Fara í efni

ÓBREYTT ÞJÓNUSTUTILSKIPUN EVRÓPUSAMBANDSINS YRÐI TILRÆÐI VIÐ VELFERÐARÞJÓÐFÉLAGIÐ

Samtök launafólks í almannaþjónustu á Hinu evrópska efnahagssvæði (European Public Services Union) samþykkti á stjórnarfundi í Brussel í dag harðorð mótmæli gegn þeirri ákvörðun starfsnefndar Evrópuþingsins að mæla með því að öll almannaþjónusta skuli falla undir nýja þjónustutilskipun Evrópusambandsins. Þjónustutilskipun Evrópusambandsins, sem hér um ræðir, hefur að geyma svokallaða upprunalandsreglu þar sem kveðið er á um að kjarasamningar þess lands sem farandfyrirtæki er frá, skuli gilda, ekki samningar þess lands sem fyrirtækið starfar í. Þetta myndi gera að engu íslensk lög um að íslenskir kjarasamningar á vinnumarkaði skuli gilda. Þá eru í tilskipuninni að finna ákvæði um að heilbrigðisþjónustan skuli opnuð fyrir einkavæðingu.

Evrópuþingið mun taka málið til umfjöllunar í janúar en ljóst er að fari þingið að tillögu þingnefndarinnar mun verkalýðshreyfingin í Evrópu líta á það sem blauta tusku í andlitið. Stjórn Evrópusambands verkalýðsfélaga (ETUC), sem bæði BSRB og ASÍ eiga aðild að, lýsti yfir fyrir fáeinum dögum að ef þetta gengi eftir myndi sambandið hætta öllum tilraunum til sátta og krefjast þess að tilskipunin yrði dregin til baka í heild sinni.

Í yfirlýsingu EPSU frá í dag kveður við mjög harðan tón. Segir að þjónustutilskipunin í núverandi myndi hafi grundvallarstefnubreytingu í Evrópusambandinu. Einstefnumarkaðshyggja verði nú ráðandi á kostnað félagslegra þátta. Velferðarkerfum sé stefnt inn á markaðstorgið þar sem fyrirtæki og einstök ríki komi til með að vegast á. Þetta muni grafa undan tiltrú almennings á Evrópusambandinu, nokkuð sem þegar gætir í vaxandi mæli. Þegar hafi verslun landa á milli innan Evrópusambandsins minnkað og hefur hallað undan fæti hvað það snertir frá árinu 2000: „Þetta er til marks um að núverandi stefna Evrópusambandsins, þ.e. að stuðla að aukinni verslun á grundvelli samkeppni í stað samvinnu, hefur beðið skipbrot.“

Í yfirlýsingu EPSU er verkalýðshreyfingin á Hinu evrópska efnahagssvæði hvött til að beita sér af alefli og grípa til fjöldaaðgerða í byrjun næsta árs ef Evrópusambandið gerir alvöru úr því að opna velferðarþjónustuna fyrir markaðsöflunum.

Á stjórnarfundi EPSU sem ég sit var áhugavert að hlýða á fulltrúa bresku verkalýðshreyfingarinnar vara við þjónustutilskipuninni. Þeir sögðu að þegar væri búið að opna fyrir einkavæðingu í stórum hluta velferðarkerfisins í Bretlandi. Tekist hefði að tryggja ýmis grundvallarréttindi launafólks í samningum verkalýðsfélaganna. Með þjónustutilskipuninni yrði hins vegar grafið undan slíkum samningum og yrði því mikilvægt að berjast gegn tilskipuninni af alefli. Allir þeir stjórnarmenn sem kvöddu sér hljóðs á fundinum voru á einu máli um að þjónustutilskipun Evrópusambandsins í núverandi mynd væri tilræði við velferðarríkið.