Fara í efni

ODDNÝ EIN Á VINSTRI VAKTINNI

Fyrir þinglok fór fram söguleg atkvæðagreiðsla á Alþingi. Einhvern tímann hefði hún alla vega þótt það.

Samþykkt var með stuðningi þingmanna Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs, VG auk Viðreisnar, að ráðast í svokölluð “samvinnuverkefni” í samgöngumálum þar sem “samvinnan” er fólgin í því að heimila fjárfestum aðkomu að peningaveskjum vegfarenda.

Samvinna af þessu tagi hefur verið kölluð einkaframkvæmd og er að mati Félags íslenskra bifreiðaeigenda, FÍB, yfir 30% dýrari sé litið til fjármagnskostnaðar. Þá á væntanlega eftir að reikna með “eðlilegum afrakstri”, sem svo er nefndur í þingmálinu, nú lögunum, og er ætlaður “fjárfestum”.

Það merkilega er að allir eru stjórnarflokkarnir að svíkja sína umbjóðendur.

Framsóknarflokkurinn hafði lofað því að innleiða ekki veggjöld en svíkur nú þau loforð. Stærir sig af því að nú verði stóraukið framlag til samgöngumála! Kosningasvikin, hið stóraukna framlag, kemur frá vegfarendum sem almennt hafa verið andvígir þessari auknu gjaldtöku.

Sjálfstæðisflokkurinn þykist fyrir kosningar andvígur aukinni skattlagningu/gjaldtöku en sannar með þessu að hann er tilbúinn að svíkja kjósendur sína (suma) ef þarf að þjóna (öðrum) hagsmunatengdum stuðningsmönnum flokksins – fjárfestingarbröskurunum.

VG virðist stefna hraðbyri að því að segja skilið við vinstrið í nafni sínu og er það í mínum huga þyngra en tárum taki. Ekki bara lögin og inntak þeirra heldur greinargerð og nefndarálit færa okkur heim sanninn um þetta.  

Stjórnarandstaðan sat að mestu leyti hjá við lokaafgreiðsluna nema náttúrlega harðlínu hægriflokkurinn Viðreisn – yfir sig hrifinn.

Einn þingmaður sker sig úr og er það Oddný Harðardóttir, Samfylkingunni. Þegar frumvarpið var gert að lögum greiddi hún ein atkvæði gegn því. Það gerði hún á forsendum, svipuðum þeim sem talað hefur verið fyrir hér á þessari síðu.

Hér má sjá atkvæðagreiðsluna: https://www.althingi.is/thingstorf/thingmalin/atkvaedagreidsla/?nnafnak=59898

Ég tek ofan fyrir Oddnýju Harðardóttur.

Hér má sjá fyrri skrif hér á síðunni: https://www.ogmundur.is/is/greinar/hjartnaemar-thakkir-fyrir-adstod-vid-kosningasvikin