlu".

Þetta segir Þorleifur að hafi orðið sér umhugsunar efni: „Þeir sem eru í mestri þörf hafa lægstu röddina."

Og í framhaldinu spyr Þorleifur Gunnlaugsson hverjir það skyldu vera hér á landi sem hafi lægstu röddina: "Jú, það eru Þeir sem lifa á fjárhagsaðstoð, atvinnuleysingjarnir, þeir sem eru á lægstu bótunum frá tryggingastofnun og svo að sjálfsögðu börn þessara hópa."

Þetta eru umhugsunarverð varnaðarorð. Við eigum að leggja við hlustir; hlusta eftir lægstu röddunum.

Umrædd grein Þorleifs er hér: http://www.smugan.is/pistlar/adsendar-greinar/nr/2429