Fara í efni

ÓBOTNUÐ SETNING BRYNJARS: "FROSTI VERÐUR AÐ GERA UPP VIÐ SIG HVORT HANN STYÐJI RÍKISSTJÓRNINA ..."

Brynjar og Frosti 2016
Brynjar og Frosti 2016

Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og varaformaður efnahags- og viðskipanefndar Alþingis, hafði í dag í heitingum við formann þessarar sömu nefndar, framsóknarmanninn Frosta Sigurjónsson.

Brynjar finnur Frosta það til foráttu að hann hafi gagnrýnt Bjarna Benediktsson, fjármálaráðherra og formann Sjálfstæðisflokksins, fyrir að skuldbinda íslenska skattgreiðendur um 2,3 milljarða í stofnfé til svokallaðs innviðabanka Asíu. Röksemdirnar eru í rýrara lagi en gamalkunnar: Allir eru að gera það!

Frosti hefur líka talað fyrir opinberu eignarhaldi á Landsbankanum og vill að hann starfi sem samfélagsbanki sem skili hagnaði sínum í vasa viðskiptavinanna í formi hagstæðra lánskjara. Hann segir það glapræði að ætla að selja banka sem skilar tugum milljarða í ríkissjóð, hvað þá að það skuli gert þegar offramboð er á eignarhlut í bönkum á sölumarkaði.

Bjarni hefur svarað því til að óeðlilegt sé að ríkið sé að vasast í bankastarfsemi. Nema náttúrlega austur í Asíu!

Tvískinnungur?
Miklu verra en það!

Hér er ríkisstjórnin að þjóna fjármagninu eins og fyrri daginn. Á sama tíma og fjármálaráðherrann gengur erinda peningamanna talar Frosti máli almennings.

Þess vegna hefði Brynjar Níelsson þurft að botna yfirlýsingu sína og sting ég upp á eftirfarandi:
FROSTI VERÐUR AÐ GERA UPP VIÐ SIG HVORT HANN STYÐJI RÍKISSTJÓRNINA EÐA ÞJÓÐINA.

Ég hvet Frosta Sigurjónsson til að halda sig við að styðja almannahag.

http://eyjan.pressan.is/frettir/2016/01/18/brynjar-frosti-verdur-ad-gera-upp-vid-sig-hvort-hann-stydji-rikisstjornina/