Fara í efni

NÝR FRÉTTASKÝRANDI Á RÍKISÚTVARPINU?

Auðvitað á að dæma menn af verkum þeirra en ekki merkimiðum sem á þá eru hengdir eða þeir hengja á sjálfa sig. Þannig hef ég aldrei verið andvígur því að fréttamenn séu í pólitískum flokkum – það er einfaldlega þeirra mál. Það er hins vegar mál okkar allra að dæma þá af fréttum þeirra. Þó skal ég viðurkenna að í þessu efni geta verið takmörk. Tvisvar sinnum í tengslum við kosningarnar í Írak hefur fulltrúi Bandaríkjahers verið fenginn til að tjá sig í Ríkisútvarpinu um pólitíska þróun í Írak. Maðurinn heitir Philip S. Kosnett og er kynntur sem aðstoðarsendiherra Bandaríkjanna á Íslandi. Fréttastofu RÚV finnst maðurinn greinilega áhugaverður vegna þekkingar hans á Írak. Þar var hann innsti koppur í búri hernámsliðsins enda sérfæðingur í því sem bandaríkjamenn kalla “counter-terrorism”, baráttu gegn hryðjuverkum.

Í Najaf fékk hann sérstaka heiðursorðu fyrir framgöngu sína “gegn vopnuðu uppreisnarliði Moqtada Sadr”, svo vitnað sé í gögn bandaríska sendiráðsins hér á landi um ágæti þessa starfsmanns síns. Jonathan Steele, pistlahöfundur og fréttamaður á Guardian, sagði í grein sem þar birtist 31. júlí 2003: "Few cities welcomed the fall of Saddam Hussein more enthusiastically than Najaf, and few of its powerful clerical dynasties were more delighted than the Sadrs - Saddam had killed two of their ayatollahs." Eða með öðrum orðum, að óvíða hefði falli Saddams Husseins verið meira fagnað en í Najaf, og hvað trúarhópa snertir þá hafði Saddam látið drepa tvo trúarleiðtoga Sadr fjölskyldunnar. En þrátt fyrir fögnuð við fall Saddam Hussein, var andstaða að sama skapi við hernaðarofbeldi Bandaríkjamanna. Eftir umsátrið við Najaf, þar sem nýtilkominn fréttaskýrandi RÚV fékk medalíu fyrir vasklega framgöngu, skrifaði Jason Burke í breska blaðið Observer 29. ágúst 2004 eftirfarandi um eyðilegginguna: “Whole areas of the city are now in ruins; scores of civilians are dead and tens of thousands of people have left - or lost - their homes. The hotels and restaurants that serve the pilgrim trade to the ancient town are smashed hulks, the roads are littered with ordnance, much of the world-famous cemetery has been shot to pieces.”

Fyrir nokkrum mánuðum treysti fréttastofa Ríkisútvarpsins sér ekki til að ráða fréttakonu sem tekið hafði að sér launuð verkefni fyrir Vinstrihreyfinguna - grænt framboð fyrir síðustu alþingiskosningar. Til þessara verkefna hafði hún verið ráðin vegna faglegrar þekkingar sinnar. Hún var hins vegar látin gjalda þess við starfsumsókn sína hjá RÚV. Af minni hálfu er framkoman í hennar garð ekki útrætt mál og Ríkisútvarpinu til vansa.

Meðal annars í ljósi þessa skýtur skökku við að Ríkisútvarpinu skuli finnast sjálfsagt mál að leita í smiðju hernámsliðisins um sérþekkingu á málefnum Íraks. Hefur verið gerð tilraun til að ræða við fulltrúa andófsaflanna, eða aðstandenda fólks sem sætir pyntingum í fangelsum hernámsliðsins, eða fréttamennina sem bera Allawi - sem Bandaríkjamenn hygla hvað mest í Írak – þeim sökum að hafa drepið eigin hendi fanga í fangelsi í Írak fyrir skemmstu? Hvert skyldi vera álit sérlegs fréttaskýranda Ríkisútvarpsins á því að sá maður skuli ekki einu sinni þurfa að svara til saka? Það gæti verið fróðlegt að heyra hann tjá sig um það efni í næsta pistli.

Að sjálfsögðu er eðlilegt og ekkert við því að segja að talsmaður Bandaríkjahers skýri afstöðu hersins eða Bandaríkjastjórnar og svari fyrir þessa aðila. En einhvern veginn finnst mér farið yfir strikið þegar sami aðili er kallaður til sem sérfræðingur í málefnum þess lands sem Bandaríkjaher réðist til innrásar í og hefur hersetið síðan og mun eflaust gera þar til tryggt verður að olían og önnur auðæfi Íraka verða komin í “öruggar hendur.”  

Tilvitnaðar greinar eru hér
Greinin úr Observer
Greinin úr Guardian